Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 21:45:36 (6644)

2002-03-25 21:45:36# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[21:45]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Svefnvenjur manna eru misjafnar og ég geri ráð fyrir að þessi sneið hafi verið ætluð hv. formanni landbn., sem ég hafði þessa hluti eftir, en ekki öðrum. Ég hef líka séð bréf frá bændum sem virðast hafa sofið í rúmum sínum með sama hætti og hæstv. ráðherra var að ætla mér. Ég hef fylgst með þessari umræðu í dag og ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það ekki hafa komið skýrt fram að skilningur bænda, sem hér hefur verið sagt frá, hafi ekki verið sá að þeir hafi talið þessa kröfu, um að hafa þetta eins og það er, hafa komið frá ríkinu en ekki Bændasamtökunum. Það virðist hafa verið sá reginmisskilningur sem var á ferðinni.