Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 17:30:53 (6754)

2002-03-26 17:30:53# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[17:30]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Stjórnmálin eru skrýtin á stundum. Þegar hv. þm. Kristján Pálsson telur að lítil von sé til þess að Sjálfstfl. muni nokkru sinni fallast á að Íslendingar sæki um aðild að Evrópusambandinu verð ég að rifja upp að Sjálfstfl. hefur sýnt ótrúlega hentistefnu varðandi afstöðu sína til Evrópu. Hv. þm. verður að muna að það var vinstri stjórn sem undirbjó EES-samninginn. Þá var Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu. Hann vildi komast í ríkisstjórn og það var sett sem skilyrði af Alþýðuflokknum að hann kokgleypti fyrri andstöðu sína við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það tók hann ekki nema hálfa nótt að gera það, herra forseti. Því var það svo að Sjálfstfl. sneri afstöðu sinni á einni nóttu. Skyldi það geta gerst aftur, herra forseti? Ég skal ekkert um það segja. En það gæti gerst.

Ég vil ekki vera ókurteis við hv. þm. en mér finnst það lýsa ótrúlegri fáfræði þegar hann heldur því fram að það sé sjálfgefið að ef Íslendingar sækja um aðild að Evrópusambandinu þá verði þeir að hleypa hér óvígum flota útlendra þjóða inn í fiskveiðilögsöguna. Hv. þm. sagði að við yrðum að afsala okkur auðlindinni, hann orðaði það svo. Þetta er það sama og maður hefur hlustað á hv. þm. Sjálfstfl. segja aftur og aftur. Ég held að það sé ekki með nokkru móti hægt að halda því fram að slíkt muni gerast.

Hv. þm. sagði að það væri ekki hægt að fá neinar undanþágur frá Rómarsáttmálanum. Ég hugsa að það sé rétt hjá hv. þm. Svo sé líka rétt hjá honum að það komi fram í þeirri bók sem hann vitnað til hérna. Það má ekki gleyma því að aðildarsamningarnir eru jafnréttháir þeim samningi. Í gegnum þá hafa menn náð ýmsu fram.

Það þýðir heldur ekki, herra forseti, að koma hér og tala um Noreg. Þar var allt annað uppi á teningunum. Norðmenn urðu að gera það sem enginn íslenskur stjórnmálamaður mundi koma með heim frá Brussel, þ.e. norsk stjórnvöld urðu að leggja til að erlendar þjóðir fengju fastar veiðiheimildir innan lögsögunnar. Það mundum við aldrei gera.