Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 22:33:26 (6658)

2002-03-25 22:33:26# 127. lþ. 104.5 fundur 630. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gróðurhúsaafurðir og garðávextir) frv. 84/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[22:33]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Þetta frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum lýtur að framleiðslu og verðmyndunum gróðurhúsaafurða. Ég vil taka eftirfarandi fram, þ.e. að ég lýsi yfir stuðningi við meginmarkmið þessarar lagasetningar sem eru talin upp í 2. gr., með leyfi forseta:

,,a. að lækka verð til neytenda á innfluttum sem og innlendum garð- og gróðurhúsaafurðum,

b. að auka hagkvæmni og samkeppnishæfni innlendrar grænmetisframleiðslu til hagsbóta fyrir grænmetisframleiðendur og neytendur,

c. að treysta tekjugrundvöll grænmetisframleiðenda,

d. að styðja framleiðslu- og markaðsmöguleika innlendrar framleiðslu þegar hún er nægjanleg að magni og gæðum.``

Ég tek undir meginmarkmiðin sem þarna eru talin upp. Hins vegar vil ég taka fram að ég er þeirrar skoðunar að gjalda eigi varhug við því að ríkið komi inn með magntengdum beingreiðslum í of ríkum mæli. Að mínu mati hefði átt að skoða hvort átt hefði að nálgast þetta mál annars vegar út frá því að skilgreina stuðninginn við tekjugrunn þeirra sem væru skilgreindir sem gróðurhúsabændur. Sá stuðningur yrði þannig í formi ákveðins tekjugrunns en ekki alfarið tengdur framleiðslumagni. Þetta tel ég að eigi almennt að skoða og gjalda eigi varhug við að fara út í magntengdan stuðning. Ég tel að nálgast eigi málið með öðrum hætti.

Ég fagna því þegar menn nálgast málið með þeim hætti að lækka verð á raforku, sem er einn aðalrekstrarkostnaður við þessa framleiðslu, og gera hana hana samkeppnisfæra og færa í líkt horf og a.m.k. í nágrannalöndunum. Ég tel reyndar að í ljósi innlendra aðstæðna ættum við að kanna möguleika á því að lækka verð á raforku til gróðurhúsa- og grænmetisframleiðslu enn þá meira en gert yrði samkvæmt þeim markmiðum sem þarna eru sett. Ég tel að það ætti að skoðast í hv. landbn. og einnig í ríkisstjórn, sem hefur um þetta mikið að segja, að lækka verðið enn meira og gera þessa framleiðslu enn hæfari í samkeppninni. Ég tel að það eigi að vera markmið okkar, til þess eigum við að hafa alla burði. Við getum boðið rafmagn á enn lægra verði til annarrar framleiðslu hér á landi og ættum líka að geta boðið það til gróðurhúsaframleiðslunnar, að lækka rafmagnið enn meira en hérna er lagt til og styrkja þar með framleiðslugrundvöllinn.

En ég, virðulegi forseti, styð meginmarkmið frv. eins og ég hef hér getið um.