Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 14:47:48 (6713)

2002-03-26 14:47:48# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[14:47]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér var tíðrætt í ræðu minni um umskiptin sem þurfa að fara fram ef við ætlum að feta hina þröngu braut í átt til sjálfbærrar þróunar. Umskipti þurfa að eiga sér stað frá gömlum hugsunarhætti yfir í nýjan. Sá hugsunarháttur byggir á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlindanna. Ég fullyrði að slík hugsun er ekki fólgin í áformum eins og hæstv. ráðherra hefur keyrt fram í Kárahnjúkavirkjun og álmálum. Og með þá gífurlegu áherslu á blómlegt efnahagslíf er hæstv. ráðherra að svíkja grundvallarprinsippin. Því til staðfestingar vil ég nefna formálann og fyrstu síðuna í stefnunni um sjálfbær Norðurlönd. Þar eru talin upp í ellefu atriðum þau meginmarkmið sem ríkisstjórnir Norðurlandanna ætla að hafa að leiðarljósi við þróun sjálfbærra Norðurlanda. Þar er ekkert verið að tala um blómlegt efnahagslíf eða aukinn hagvöxt. Það er ekki meginmarkið sjálfbærrar þróunar að hámarka hagvöxt og gera allt sem hugsast getur til þess að efnahagslífið blómstri á forsendum hins gamla hagkerfis og gamaldags lausna. Það eru nýjar lausnir, framsæknar lausnir og sjálfbær nýting náttúruauðlindanna sem stefnan um sjálfbær Norðurlönd byggir á. Kárahnjúkamál og álvershugsjónir hæstv. ráðherra ganga ekki upp í þeirri stefnu.