Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 20:45:42 (6622)

2002-03-25 20:45:42# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, KÓ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[20:45]

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Við erum að ræða frv. um gæðastýringu í sauðfjárrækt. Markmiðið er að vinna að betri afkomu greinarinnar, að sjálfsögðu. Í athugasemd við lagafrv. þetta segir einmitt um markmiðin að þau séu að styrkja sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda, að ná fram aukinni hagræðingu í sauðfjárrækt, að sauðfjárrækt sé í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og æskileg landnýtingarsjónarmið, að halda jafnvægi milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða --- mikilvægur punktur --- og að efla fagmennsku, þekkingu og þróun í sauðfjárrækt.

Eins og fram hefur komið er markmiðið gæðastýring. Það kemur hins vegar fram í þessu frv. að með þeirri gæðastýringu sem hér er kynnt eigi að mismuna bændum í greiðslum frá hinu opinbera eftir því hvort þeir eru í gæðastýringarkerfinu eða ekki. Ég vil í raun sjá að nánast allir bændur fari í gæðastýringu, ekki minna en 95--98% bænda taki þátt í gæðastýringu. Ég hygg hins vegar að heldur bratt hafi verið farið í þeirri möppu sem búið er að dreifa til bænda og þingmanna, að of flókið kerfi hafi verið sett í gang og þess vegna hugnist bændum ekki að fara í það gæðastýringarkerfi sem nú liggur fyrir. Ég vil beina því til hæstv. landbrh. og hv. landbn. að farið verði yfir þau atriði sem máli skipta varðandi þetta og niðurstaðan í málinu verði sú að bændum verði ekki mismunað vegna þess að einhverjir verði fyrir utan gæðastýringuna. Allir eiga að fara inn. Það held ég að sé mál sem við verðum að vinna að. Gæðastýringin þarf auðvitað að skila sér til neytenda í ódýrari og betri afurðum, og jafnframt til bændanna í auknum tekjum.

Ég hefði viljað sjá, hæstv. landbrh., að meira tillit hefði verið tekið til ræktunarstarfsins hjá bændunum í gæðastýringarmöppunni sem hér liggur frammi, meiri áhersla hefði verið lögð á ræktun íslenska fjárstofnins þannig að við værum að skila betra hráefni til neytenda. Þegar ég tala um betra er ég að tala um meira ræktað fé, þ.e. með meiri hryggvöðva, betri kótelettur, betra á grillið, minni fitu og betri læri. Það eru lær- og hryggvöðvarnir sem neytendur eru að sækjast eftir en því miður kemur það mat sem nú er við lýði og það gæðastjórnunarkerfi sem verið er að kynna okkur hér ekki endilega þessum þáttum sauðfjárræktarinnar til neytandans. Ég held að við ættum að huga betur að því stórmerkilega fyrirbrigði sem fjárræktarfélögin í landinu hafa stundað í áratugi. (Gripið fram í: Það er verið að því.) Það þarf að gera enn betur á þessu sviði og færa það alla leið til neytandans. Það held ég að sé málið sem við þurfum að laga. Ég treysti því að hv. landbn. og hæstv. landbrh. gangi þá götu sameiginlega að gera betur á þessu sviði.

Gæðastýringin sem hér hefur verið kynnt byggir að miklu leyti á að skjalfesta framleiðsluaðferðir og -aðstæður. Ég var að benda á að við þyrftum að ganga lengra gagnvart framleiðsluvörunni og varðandi neytendur. Þannig á þetta að skila sér á milli þessara tveggja hópa sem eru neytendur og bændur.

Þá vil ég aðeins koma að þætti sem er ekki í þessu frv. í sjálfu sér en varðar afkomu þessarar greinar, og það eru markaðsmálin. Þau þurfa jafnframt að tengjast enn betur og ekki síður lagasetning um útflutningsskyldu á lambakjöti. Hún hefur verið við lýði í nokkur ár og gert það að verkum að mínu mati að hvatinn til að stunda íslenskan markað hefur minnkað hjá sláturleyfishöfum. Öðrum kjöttegundum á íslenskum markaði hafa gefist frekari tækifæri. Svo hrekjast sauðfjárbændur með sínar afurðir úr landi. Þessu þarf að bregðast við og fara yfir þau markaðsmál sem tengjast útflutningsskyldunni. Þar tel ég að sé lykillinn í sóknarfærum á íslenskum markaði fyrir sauðfjárbændur og við þurfum að koma því m.a. að í þessum málum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða tímanum öllu lengur í kvöld. Það er orðið áliðið og ég tel ekki ástæðu til frekari ræðuhalda en samt vil ég aftur leggja á það áherslu við hæstv. ráðherra að skoðað verði hvort ekki megi fara frekar yfir þetta frv. með tilliti til þess að albestu bændur sjái sér fært og sjái sér hag í því að fara inn í gæðastýringuna. Ég tel það mjög mikilvægt.

Sumum bændum sem komnir eru á efri ár hrýs kannski hugur við að setja sig inn í þessa miklu möppu sem verið er að kynna. Þess vegna tel ég mjög eðlilegt að sett yrði upp ákveðin aðlögun fyrir þá menn sem eiga kannski 4--5 ár eftir í greininni, þeir fái einhvern aðlögunartíma þannig að þeir geti komist að gæðastýringunni en þurfi ekki að útilokast strax frá rúmlega 1/5 af beingreiðslum vegna þess að þeir fara ekki inn í gæðastýringuna strax.

Hæstv. landbrh. talaði fyrr í dag um gulrót, það þyrfti að vera gulrót í þessu kerfi. Ég er mikill gulrótamaður og er sammála því að það sé sjálfsagt að hafa einhverja gulrót fyrir bændur þannig að þeir nái þeim markmiðum sem eru einmitt í frv. Ég held að sjálfsagt sé að huga að því. Spurningin er, herra forseti, hvað þarf margar. Nægir ein?