Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 15:11:15 (6718)

2002-03-26 15:11:15# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[15:11]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt til þess sem við þurfum að tala saman, að ræða þessar skilgreiningar. Það eina sem ég geri alvarlegar athugasemdir við er þegar hæstv. utanrrh. tekur að sér að reyna að draga upp þá mynd af öðrum stjórnmálaflokkum að þeir séu eitthvað allt annað en þeir eru. Það er óþarfi. Ég hvet hæstv. ráðherra til að tala kraftmikið fyrir sjónarmiðum sínum en láta það vera að eyða drjúgum hluta ræðutíma síns í það að draga upp einhverja aðra mynd af öðrum flokkum heldur en þeir sjálfir telja vera rétta. Er þetta ekki yfirleitt þannig að það sé best að hver tali fyrir sig?

Hæstv. ráðherra var hér með tilraunir til þess, t.d. í andsvörum við Kolbrúnu Halldórsdóttur, að draga upp einhverja allt aðra mynd af Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði í þessum efnum en ég kannast við, að við værum almennt andvíg auðlindanýtingu og værum algerir friðunarsinnar sem vildum hvergi snerta við einum einasta hól, þúfu eða velta við steini.

Varðandi sjávarútveginn er það auðvitað hárrétt að sjálfbær nýting fiskstofna á að vera grundvallarregla. Það getum við, eins og fleiri veiðimannasamfélög, kennt þjóðum heimsins á. Sennilega væri best að sækja dæmin til hins gamla Inúíta-samfélags á Grænlandi þar sem menn höfðu lifað í stórkostlegu jafnvægi við náttúruna um þúsundir ára, með náttúrunni og í náttúrunni. Sennilega hefur engin þjóð haft jafninnbyggð í menningu sína grundvallargildi sjálfbærrar þróunar og hið gamla grænlenska menningarsamfélag hafði. Þar hefur ýmislegt farið úrskeiðis á síðari árum, því miður.

Í orkumálunum er auðvitað rétt að það er jákvætt að nýta endurnýjanlegar orkulindir. En það er ekki alltaf án fórna. Þjórsárver eru ekki ókeypis. Það er fórn, ekki bara fyrir Íslendinga, heldur fyrir allt mannkynið, ef við þurfum að skerða slíkar náttúruperlur þó að orkan sem með því verður til sé í vissum skilningi endurnýtanleg. En hún er ekki án umhverfislegra fórna.

Það er heldur ekki Kárahnjúkavirkjun sem skerðir Kringilsárrana, sekkur tugum ferkílómetra verðmæts gróðurlands o.s.frv. Þetta snýst allt saman um, þegar upp er staðið, heildarmyndina. Hvað unnið er og hverju er fórnað.