Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 22:15:28 (6651)

2002-03-25 22:15:28# 127. lþ. 104.5 fundur 630. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gróðurhúsaafurðir og garðávextir) frv. 84/2002, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[22:15]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir til umræðu er um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Kveikjan að samningu þessa frv. var vegna mikilla umræðna sem urðu m.a. á Alþingi um verðlagningu og verðhækkanir á grænmeti sem höfðu orðið gríðarlegar hér á landi á fyrri hluta síðasta árs.

Í apríl það ár skipaði landbrh. starfshóp um framleiðslu og markaðsmál gróðurhúsaafurða og garðávaxta sem átti m.a. að meta starfsskilyrði við álagningu tolla og verðmyndun á gróðurhúsaafurðum og garðávöxtum við framleiðslu, heildsölu og smásölu. Enn fremur skyldi starfshópurinn gera tillögur til landbrn. um hvernig tryggja mætti framleiðslumöguleika íslenskrar garðyrkju og lækka verð á gróðurhúsaafurðum og garðávöxtum til neytenda.

Starfshópurinn hóf viðamikið starf við upplýsingaöflun og aflaði ýmissa gagna. Meðal annars fól hann ASÍ að gera verðkannanir fyrir og eftir tollabreytingu á grænmeti sl. vor. Einnig var unnin skýrsla um grænmetismarkaðinn í Danmörku og auk þess aflaði starfshópurinn viðamikilla upplýsinga frá mörgum samtökum og stofnunum hér innan lands sem voru lagðar til grundvallar þessu frv.

Í áfangaskýrslu sem starfshópurinn skilaði til landbrh. 30. apríl 2001 var lagt til að tollar á afurðir innan 7. kafla tollskrár sem ekki eru framleiddar hér á landi yrðu felldir niður. Slíkt frv. var svo lagt fyrir ríkisstjórn 4. maí 2001 og það fól í sér möguleika til að gefa aukið svigrúm til að fjölga þeim grænmetistegundum og því magni sem unnt yrði að flytja inn á lægri tollum eða án tolla. Með reglugerð nr. 439/2001 um tollkvóta á grænmeti og niðurfellingu tolla kom þessi tillaga til framkvæmda með niðurfellingu á 30% verðtolli sem lagður var á þessar afurðir auk nokkurra magntolla.

Í áfangaáliti starfshópsins var lagt til að kannað yrði hvort æskilegt væri að taka upp beinar greiðslur til framleiðenda til að jafna aðstöðu milli innflutts grænmetis og innlends. Í áliti starfshópsins kom líka fram að WTO-samningurinn gæfi svigrúm til að veita þau framlög sem tillögur hópsins fela í sér, þ.e. veita niðurgreiðslur.

Lokatillögurnar voru eftirfarandi:

Verðtollur, sem nú er 30%, verði felldur niður af útiræktuðu grænmeti, sveppum og kartöflum. Þá er lagður til aukinn sveigjanleiki á tollum. Hér fór í gegnum Alþingi núna fyrir u.þ.b. viku frv. sem gerir ráð fyrir þessum sveigjanleika á tollum, þ.e. að í stað þess að sveigjanleikinn hljóp á 25% áður hleypur hann núna á 10%. Þótti nú ýmsum þetta ekki merkilegt upplegg, en þetta er nauðsynlegt til að framkvæma það sem hér er áformað.

Til að lækka verð til neytenda falli verð- og magntollur niður af gúrkum, tómötum og papriku. Teknar verði upp beingreiðslur til framleiðenda út á þessar afurðir til að jafna samkeppnisskilyrði innlendra aðila gagnvart innflutningi. Heildarfjárhæð beingreiðslna á ári verði 195 millj. kr.

Ylræktendum verði tryggt rafmagn til lýsingar á verði sem sé sambærilegt við það sem er í boði erlendis.

Ég furðaði mig svolítið á þessu. Ég hélt að við gætum tekið kannski hugsanlega stærra skref en þetta því að við höfum alltaf hrósað okkur af því hérna á Íslandi að við værum með ódýrt rafmagn og mjög ákjósanlegar náttúrlegar aðstæður til rafmagnsframleiðslu. Við höfum verið að bjóða erlendri stóriðju rafmagn á mjög lágum töxtum. Ég hélt nú kannski að við þessar aðstæður væri reynt að bjóða garðyrkjunni upp á a.m.k. jafnhagstætt verð og verið er að bjóða erlendri stóriðju. Það hefur ekki þótt fært í þessari umferð. Hins vegar er ákveðið að veita styrki til fjárfestingar í lýsingarbúnaði sem nemi 30% af kostnaði og skiptir það sjálfsagt miklu máli. Ég vona að í áframhaldinu verði skrefið tekið til fulls og verðið verði sambærilegt við það sem verið er að bjóða erlendri stóriðju.

Það verða líka boðnir styrkir til úreldingar á gróðurhúsum sem hafa verið í framleiðslu síðustu tvö ár, allt að 30 millj. kr. á ári í fimm ár, eftir nánari reglum.

Einnig er áformað að veita sérstök framlög úr ríkissjóði, 25 millj. kr. á ári, til kynningar-, rannsóknar-, þróunar- og endurmenntunarverkefna í ylrækt og garðrækt.

Jafnframt verði til endurskoðunar stofnlán til garðyrkju.

Og í síðasta lagi, sem þó er ekki minnst mikilvægt í þessu sambandi, er hvatt til öflugs verðlagseftirlits.

Verkalýðshreyfingin hefur þegar tekið að sér að sjá hér um nokkuð öflugt verðlagseftirlit. Mér skilst að í framhaldi af framkvæmd þessa ákvæðis verði það enn þá viðameira og nákvæmara. Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt svo að ekki fari fyrir þessum beingreiðslum, sem eiga auðvitað að verða til þess að lækka verðið til neytenda, eins og farið hefur fyrir sumum öðrum beingreiðslum sem hafa verið svolítið til umræðu hér í dag og ég ætla ekki að fjölyrða meira um, þ.e. að þær fari kannski í milliliði, því að það er alveg hugsanleg niðurstaða úr þessu máli. Því verður að fylgja mjög vel eftir að það gerist ekki. Það verður bara að elta þá upp í Öskjuhlíð ef þess gerist þörf.

Það er eitt ákvæði hérna um þessar beingreiðslur, þ.e. að réttur til beingreiðslna árin 2002 og 2003 verði takmarkaður við að hafin sé framleiðsla á viðkomandi vörutegund 1. mars 2002 í þeirri garðyrkjustöð sem sótt er um beingreiðslur vegna.

Ég verð að segja að mér finnst það óþarflega stuttur tími sem viðkomandi garðyrkjustöð þarf að hafa verið í framleiðslu, þ.e. að hún þurfi bara rétt að hafa hafið framleiðslu núna í þessum mánuði. Hefðu kannski einhverjir sem hefðu vitað að þetta frv. væri væntanlegt getað rokið upp til handa og fóta og farið að setja niður til þess að verða þessara beingreiðslna aðnjótandi. Ég held að ágætt væri að miða við eitthvað lengra tímabil ræktunar í viðkomandi garðyrkjustöð.

Fram kemur í umsögn frá fjmrn. um þetta frv. að það hafi í för með sér 360 millj. kr. útgjöld fyrir ríkissjóð fyrstu fimm árin, en eftir það 330 millj. kr. á ári og að samanlagður kostnaður í tíu ár verði um 3.450 millj. kr.

Ég tek fram að í meginatriðum, við fyrstu sýn á þetta frv., get ég lýst yfir stuðningi við það. Við í hv. landbn. munum auðvitað fara mjög nákvæmlega ofan í þessar greinar allar og það er ekkert líklegra en að lagðar verði til einhverjar breytingar. En ég held, miðað við þá stöðu sem við erum í og þá nauðsyn sem var á því að lækka verð á grænmeti hér innan lands, þá stöðu sem hæstv. landbrh. fór ágætlega yfir áðan, að þetta sé viðunandi lausn og svo framarlega sem verði unnið úr þessum tillögum af festu séu þær til bóta.