Alþjóðamál

Þriðjudaginn 26. mars 2002, kl. 18:03:09 (6763)

2002-03-26 18:03:09# 127. lþ. 105.9 fundur 647. mál: #A alþjóðamál# skýrsl, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 127. lþ.

[18:03]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu alveg hárrétt hjá hv. þm. að lækkun raungengis gjaldmiðils hefur neikvæð áhrif á kaupmátt almennings í því landi gagnvart innfluttum vörum en jákvæð áhrif hins vegar á tekjur útflutningsgreina. Þetta er ekki flóknara en það.

Að sjálfsögðu mælir enginn því bót í sjálfu sér að gripið sé til aðgerða sem skerða kaupmátt. Það vill enginn þurfa að gera. En ef aðstæður eru þannig í einu landi að viðskiptahallinn er t.d. kannski 10% landsframleiðslu og útflutningsgreinarnar eru reknar með dúndrandi tapi, þá vitum við að það er ekki stöðugt ástand. Það mun enda með ósköpum ef ekkert er að gert.

Við höfum báðir gagnrýnt ríkisstjórnina harkalega fyrir andvaraleysi og miðstjórn við hagstjórn. Við erum ekki að mæla því bót hvernig þeir hlutir gengu fyrir sig. Enginn vafi er á því að ef fyrr hefði verið gripið í taumana með skynsamlegum hætti, þá hefði mátt forðast þessar stóru sveiflur, upp fyrst með raungengið og síðan langt niður aftur. Það er óæskilegt. En að þetta sé hluti í einhverju stýriverki í hagkerfinu, því eigum við ekki að neita. Það er staðreynd.