Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 21:52:18 (6647)

2002-03-25 21:52:18# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[21:52]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir áhyggjur hv. þm. Þannig getur það farið. Þetta er auðvitað sama staðan í sjávarútvegi og víðar eins og hv. þm. segir. Byggðirnar verða að taka þátt. Það kann að vera að afurðastöðvarnar í sauðfjárbúskapnum séu miklu veikari en í mjólkurframleiðslunni og geti þess vegna ekki beitt sér eins og þær gerðu.

Hitt er annað mál að margar þjóðir sem búa við kvótakerfið og eru á heimsmarkaði þess vegna með afurðir sínar beita öðrum úrræðum, Danir, Kanadamenn og fleiri ríki í Evrópu, Írland o.s.frv. Þar er beitt allt öðru kerfi til að koma á viðskiptum milli manna. Markaðurinn þarf ekki að vera flókinn. Það er kannski einn maður sem stýrir markaðnum í mjólkinni eða kjötinu í gegnum eina tölvu, tilboðin berast og þau eru jöfnuð þar. Þannig nást viðskipti á milli bónda og bónda án milliliða. Það mundi hægja á þróuninni. Það mundi breyta verðinu. Svona kerfi gætu átt rétt á sér og við þurfum virkilega að skoða þau því að enn er eitt atriði, ef bændur framtíðarinnar sem ætla að berjast í þessari matvælaframleiðslu verða of skuldum hlaðnir og fátækir munu þeir auðvitað ekki geta keppt við þann innflutning sem hér mun e.t.v. eiga sér stað í framtíðinni. Þess vegna er mjög mikilvægt að fara yfir það með hvaða hætti ríkisstuðningur er seldur, hvort sem það er í mjólk eða sauðfé. Ég tek undir það með hv. þm.