Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 21:43:17 (6642)

2002-03-25 21:43:17# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[21:43]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hlustaði á formann landbn. tala um þetta mál í dag. Mér finnst að hæstv. ráðherra ætti að svara því betur sem kom fram í máli hv. formanns. Hún sagði að þetta mál hefði verið kynnt á röngum forsendum fyrir bændum, að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar hefði verið þannig fengin að bændur hefðu ekki vitað hvað þeir voru að greiða atkvæði um og að þeir hefðu talið að forsendur á bak við væru aðrar en raunin var.

Mér finnst full ástæða til þess að hæstv. ráðherra svari því svolítið betur hvort það eigi þá ekki að skoða málin upp á nýtt ef þannig hagar til. Hv. þm. sagði að þetta væri gagnslítið kerfi og tilraun til ráðstjórnar. Mér finnst það undarleg bjartsýni af hæstv. ráðherra að halda að þetta mál komi þá út úr nefnd undir handarjaðri hv. formanns landbn. án þess að það verði búið að gera á þessu verulegar breytingar og skoða það hvort svona hagar til.