Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 20:59:42 (6627)

2002-03-25 20:59:42# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, PHB
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[20:59]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Fyrir tæpum tveimur árum, þegar við ræddum þann fræga búvörusamning sem við erum nú að ræða afleiðingar af, hélt ég nokkrar ræður og greiddi einn þingmanna atkvæði gegn honum með þeim rökum að hann væri slæmur fyrir bændur, skattgreiðendur og neytendur.

[21:00]

Ég hef hlustað á umræðuna í dag og heyrt ræður mínar aftur nákvæmlega frá orði til orðs svo ég þarf varla að halda þær. Það er rétt að í núverandi búvörusamningi er framleiðsluhvatning, bændir eru hvattir eða neyddir til að framleiða vegna þess að þeir skulu hafa 0,6 á á fóðrum fyrir hvert ærgildi, þ.e. ef þeir hafa 10 ærgildi skulu þeir hafa 6 kindur á fóðrum. Það vill svo til að sex kindur eiga lömb á vorin. Það þekkja bændur. Þessum lömbum er slátrað á haustin. Af þessum lömbum kemur kjöt. Þetta er sem sagt framleiðsla, hvatning til framleiðslu og ekkert annað. Menn fá ekki beingreiðslurnar öðruvísi, ekki nema þeir framleiði kjöt, er þó ekki á bætandi eftir því sem heyrist.

Herra forseti. Það er mjög tíðkað og þykir fínt að hafa gæðaeftirlit og gæðaeftirlitskerfi. Ég er hjartanlega sammála því að það er gott mál að atvinnugreinar og fyrirtæki setji sér gæðaeftirlitskerfi og þrói með sér gæðaeftirlitskerfi. En þau eru alltaf að kröfu markaðarins, þess sem kaupir. Þau eru sett á með vilja framleiðendanna. Þeim er aldrei þrýst ofan í kokið á framleiðandanum ofan frá. Á því er reginmunur. Ef bændur sjá það sjálfir að þeir standi betur með gæðaeftirlitskerfi þá taka þeir það að sjálfsögðu upp. Ef markaðurinn krefst þess taka þeir það upp. En hér er verið að ræða gæðaeftirlitskerfi sem einhverjir skriffinnar í Reykjavík hafa fundið upp. Þeir hafa meira að segja komist að því að fallega máluð íbúðarhús í sveitum vekja áhuga á gæðum kjötsins. Þvílíkt og annað eins. Þeir vilja hafa það þannig og það hefur ekkert með gæðaeftirlit að gera, ekki nokkurn skapaðan hlut. En þannig er mjög margt.

Við hv. þm. fengum mjög miklar möppur á borðin hjá okkur. Ég var að reyna að glugga í þetta. Ég hugsa að þessi mappa kosti tvö þúsund kall og bara þingið kostar þá 120 þús. Þessi mappa er mjög dýr og hún er afskaplega viðamikil. Hún er afskaplega torskilin. Ég reyndi að glöggva mig á þessu einhvern tíma í umræðunni. (ÖS: Við skiljum hana, í Samfylkingunni.) Það er gott að hv. þm. Samfylkingarinnar skilja hana. Þeir vita þá nákvæmlega undan hverju bændur eru að kvarta eða hvað? (ÖS: Já.) Þá vita þeir nákvæmlega af hverju þeir gerðu mistök með því að greiða atkvæði með búvörusamningnum. (Gripið fram í.) Þeir greiddu atkvæði með búvörusamningnum allir sem einn og bera því ábyrgð á þessu. Þá vita bændur hvert þeir eiga að snúa óánægju sinni, það eru sem sagt hv. þm. Samfylkingarinnar sem eiga sökina á þessu. (ÖS: Ekki að stjórnarliðinu --- þeir bera enga ábyrgð.) Þeir eru alla vega ekki að hreykja sér af því að hafa skilið þetta og samþykkt.

Herra forseti. Þessi mappa, þetta gæðaeftirlit sem hér er komið á er í mörgum liðum. Hér er fjallað um landnýtingu, í þessu er skriffinnska o.s.frv. Svo er hérna skóli. Bændur eiga að fara í tveggja daga skóla. Ég hygg að margur gamall bóndi muni skirrast við að fara í skólann og jafnvel þeir yngri líka. Þeir eru ekkert vanir því. Hvað gerist? Þá eru lækkuð launin þeirra. Þá eru beingreiðslurnar lækkaðar, fyrst um 12,5% og síðan í 22,5%. Ég hygg að þetta séu ekki ríkustu bændurnir, herra forseti. Þetta eru sennilega fátækustu bændurnir sem margra áratuga landbúnaðarkerfi er búið að gera svo fátæka að það er með ólíkindum. Nú á að gera þá enn þá fátækari. Þeir líta sennilega á þetta eins og Kötlugos eða einhverjar hörmungar sem dynja yfir.

Þetta er ekki sniðugt, herra forseti. Þetta er ekki sniðugt. Þeir verða enn fátækari af því að þeir geta ekki fullnægt öllum þeim kröfum sem skriffinnanir í Reykjavík hafa látið sér detta í hug. Að mála útihúsin, þeir eiga kannski ekki fyrir því, og fara í skóla, sem þeir treysta sér kannski ekki til.

Ég sagði að búvörusamningurinn væri fullur af mannvonsku. Ég stend við það. Og nú er það að koma upp að bændur um allt land eru að uppgötva sannleikann. Þeir eru að uppgötva þetta gæðaeftirlit sem er þrýst ofan í kokið á þeim af skriffinnum í Reykjavík. Það rignir yfir bréfum. En þetta eru ræðurnar sem ég hélt fyrir tveimur árum, tæpum meira að segja. Ég held að ég sé ekkert að endurtaka þær.

Það var mjög athyglisvert sem hæstv. landbrh. sagði rétt áðan: Eigum við, þ.e. háttvirtir þingmenn, að tapa þessum gullmarkaði? Hann setur hv. þm. í stöðu framleiðenda. Hann lætur sem hv. þm. séum markaðsmenn fyrir landbúnaðarafurðir, eins og við hv. þm. séum að framleiða landbúnaðarafurðir. Ég hélt að það væru bændur sem framleiddu afurðirnar og ættu að hafa áhyggjur af því hvort einhver markaður væri góður eða slæmur. En þetta sýnir einmitt hve langt menn eru komnir í miðstýringunni og forsjárhyggjunni. Ég hef margoft spurt að því: Hvenær hættu bændur að vera bústólpar? Hvenær urðu þeir að þrælum?