Upplýsingagjöf um álversframkvæmdir

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 10:44:32 (6796)

2002-04-03 10:44:32# 127. lþ. 106.91 fundur 442#B upplýsingagjöf um álversframkvæmdir# (aths. um störf þingsins), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[10:44]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Sem iðnaðarnefndarmaður vil ég taka undir þær gagnrýnisraddir sem hér hafa komið fram. Mér finnst aðalatriði málsins vera það að við erum að afgreiða frv. um virkjun við Kárahnjúka á alröngum forsendum, og um það snýst málið. Málið var keyrt áfram vegna tímaáætlunar, tekið út úr nefnd 18. mars á fölskum forsendum. Núna er ekki tímabært að fara í afgreiðslu á þessu máli, virðulegi forseti, og ég mun taka það upp í forsn. vegna þess að málið hefur verið rökstutt með tímaáætluninni --- sem brást. Við fengum ekki þær upplýsingar sem við áttum heimtingu á, og áttum að fá fyrir afgreiðslu málsins. Það er mergurinn málsins. Núna er sú staða uppi að það er hægt, vegna verkefnisins, að bíða eftir því að unnin verði rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma eins og við höfum öll óskað eftir í þinginu.

Hv. þm. stjórnarinnar hafa haft það sem afsökun fyrir afgreiðslu þessa máls að þessi svokallaða tímaáætlun Norsk Hydro og íslenskra stjórnvalda setti okkur þær skorður að við yrðum að afgreiða málið í hasti. Núna er gjörbreytt staða í málinu. Það er nægur tími til að vinna faglega að þessu máli. Við eigum að fresta því. Við eigum að bíða eftir því að gerð verði úttekt á því hvernig við ætlum að nýta orkuna í landinu og taka síðan málið upp að nýju.

Virðulegi forseti. Ég fer þess á leit að málið verði tekið af dagskrá.

(Forseti (HBl): Fyrst verður að setja málið á dagskrá, hv. þm.)