Upplýsingagjöf um álversframkvæmdir

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 10:38:50 (6793)

2002-04-03 10:38:50# 127. lþ. 106.91 fundur 442#B upplýsingagjöf um álversframkvæmdir# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[10:38]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Verkefni Alþingis er að veita virkjunarleyfi sem samkvæmt frv. er miðað við framkvæmdir fyrir álver á Austurlandi. Það hefur ekki verið og á ekki að vera verkefni Alþingis að finna fjárfesta fyrir verkefni af þessu tagi og leggja mat á þá. Það er hlutverk framkvæmdarvaldsins og framkvæmdaaðila málsins og þess vegna hefði það, a.m.k. fyrir mína parta, ekki breytt neinu um afstöðu mína til þessa máls þótt óvissan um þátttöku Hydro í málinu hefði legið fyrir þegar málið var afgreitt út úr þingnefnd.

Hitt er þó með öllu ólíðandi ef staðreyndin er sú að þingnefndir sem leggja mat á grundvöll málsins fá villandi eða jafnvel rangar upplýsingar um stöðu verkefnisins frá embættismönnum, starfsmönnum verkefnisins eða öðrum sem að málinu koma. Þess vegna hefur Samfylkingin óskað eftir því að haldnir verði fundir í hv. efh.- og viðskn. og hv. iðnn. þar sem þessir aðilar verði kallaðir fyrir, þeir aðilar sem virðast ekki hafa upplýst okkur um alla þætti málsins, til þess að skýra stöðuna og málflutning sinn. Slíkur fundur er nauðsynlegur til þess að skýra málið fyrir þinginu og fyrir þjóðinni, og hlýtur að vera grundvöllur þess að menn geti lagt raunhæft mat á stöðu þessa máls í dag.