Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 14:30:57 (6711)

2002-03-26 14:30:57# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, KolH
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[14:30]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Á heimasíðu Staðardagskrárverkefnisins á Íslandi getur jafnan að líta ,,orð dagsins``, nýtt gullkorn á hverjum degi, og í tilefni þess að þema ræðu hæstv. utanrrh. var sjálfbær þróun, hugmyndafræði sem ráðherrann sagði réttilega að ætti rætur að rekja til umhverfisverndarvakningar síðustu aldar, er forvitnilegt að skoða orð dagsins í dag á heimasíðu Staðardagskrárverkefnisins. Þau eru eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Einn þeirra mælikvarða sem hægt er að beita til að leggja mat á umhverfisvitund þjóða er fjöldi fyrirtækja sem hafa komið sér upp vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi í samræmi við staðalinn ISO 14001. Á Íslandi eru þessi fyrirtæki aðeins tvö, nefnilega Ísal og Borgarplast. Á þessu sviði stendur Ísland jafnfætis m.a. Grænlandi, Bangladesh, Brunei, Gvatemala, Hondúras, Júgóslavíu, Kenýa, Möltu, Saint Lucia og Zambíu. Víetnam, Liechtenstein, Eistland, Jórdanía, Íran, Pakistan, Króatía, Simbabve, Líbanon, Namibía, Afganistan, Barbados og Sýrland eru hins vegar í hópi þeirra landa sem lengra eru komin. Í janúar 2002 var 36.001 fyrirtæki í heiminum vottað skv. ISO 14001, sem samsvarar fjölgun um tæp 52% frá árinu áður.``

En hvað hefur gerst, herra forseti, á Íslandi sama árið og fyrirtækjum í heiminum sem hafa vottast eða undirgengist staðla ISO 14001 hefur fjölgað um 52%? Lítum á það.

Fyrir tæpu ári var orð dagsins á Staðardagskrársíðunni líka helgað ISO-staðlinum 14001. Þann 25. maí 2001 sagði á síðunni:

,,Einn þeirra mælikvarða sem hægt er að beita til að leggja mat á umhverfisvitund þjóða er fjöldi fyrirtækja sem hafa komið sér upp vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi í samræmi við staðalinn ISO 14001. Á Íslandi eru þessi fyrirtæki aðeins tvö, nefnilega Ísal og Borgarplast.``

Já, herra forseti, menn heyrðu rétt. Á sama tíma og fyrirtækjum sem taka upp ISO-umhverfisstjórnunarkerfið fjölgar um 52% í heiminum fjölgar þeim ekki um eitt einasta á Íslandi. Hvað segir það, herra forseti, um umhverfisvitund þjóðarinnar? Að Íslendingar hafi skipað sér í flokk þeirra ríkja sem vilja vera í fremstu röð í að byggja upp sjálfbæra framtíð eins og hæstv. ráðherra orðaði það í ræðunni sinni?

Herra forseti. Það er okkur öllum afar mikilvægt að stefna sú sem stjórnvöld tala fyrir sé ekki bara orðin tóm. Sömuleiðis er okkur afar mikilvægt að orð ráðherra í ríkisstjórninni hafi eitthvað meira á bak við sig en tóma óskhyggju.

Í formála áætlunar um sjálfbær Norðurlönd, herra forseti, sem íslensk stjórnvöld eiga aðild að og hafa gefið í skyn að þau ætli að stýra eftir til næstu 20 ára eða svo er skýrt frá niðurstöðu Umhverfisstofnunar Evrópu varðandi stöðu umhverfismála um aldamót í álfunni. Í niðurstöðu stofnunarinnar segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Umhverfisstofnun Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að þótt sameiginleg umhverfisstefna hafi verið rekin í meira en 25 ár, stefna sem hefur tekist vel miðað við eigin forsendur, sé ekki að merkja neina verulega bót á ástandi umhverfisins í Evrópusambandslöndunum. Á nokkrum sviðum hefur ástand umhverfisins á hinn bóginn versnað.``

Umhverfisstofnun Evrópu tekur einnig fram ,,að þróunin á sumum þjóðhagslegum sviðum standi í vegi fyrir sjálfbærri þróun og sé þar með helsta hindrunin í vegi þess að bæta ástand umhverfisins``. Umhverfisstofnunin bendir á að vaxandi losun gróðurhúsalofttegunda, aukið álag á umhverfið vegna vaxandi flutninga á vegum og flugleiðis, aukin þéttbýlismyndun, aukin losun á sorpi og tjón á náttúrulegum verðmætum og líffræðilegri fjölbreytni séu allt vaxandi umhverfisvandamál sem krefjist úrlausna.

Í framhaldi af þessum texta, herra forseti, er fjallað í sterkum orðum um nauðsyn þess að ekki sé nóg að stefna í átt til sjálfbærrar þróunar heldur þurfi hvorki meira né minna en umskipti að eiga sér stað. Þá fæ ég að vitna aftur beint til áætlunarinnar um sjálfbær Norðurlönd, með leyfi forseta, en þar segir:

,,Með framsýnni stefnumótun og með aðgerðum sem byggjast bæði á almennum og pólitískum vilja til umbreytinga er hægt að færa Norðurlönd nær markmiðum um sjálfbæra þróun. Nauðsynlegt er að skapa sjálfbæra framleiðsluhætti og neysluvenjur sem fela í sér hagvöxt sem ekki hefur sjálfkrafa í för með sér aukið álag á umhverfið og aukna notkun náttúruauðlinda. Vinna skal að því að notkun óendurnýjanlegra náttúruauðlinda í samfélaginu verði með þeim hætti að hringrás náttúrunnar raskist ekki og að þróaðir verði endurnýjanlegir valkostir.

Framt til ársins 2020 á að ná verulegum árangri í glímunni við þau vandamál sem krefjast skjótra úrlausna. Ef umskiptin hefjast fljótt verða valmöguleikarnir fleiri í framtíðinni og frelsið verður meira, þó að því tilskildu að framsýni ráði ákvörðunum dagsins í dag.``

Herra forseti. Ég sakna þessarar framsýni í ræðu hæstv. ráðherra.

Þessi orð áætlunarinnar um hagvöxt sem ekki er bundinn aukinni notkun náttúruauðlinda eru ekki í samræmi við skilgreiningu Halldórs Ásgrímssonar, hæstv. utanrrh., á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Var sú skilgreining raunar endurtekin af hv. 3. þm. Reykn., formanni utanrmn., í ræðu áðan. Sú skilgreining, herra forseti, gengur út á að leita leiða til að hámarka efnahagslega og félagslega velferð án þess að skaða grunngæði jarðar eða möguleika komandi kynslóða á að njóta sams konar eða meiri velferðar. Eitthvað á þessa leið er skilgreining hæstv. ráðherrans og hana er líka að finna með þessum sömu orðum í drögum hæstv. umhvrh., Stefnumörkun um sjálfbæra þróun á nýrri öld, drögum að stefnu sem enn hefur ekki litið dagsins ljós þó að drögunum sjálfum hafi verið dreift í janúar í fyrra. Þetta litla dæmi segir kannski svolítið um áherslur ríkisstjórnarinnar á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.

Herra forseti. Ég gagnrýni hæstv. ráðherra fyrir þessi orð og fyrir þessa áherslu á hina hámörkuðu efnahagslegu og félagslegu velferð.

Í ræðu sem Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hélt í Tufts University í Bandaríkjunum fyrir tæpu ári mæltist honum á þessa lund um hagsæld og umhverfi, með leyfi herra forseta:

,,Öfugt við það sem margir halda stöndum við ekki frammi fyrir vali á milli hagsældar og umhverfis. Því er oft haldið fram að umhverfisvernd ógni hagvexti eða dragi jafnvel úr honum. Í raun er hið gagnstæða rétt. Ef við verndum ekki auðlindir okkar og hin náttúrulegu verðmæti jarðarinnar getum við ekki viðhaldið hagvexti.``

Halldór Ásgrímsson, hæstv. utanrrh., er ekki að vernda auðlindirnar sem fólgnar eru í íslenskum jökulfljótum með stóriðjustefnu sinni. Með gífurlegri röskun hins náttúrulega umhverfis, og lífríkis, og með því að flytja eitt mesta vatnsfall hérlendis úr farvegi sínum eru menn ekki að beygja sig undir lögmál sjálfbærrar þróunar heldur beygja náttúrulögmálin undir vilja ríkisstjórnarinnar --- af því að hæstv. utanrrh. getur ekki losað sig við þá hugsun að maðurinn sé herra jarðarinnar og drottnari.

Herra forseti. Þessi hugsun og þessi stefna stríðir einmitt gegn þeirri hugmyndafræði sem hæstv. ráðherrann þóttist tala fyrir í ræðu sinni. Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar sniðgengur líka grundvallarhugsunina um vernd andrúmsloftsins með því að ætla að auka álframleiðslu á landinu um 920 þús. tonn á ári, að því er virðist, frá því sem nú er. Sá ásetningur skilaði stjórnvöldum undanþágu frá ákvæðum Kyoto-bókunarinnar, heimildum til að losa 1.600 þús. tonn koltvísýringsígilda árlega endurgjaldslaust út í andrúmsloftið. Aðrar ríkar þjóðir, herra forseti, ákváðu á vettvangi Kyoto-bókunarinnar að iðnfyrirtæki yrðu að bera sameiginlegar byrðar hinna auðugu ríkja með því að kaupa losunarkvóta fyrir starfsemi sína. En nei takk, ekki Íslendingar. Við börðumst fyrir undanþágu frá þessari sameiginlegu ábyrgð og hæstv. utanrrh. er hæstánægður.

Nei, herra forseti, orku- og álgræðgisstefna Framsfl. og íslensku ríkisstjórnarinnar byggir ekki á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Þvert á móti, herra forseti. Íslenskum stjórnvöldum hefur ekki einu sinni tekist að koma á umhverfisstefnu í eigin ranni. Til vitnis um það er úttekt sem Ríkisendurskoðun lét fara fram á málamyndastefnu sem ríkisstjórnin þóttist hafa komið á og kallaði ,,umhverfisstefnu í ríkisrekstri`` og getur að líta í þessari skýrslu. Í henni segir, með leyfi herra forseta, um það sem ég vil kalla málamyndastefnu, að ,,... verkefninu virðist hafa verið hrundið af stað án þess að um væri að ræða skýra áætlun um hvernig skyldi fylgja því eftir``. Og sömuleiðis er sagt: ,,Enginn virðist hafa borið ábyrgð á að fylgja UR í heild sinni eftir í ríkiskerfinu.``

Herra forseti. Í niðurlagi skýrslu Ríkisendurskoðunar segir, með leyfi forseta:

,,Umhverfismál hafa á stundum tilhneigingu til að lenda utan borðs. Í daglegum störfum geta mál eins og flokkun úrgangs frá skrifstofuhaldi eða hvort báðum megin sé skrifað á pappír sýnst vera smámunasemi. Í raun er þó um að ræða framlag til sjálfbærrar þróunar, smátt að vísu, sem hefjendur þessa máls, umhverfisráðuneytið og ríkisstjórn Íslands, hafa einsett sér að setja í framkvæmd. Þörfin á samhæfingu og styrkri stjórn helgast ekki síst af því að um er að ræða heildarstefnumörkun fyrir ríkisgeirann allan og að yfirlýst markmið verkefnisins er að gefa öðrum aðilum í þjóðfélaginu gott fordæmi.``

Herra forseti. Hvað sagði ríkisstjórnin okkur að hún ætlaði að gera með umhverfisstefnu í ríkisrekstri? Sannleikurinn er sá að u.þ.b. fjögur ráðuneyti af tólf hafa gert eitthvað sem mark er á takandi í þessum efnum í þeirri stefnu sem við ætlum að reyna að marka okkur til sjálfbærrar þróunar rétt eftir aldamót.

Herra forseti. Inntak samþykktarinnar um sjálfbær Norðurlönd er það að hver atvinnugrein og öll stjórnsýsla byggi á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Og í áætluninni segir, með leyfi herra forseta:

,,Ríkisstjórnir Norðurlandanna bera fyrst og fremst ábyrgð á því að framfylgja markmiðum áætlunarinnar og tillögum um aðgerðir. Áætlunin verður mikilvægur þáttur í stefnu hvers lands um sjálfbæra þróun.``

Þetta eru orð að sönnu, herra forseti, og ég fullyrði að með skilgreiningu sinni á sjálfbærri þróun sem ég gerði að umtalsefni fyrr í ræðu minni er hæstv. utanrrh. að víkja sér undan ábyrgð en ekki að fylkja sér undir merki hennar.

Herra forseti. Það er okkur lífsnauðsynlegt að stjórnvöld tali tæpitungulaust og þannig að mark sé á takandi. Þegar heil ræða hæstv. utanrrh. um utanríkismál á Alþingi tekur útgangspunkt í hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar verðum við að trúa á þau orð og stefna ríkisstjórnarinnar verður að vera í samræmi við þau orð. Það er hún ekki.

Og því til sönnunarmerkis get ég nefnt, herra forseti, nýjustu bók indverska rithöfundarins Arundhati Roy. Sú bók heitir Power Politics, eða Orkustjórnmál. Í þessari bók gerir Arundhati Roy að umtalsefni gífurlegar áveituframkvæmdir, stífluframkvæmdir, í ánni Narmada á Indlandi. Þar um að ræða verkefni sem alþjóðanefndin sem skrifað hefur risastóra og mikla skýrslu um stíflur dæmir nánast úr leik fyrir það hversu andstæð þessi framkvæmd er markmiðum sjálfbærrar þróunar. Og þó að þessi framkvæmd í Narmada-dalnum á Indlandi sé stærri í sniðum en Kárahnjúkavirkjunaráform hæstv. ríkisstjórnar stríða áform ríkisstjórnarinnar á sama hátt gegn hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að kynna sér það sem Arundhati Roy hefur að segja um sjálfbærni samfélagsins á Indlandi sem á yfir höfði sér allar þær stíflur og öll þau flóð sem verið er að veita úr þessari Narmadaá yfir híbýli fólks, ég hvet hæstv. ráðherra til að lesa með opnum huga orð af þessu tagi sem Arundhati Roy hefur fram að færa. Ég er sannfærð um að hæstv. ráðherra mun þá auðga anda sinn, auka skilning sinn á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og kemur ekki í náinni framtíð eftir þann lestur til með að halda ræðu um sjálfbæra þróun sem stríðir í sjálfu sér gegn kjarna sjálfbærrar þróunar.