Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 22:26:58 (6652)

2002-03-25 22:26:58# 127. lþ. 104.5 fundur 630. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gróðurhúsaafurðir og garðávextir) frv. 84/2002, SvanJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[22:26]

Svanfríður Jónasdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að klukkan er orðin hálfellefu og í dag er mánudagurinn 25. mars. Þingmenn eru hér margir hverjir búnir að vera að störfum frá því um klukkan átta í morgun. Ég vil þess vegna spyrja hvort hæstv. forseta finnist ekki orðið tímabært að fara að ljúka þessum fundi. Ég fæ ómögulega séð að nokkra nauðsyn beri til þess að halda áfram fundarhöldum á þessu kvöldi. Það er í rauninni fyrir neðan allar hellur að starf þingsins skuli vera þannig skipulagt að menn skuli hér vera við vinnu þegar klukkan er orðin hálfellefu að kvöldi. (Gripið fram í: Nóttin er ung.)

Ég endurtek spurningu mína til hæstv. forseta, um hvort ekki sé orðið tímabært að ljúka þessum fundi hér í kvöld þannig að menn geti mætt sæmilega úthvíldir og endurnærðir til fundar á morgun og unnið þá dagvinnu.