Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 21:57:58 (6649)

2002-03-25 21:57:58# 127. lþ. 104.5 fundur 630. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gróðurhúsaafurðir og garðávextir) frv. 84/2002, landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[21:57]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég flyt frv. á þskj. 1001 í 630. máli sem hefur að geyma breytingu á ákvæðum laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, sem miða að því að hafa áhrif á framleiðslu og markaðssetningu gróðurhúsaafurða og garðávaxta.

Í aprílmánuði 2001 skipaði ég starfshóp um framleiðslu- og markaðsmál gróðurhúsaafurða og garðávaxta sem m.a. var falið að meta starfsskilyrði við álagningu tolla og verðmyndun á gróðurhúsaafurðum og garðávöxtum við framleiðslu, heildsölu og smásölu. Enn fremur skyldi starfshópurinn gera tillögur til landbrn. um hvernig tryggja mætti framleiðslumöguleika íslenskrar garðyrkju og lækka verð á gróðurhúsaafurðum og garðávöxtum til neytenda.

Í áfangatillögu starfshópsins til landbrh. frá 30. apríl 2001 var lagt til að tollar á afurðir innan 7. kafla tollskrár sem ekki eru framleiddar hér á landi yrðu felldir niður. Á grundvelli þessarar áfangatillögu lagði ég fyrir ríkisstjórnina þann 4. maí 2001 drög að frv. til laga um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987, sem ráðgjafarnefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara hafði samið að beiðni minni. Frv. hafði að geyma ákvæði sem gáfu möguleika á að veita aukið svigrúm til að fjölga þeim grænmetistegundum og því magni sem unnt yrði að flytja inn á lægri tollum eða án tolla. Um var að ræða vörur svo sem lauk, rósakál, jöklasalat, ertur, belgaldin, spergil, kúrbít, ólífur o.fl. Með lögum nr. 86/2001, um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, varð frv. að lögum. Með reglugerð nr. 439/2001, um tollkvóta á grænmeti og niðurfellingu tolla, kom það til framkvæmda með niðurfellingu á 30% verðtolli sem lagður var á þessar afurðir auk nokkurra magntolla.

[22:00]

Hæstv. forseti. Það er mikill hljómur og sterkar raddir handan við vegginn sem trufla mig mjög hér við ræðuflutninginn.

(Forseti (GuðjG): Nú hafa verið gerðar ráðstafanir til að loka dyrunum þannig að hæstv. ráðherra geti talað ótruflaður.)

Talað í friði, hæstv. forseti.

Hæstv. forseti. Starfshópurinn skilaði mér síðan lokatillögum í janúar 2002 sem voru í megindráttum þessar:

1. Verðtollur, sem nú er 30%, verði felldur niður af útiræktuðu grænmeti, sveppum og kartöflum. Magntollur er tryggi markaðsstöðu innlendra afurða verði lagður á þegar framboð af innlendri framleiðslu er nægjanlegt að magni og gæðum. Þá er lagður til aukinn sveigjanleiki á tollum þannig að heimilt verði að skipta verð- og/eða magntolli upp í 10/100 í stað 25/100 á þær vörur sem fluttar eru inn samkvæmt þeim tollkvótum sem tilgreindir eru í viðaukum IV A og B við tollalög, nr. 55/1987.

2. Til að lækka verð til neytenda falli verð- og magntollur niður af gúrkum, tómötum og papriku. Í stað þess verði teknar upp beingreiðslur til framleiðenda út á þessar afurðir til að jafna samkeppnisskilyrði innlendra aðila gagnvart innflutningi. Heildarfjárhæð beingreiðslna á ári verði 195 millj. kr. sem skiptist niður á framleitt magn einstakra afurða innan ársins samkvæmt staðfestum upplýsingum um sölu þessara afurða, eftir nánari reglum.

3. Ylræktendum verði tryggt rafmagn til lýsingar á verði sem sé sambærilegt við það sem er í boði erlendis, m.a. í Noregi og Kanada. Enn fremur verði veittir styrkir til fjárfestingar í lýsingarbúnaði í ylrækt sem nemi um 30% af kostnaði að hámarki, þó ekki umfram tiltekna fjárhæð á hvern fermetra. Áætlaður kostnaður þessa liðar er 30--35 millj. kr. á ári. Sú fjárhæð getur hækkað með aukinni lýsingu en að hámarki greiðast 1,08 kr. á kílóvattstund hverju sinni.

4. Boðnir verði styrkir til úreldingar á gróðurhúsum sem hafa verið í framleiðslu sl. tvö ár, allt að 30 millj. kr. á ári í fimm ár, eftir nánari reglum.

5. Veitt verði sérstök framlög úr ríkissjóði, 25 millj. kr. á ári, til kynningar-, rannsóknar-, þróunar- og endurmenntunarverkefna í ylrækt og garðrækt í þeim tilgangi að efla samkeppnishæfni ylræktar og garðræktar.

6. Tekin verði til endurskoðunar stofnlán til garðyrkju, fjármögnun og stærðarmörk í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að fyrirkomulag þeirra stuðli að óhagkvæmni í greininni.

7. Hvatt verði til öflugs verðlagseftirlits þar sem komið verði á formlegu samstarfi Bændasamtaka Íslands, Sambands garðyrkjubænda, verkalýðshreyfingar, Samtaka atvinnulífsins og stjórnvalda til greiningar og upplýsinga um myndun verðlags á grænmeti og ávöxtum.

Hæstv. forseti. Ég hef nú þegar lagt fyrir yfirstandandi löggjafarþing Alþingis frv. til laga um breytingu á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum, sem miðar að því að koma í framkvæmd tillögu í 1. tölul. í áliti starfshópsins. Af grænmetistegundum sem breytingin nær til má nefna hvítkál, rauðkál, kínakál, spergilkál og rauðrófur. Verðtollurinn hefur þegar verið felldur niður með setningu reglugerðar nr. 114/2002 og 115/2002. Hins vegar er gert ráð fyrir að magntollum verði beitt þegar framboð af innlendri framleiðslu er nægjanlegt að magni og gæðum og lagt er til að þeim verði áfram stjórnað með reglugerð.

Í frv. þessu er gert ráð fyrir að tillögum 2--5 verði veitt lagagildi en þó þannig að landbrh. og Bændasamtökum Íslands verði veitt heimild til að semja um nánar tilgreind grundvallaratriði þeirra. Jafnframt er gert ráð fyrir að nánari útfærsla á framkvæmd þeirra verði ákveðin með reglum sem landbrh. setur með reglugerðum og öðrum stjórnvaldsaðgerðum.

Nauðsynlegt er talið að landbrh. hafi víðtækar heimildir til að stjórna upphæðum beingreiðslna á kíló afurðar og öðrum ráðstöfunum sem fjallað er um í frv. þar sem gert er ráð fyrir að þessi atriði muni að verulegu leyti ráðast af framboði og eftirspurn einstakra vörutegunda á hverjum tíma. Heildarfjárhæð til beingreiðslna er hins vegar bundin við tiltekna upphæð á ári sem landbrh. breytir ekki í reglugerð.

Hæstv. forseti. Í samræmi við þetta er í frv. þessu gert ráð fyrir að landbrh. verði heimilt að gera samning við Bændasamtök Íslands og Samtök garðyrkjubænda um verkefni í þeim tilgangi að ná settum markmiðum laganna. Heimilt verður að semja um beinar greiðslur til framleiðenda til lækkunar á verði einstakra tegunda, framlög til rekstraraðfanga, framlög til fjárfestinga, framlög til úreldingar á gróðurhúsum og framlög til kynningar-, rannsóknar-, þróunar- og endurmenntunarverkefna. Einnig er gert ráð fyrir að landbrh. verði heimilt að fela öðrum stofnunum eða Bændasamtökum Íslands að annast faglega umsjón þeirra verkefna sem samið er um og framkvæmd þeirra, enda sé skipulag þeirra og starfsreglur í samræmi við ákvæði laganna.

Enn fremur er gert ráð fyrir að heimilt verði að greiða mismunandi háar beingreiðslur á kíló afurðar eftir tímabilum til að aðlaga framleiðsluna sem best að eftirspurn svo og að flytja slíkar greiðslur á milli tegunda. Það þýðir að framleiðendur sem framleitt hafa tómata í tiltekinni garðyrkjustöð á árinu 2001 geta fengið beingreiðslur á árinu 2002 fyrir framleiðslu á gúrkum í sömu garðyrkjustöð. Rétt til beingreiðslna munu allir framleiðendur á tómötum, gúrkum og papriku öðlast en þó þannig að réttur til beingreiðslna árin 2002 og 2003 verður takmarkaður við að hafin sé framleiðsla á viðkomandi vörutegund þann 1. mars 2002 í þeirri garðyrkjustöð sem sótt er um beingreiðslur vegna eða að vörutegundin hafi verið framleidd þar á árinu 2001. Jafnframt er gert ráð fyrir að þessi réttur verði bundinn við framleiðslustað en ekki framleiðanda.

Á hverju lögbýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi beingreiðslna. Þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða með aðskilinn búrekstur getur hver og einn þeirra verið handhafi beingreiðslna.

Ef framleiðandi verður ekki við kröfum um gögn eða upplýsingar skal réttur hans til beingreiðslna felldur niður. Framleiðandi sem hefur tekið við beingreiðslum á grundvelli rangra upplýsinga skal endurgreiða ofteknar beingreiðslur með 50% álagi.

Þá er í frv. gert ráð fyrir að úrskurðarvald um ágreining um beingreiðslur verði í höndum úrskurðarnefndar sem starfar á grundvelli 42. gr. laganna. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að landbrh. setji með reglugerð og öðrum stjórnvaldsreglum ákvæði um framkvæmd verkefna samkvæmt lögunum, m.a. um fjárhæð beingreiðslna og skiptingu þeirra á tegundir miðað við nánar tiltekin frávik, uppgjör beingreiðslna, skil á gögnum, upplýsingum o.fl.

Hæstv. forseti. Meginmarkmiðið með ákvæðum þessa frv. er að lækka verð til neytenda á innfluttum sem og innlendum gróðurhúsaafurðum og garðávöxtum og að treysta jafnhliða tekjugrundvöll þeirra sem framleiða þessar afurðir hér á landi. Ljóst er að verð á grænmeti hér á landi hefur á undanförnum árum verið allt of hátt en það á sér eðlilegar skýringar. Framleiðslukostnaður grænmetis hér á landi er hár vegna aðstæðna. Rafmagnið er stór þáttur í þeim kostnaði. Íslenskir grænmetisframleiðendur hafa því ekki átt þess kost að keppa með vörur sínar á jafnræðisgrundvelli við innfluttar vörur af sömu tegund. Hafa þeir aðeins fengið stuðning af aðflutningsgjöldum við innflutning eftir að innflutningur þessara afurða var gefinn frjáls vegna fullgildingar Íslands á samningi um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar á árinu 1995, WTO-samningsins, ásamt þeim lagabreytingum sem fylgdu í kjölfarið. Þetta hefur leitt til þess að verð á grænmeti hefur verið tiltölulega hátt hér á landi. Ef lækka á verð á grænmeti hér á landi verður að gera það á þann hátt að hagsmunir innlendra framleiðenda séu tryggðir með fullnægjandi hætti gagnvart innflutningi. Það verður ekki gert nema með því að grípa til sérstakra ráðstafana eins og þeirra sem frv. þetta gerir ráð fyrir.

Það er von mín að þetta frv. eigi eftir að hafa í för með sér lægra verð á grænmeti til neytenda. Við sjáum það í raun þegar hér í landinu síðustu dagana, verðið hefur lækkað verulega í verslunum, ekki síst á innlendu grænmeti. Við afnám tollanna hefur átt sér stað veruleg lækkun á þessum afurðum. En það er ljóst að það hefur mikla þýðingu fyrir íslensku þjóðina og íslenskt samfélag út frá heilbrigðis- og manneldissjónarmiðum að þetta eigi sér stað. Hér er um hollustuvöru að ræða sem manneldisfræðingar og margir hafa lagt mikla áherslu á að mikilvægt væri að lækka í verði.

Þá er ekki síður þýðingarmikið að lækka framfærslukostnað í landinu til að hamla gegn þeim verðhækkunum sem hafa gengið yfir að undanförnu og draga úr verðbólgu. Sú lækkun grænmetis sem átt hefur sér stað að undanförnu með lækkun tolla og nú beingreiðslum til garðyrkjubænda er þýðingarmikið skref í verðlagsmálum í þeim tilgangi að halda verðlagshækkunum innan þeirra rauðu strika sem aðilar vinnumarkaðarins hafa samið um og öll þjóðin treystir á að muni halda.

Á fskj. I er kostnaðarumsögn fjmrn. um frv. Ég læt nægja að vísa þangað. Ég vil að öðru leyti vísa til grg. þeirrar er fylgir frv. og athugasemda við einstakar greinar frv.

Ég er auðvitað þakklátur þeim aðilum sem komu að þessari vinnu, bæði bændunum með sínum fulltrúum en ekki síður verkalýðshreyfingunni, BSRB og ASÍ og öllum þeim sem komu að þessu með stuðningi. Þeim þakka ég sérstaklega þá vinnu sem hér hefur farið fram.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.