Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 20:43:20 (6621)

2002-03-25 20:43:20# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[20:43]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég virði göfugt markmið hæstv. ráðherra um að styrkja og bæta innviði sauðfjárræktarinnar sem atvinnugreinar eins og hæstv. ráðherra var að lýsa. En þegar við förum að setja verð á þetta verðum við að horfa á hvað verið er að greiða fyrir. Þetta er vara sem neytandi er að kaupa og það verður þá að vera á forsendum neytandans sem við gerum þennan verðmun. Ef við höfum fjármagn til þess að verðlauna einn eða annan fyrir eitthvert ákveðið ræktunarátak í sauðfjárrækt þá á það að koma ótengt vöruverðinu eða verðinu á vörunni sem slíkri því að neytandinn veit ekkert hvort hann er að kaupa, þ.e. hann vill bara fá vöru af ákveðnum gæðum en ekki endilega ættbókarnúmerin nokkra ættliði aftur í tímann sem okkur sem sauðfjárræktarmönnum (Gripið fram í.) finnst mjög gaman. Þó að okkur finnist í sjálfu sér gaman að gera það á verðmunurinn til framleiðendanna að byggjast á mælanlegum gæðum vörunnar gagnvart neytandanum. Það tel ég alveg vera númer eitt. (Landbrh.: Hvað með formann BSRB?) Varðandi formann BSRB þá stendur hann sig vel í því að semja og standa við samninga. En ég vona að formaður BSRB átti (Gripið fram í.) sig líka á því að leiðrétta þegar hann er að kanna hvort mistök hafi verið gerð eða hvort eitthvað megi betur gera. Hann lemur ekki höfðinu við steininn og segir: ,,Nú er ég búinn að gera þetta og nú skuluð þið bara ...`` (Landbrh.: 2003 er endurskoðun.)

En varðandi þetta frv. bendi ég einmitt á að þetta byggir á lögum sem sett voru fyrir tveimur árum og ekkert bannar það að setja aukið frestunarákvæði í þau lög, þ.e. um að fresta gildistöku þessa viðauka hér. En það tel ég að hæstv. ráðherra eigi að gera.