Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 22:42:52 (6662)

2002-03-25 22:42:52# 127. lþ. 104.5 fundur 630. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gróðurhúsaafurðir og garðávextir) frv. 84/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[22:42]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Íslenskur landbúnaður er ekki þær klyfjar sem eru að sliga þetta þjóðfélag. Það eru allt aðrir aðilar. Þar vísa ég til fjármagnsmarkaðarins og þeirrar nýju stéttar sem er sprottin upp í kringum hann. Og ef einhvers staðar væri réttmætt að tala um niðurgreiðslur væri það í þá áttina.

Hv. þm. skilur ekki samlíkingar við Kárahnjúka. Jú, hv. þm. vísaði til niðurgreiðslna. Hann vísaði til byrða sem lagðar væru á skattgreiðendur. Ég vakti athygli hans á því að Kárahnjúkavirkjun kemur til með, ef af verður, að verða stórlega niðurgreidd af íslenskum skattgreiðendum. Þetta er staðreynd, nokkuð sem hv. þm. Pétur H. Blöndal styður í fullkomnu ábyrgðarleysi, mér liggur stundum næstum við að segja rænuleysi. Hann virðist ekki hafa gert sér grein fyrir forsendum þeirra framkvæmda.

Ég endurtek að íslenskir launamenn hafa sýnt mikla ábyrgð í þessu máli. Þeir gera sér grein fyrir því að við þurfum að efla þessa framleiðslugrein á Íslandi. Það er vilji til þess að gera það. Jafnframt eru stigin skref til að ná verðlaginu niður. Að þessu tvennu vilja menn hyggja og undir það tek ég, enda er þetta gert af fyllstu ábyrgð og um þetta ríkir víðtæk sátt.