Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 18:00:57 (6762)

2002-03-26 18:00:57# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[18:00]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon misvirði það ekki við mig þó að ég geti þess að þá prýðilegu ræðu sem hann flutti núna var hæstv. forsrh. að flytja uppi í Seðlabankanum rétt áðan.

Herra forseti. Ég segi auðvitað eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að sú umræða sem við höfum verið með hérna er nauðsynleg. Það sem vantar í hana er að það séu ekki bara tveir, þó öflugir séu, stjórnarandstöðuflokkar sem eru að ræða þetta málefnalega sín á milli, heldur vantar náttúrlega einn pólinn sem er Sjálfstfl., stærsti flokkur þjóðarinnar. Og eins og ég sagði áðan, ég hefði auðvitað kosið að hæstv. utanrrh. kæmi frekar með hugmyndir sínar um þróun Evróputengslanna inn í þessa umræðu.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon segir, ég hef aldrei dregið dul á það þó að ég hafi kannski verið nokkuð kappsfullur í málflutningi mínum fyrir Evrópusambandinu, að það eru líka gallar sem fylgja aðild. Það er auðvitað galli líka sem fylgir því að við höfum ekki þá stjórn sem hv. þm. nefndi áðan. En mér hefur þótt hjá tveimur þingmönnum sem hafa rætt þetta í dag felast ákveðinn vilji til að geta haft föng til þess að fella gengið, til þess að bjarga atvinnumálum o.s.frv. Ég hafna slíkum hagstjórnaraðferðum í dag alveg eins og ég hafnaði þeim þegar við vorum komin á seinni part stjórnarsamstarfs Alþfl. og Sjálfstfl. rétt fyrir 1995. Þá kom það fram aftur og aftur hjá mörgum stjórnmálamönnum að þetta væru aðferðir fortíðar, þetta eiga að vera aðferðir fortíðarinnar. Ég segi það aftur að gengisfellingar eru ekkert annað en aðferðir til þess að flytja kostnað yfir á herðar almennings. Þær eru það fyrst og síðast.

Herra forseti. Þessi umræða hefur verið ákaflega gagnleg og mér finnst að svona eigi menn að vegast á um svo mikilvæg mál, þ.e. með rökum og ég virði afstöðu hv. þm. Vinstri grænna þótt ég sé henni ósammála og sé að reyna að færa rök fyrir því hvers vegna.