Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 20:53:21 (6623)

2002-03-25 20:53:21# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[20:53]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. ágæta ræðu og get tekið undir flestallt það sem hann sagði í máli sínu. Ég er honum að miklu leyti mjög sammála. Ég vil sjá helst 100% þátttöku bænda í gæðastýringunni. Ég er samþykkur því að menn fari vel yfir þetta á allan hátt. Ég heyri fátt af bréfum frá Norður-Þingeyingum sem eru að keyra eftir kerfinu. Þau berast ekki. Þeir vita að þetta er ekki flókið. En auðvitað verður farið yfir þetta á þinginu og með bændaleiðtogunum.

Hv. þm. veit jafn vel og ég um ræktunarstarfið og ég er alveg sammála honum í að það þarf að leggja mikla áherslu á það og það er verið að því í þessum samningum. Það er gert með því að menn komi inn í skýrsluhald, kynbótaskýrsluhald, allur bústofn verði skráður. Allir menn eru komnir inn í ræktunarstarfið, í kynbótaskýrslustarfið, og það mun leiða af sér að hryggurinn verður betri, lærin og frampartarnir sömuleiðis og fitan verður minni. Kjötgæðin verða meiri. Þetta mun allt leiða af þessum samningi, ég er klár á því, þannig að mér finnst sú aðferðafræði hvað þetta varðar meira en ásættanleg.

Svo vil ég spyrja hv. þm. hvort hann sé ekki sáttur við það sem neytendur gera kröfur um, um lyfjanotkun og áburðinn. Ég held að okkur greini ekki mjög á. En auðvitað fer landbn. yfir málið með leiðtogum þessa samnings, verkalýðsfélagi sauðfjárbænda, landssamtökum sauðfjárbænda og Bændasamtökunum þannig að auðvitað verður þetta unnið af þeirri fagmennsku sem ber að viðhafa.

Ég hef ekki búið þennan samning út. Ég styð hann. Hann var lýðræðislega lagður fyrir og samþykktur, hann er staðreynd og hann geymir heilmikla peninga til að styrkja sauðfjárræktina.