Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 17:35:10 (6756)

2002-03-26 17:35:10# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[17:35]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér skildist á ræðu hv. þm. áðan að útlendingar kæmust inn í landhelgina með tveimur aðferðum. Annars vegar mundi aðild okkar að Evrópusambandinu beinlínis leiða til þess að yfirstjórn fiskveiðimála mundi hleypa þeim inn í landhelgina. Ég skil það svo núna að hv. þm. sé þeirrar skoðunar að hin sameiginlega sjávarútvegsstefna leiði ekki til þess. Hin leiðin sem hann bendir á er hið svokallaða kvótahopp, herra forseti. Það er útbreiddur misskilningur að kvótahoppið sé eitthvert verulegt vandamál, t.d. í Bretlandi og í Danmörku. Báðar þessar þjóðir hafa gripið til sérstakra aðferða til að tryggja að þeir sem nýta fiskveiðiheimildir hafi raunveruleg efnahagsleg tengsl við viðkomandi ríki. Þetta er heimilt samkvæmt sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og þessar aðgerðir byggjast m.a. á niðurstöðum Evrópudómstólsins.

Ég rifja það upp að þegar hingað kom sjávarútvegsráðherra Bretlands í heimsókn, Elliot Morley að nafni, líklega árið 2000, þá staðfesti viðkomandi í sjónvarpi, í þætti sem hét Aldahvörf, að kvótahopp væri ekki lengur neitt vandamál í breskri útgerð. Ef Bretar og Danir geta þetta þá hljótum við að geta þetta. Ég get svo sem rifjað það upp líka, herra forseti, að kvótahoppið hafi aldrei verið nema svona u.þ.b. svolítið meira en fræðilegur möguleiki. Ég held að það hafi alltaf verið hverfandi lítið.

Að því er Noreg varðar þá gerðist það auðvitað að Norðmenn hafa aðra stöðu en við vegna þess að þeir hafa sameiginlega efnahagslögsögu með Evrópusambandinu. Þeir urðu að fallast á að Evrópusambandið fengi veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Noregs. Það var það atriði fyrst og síðast held ég sem leiddi til þess að samningurinn var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu.