Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 22:28:15 (6653)

2002-03-25 22:28:15# 127. lþ. 104.5 fundur 630. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gróðurhúsaafurðir og garðávextir) frv. 84/2002, KHG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[22:28]

Kristinn H. Gunnarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Skipulag þinghaldsins er venju samkvæmt um þessar mundir. Starfsáætlun hefur legið fyrir síðan í haust og menn vita að hverju þeir gengu. Gert hefur verið ráð fyrir því að það yrðu fundarhöld þessa dagana og í síðustu viku tilkynnti forseti að hann gerði ráð fyrir kvöldfundi bæði í kvöld og annað kvöld. Engin athugasemd var við það gerð af hálfu þingflokksformanna.

Ég tel því að tal um að þingfundurinn hafi staðið lengi sé ekki alveg sanngjarnt. Menn eiga að vera við því búnir að haldnir séu fundir fram á kvöld og fundir eru haldnir fram á kvöld vegna þess að þingmenn vilja það sjálfir, kjósa að flytja mál sitt og gera það stundum ítarlega. Ég sé ekki ástæðu til þess að amast við því nú frekar en endranær.