Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 20:56:35 (6625)

2002-03-25 20:56:35# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[20:56]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Það getur hjálpað vörunni á markað, bæði innan lands og erlendis. Þannig eru kröfurnar að verða að neytandinn vill að þessi skráning eigi sér stað. Við sjáum hverju við stöndum frammi fyrir. Hér hefur verið minnst á merkingarnar sem nú eru á lambakjöti og hafa brugðist í Evrópu og kjötið verið brennt. Þetta hefur allt saman sín áhrif.

Hv. þm. minntist í ræðu sinni á útflutningsskylduna. Ég er að hluta til sammála honum í því efni. Við skulum átta okkur á því að í íslenskum landbúnaði hefur orðið samkomulag um að lambakjötið sé gullið sem eigi að víkja af markaðnum og setja á það útflutningsskyldu og það eru sauðfjárbændurnir sem borga það. Það getur vel verið að í því liggi að menn séu að rýma til fyrir öðrum kjöttegundum á markaðnum og fara þá fyrst af stað með kúfinn af lambakjötinu út af því að það er það kjöt sem best gengur og hæst verð fæst fyrir erlendis. Hv. þm. hafa gert lítið úr því. Samt er það svo, t.d. í Bandaríkjunum, að menn hafa fengið á fjórða þús. kr. fyrir kílóið af lambahrygg. (ÖS: Sex.) Sex þúsund, segir hv. þm. og er víðförull og oftast sannsögull, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, þannig að ekki ætla ég að rengja hann í þessu. En þetta verð höfum við séð. Við höldum í höndina á mjög dýrmætum markaði. Og eigum við bara að taka þátt í að slá hann af eða eigum við að reyna að þróa hann og taka þátt í því í fimm eða sjö ár til að gá hvort enn þá geti ekki sauðagullið orðið að veruleika? Ég vil a.m.k. ekki verða sá landbrh. sem lokar á útflutning á einhverri bestu kjötafurð heimsins. Ég vil ekki standa í því --- eða ætla menn mér það? --- þannig að varðandi útflutningsskylduna get ég samt sem áður tekið undir það með hv. þm. að lambakjötið fer út af því að það selst fyrir hátt verð en víkur auðvitað í mörgum tilfellum fyrir hluta af kjötinu á markaðnum.