Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 15:39:22 (6725)

2002-03-26 15:39:22# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[15:39]

Vilhjálmur Egilsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er algerlega miður mín yfir því að hv. þm. skilji mig ekki. Hann sýnir mér ávallt mikinn vináttuvott og vill gjarnan skilja mig og því er mjög leiðinlegt fyrir mig, að hann skuli ekki skilja mig.

Ég verð samt kannski að segja frá því fyrst að ég hlustaði einu sinni á Brown, fjármálaráðherra Breta, sem er flokksbróðir hv. þm., fjalla um Bretland og Evrópusambandið, af hverju Bretar ættu ekki að taka upp evruna og hvenær Bretar mundu hugsanlega taka upp evruna. Það var einmitt nákvæmlega á þeim forsendum sem ég var að lýsa, að Bretar sáu sér ekki hag í því að taka upp evruna vegna þess að hagkerfi þeirra væri ekki í takt við evrópska hagkerfið. (Gripið fram í.) Þegar uppsveifla væri í Bretlandi væri niðursveifla í Evrópu og öfugt, enda höfum við séð að það hafa verið töluverðar sveiflur á milli gengis pundsins og evrunnar.

Við höfum líka séð að Bretar gerðu á sínum tíma mjög afdrifarík mistök, þegar þeir fóru inn í evrópska myntsamstarfið á sínum tíma í kringum 1990 undir forustu íhaldsflokksins. Þeir fóru inn í þetta samstarf á allt of háu gengi pundsins. Þegar fór að ganga illa í Bretlandi fengu þeir mikinn skell og allt sprakk í loft upp. Þetta þarf að sjálfsögðu að hafa í huga. Ég veit að hv. þm. deilir með mér mörgum hlýjum tilfinningum í garð Evrópusambandsins og Evrópusamstarfsins yfirleitt en við megum ekki hætta að hugsa jafnvel þó við berum hlýjar tilfinningar til Evrópusambandsins.