Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 15:47:59 (6729)

2002-03-26 15:47:59# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[15:47]

Vilhjálmur Egilsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna líka þessum ummælum hv. þm. Mér finnst að hann sé að taka mjög rækilega undir að það hafi verið rétt stefna sem tekin var upp fyrir ári síðan, að breyta um peningapólitík í Seðlabankanum og leyfa genginu að fljóta.

Hv. þm. stóð að þessum breytingum á sínum tíma með því að hann greiddi atkvæði með breytingum á lögum um Seðlabanka Íslands. Það stóðu allir flokkar að því. Ég held að fá skref hafi verið stigin farsælli í þingsölum heldur en einmitt að breyta um peningapólitíkina og taka upp frjálst gengi. Við höfum bara séð að þetta hefur verið algert skólabókardæmi um það hvernig hagkerfið hefur aðlagast að breyttum forsendum og breyttum aðstæðum á ótrúlega stuttum tíma.

Við hlustuðum oft í umræðum í þessum sal um þá tifandi tímasprengju sem viðskiptahallinn væri. Er ekki búið að aftengja þessa tímasprengju? Voru ekki þessar gengisbreytingar akkúrat ástæðan fyrir því að tímasprengjan aftengdist og varð ekki nokkur skapaður hlutur sem betur fer fyrir land og þjóð? Við höfum séð að útflutningurinn hefur farið að blómstra á nýjan leik. Það eru að koma tekjur inn í þorpin úti á landi. Við höfum séð að innflutningurinn er að dragast saman. Það er komið miklu meira jafnvægi. Fólk er farið að hugsa miklu meira um að skulda ekki og greiða niður skuldir. Vextirnir eru enn þá allt of háir að sjálfsögðu en þeir þurfa að koma niður. En þessi eina ráðstöfun hefur sýnt það sem algert skólabókardæmi hvaða þýðingu frjálst gengi hefur í svona litlu og opnu hagkerfi eins og Ísland er.