Upplýsingagjöf um álversframkvæmdir

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 10:48:44 (6798)

2002-04-03 10:48:44# 127. lþ. 106.91 fundur 442#B upplýsingagjöf um álversframkvæmdir# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[10:48]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Aðalatriði málsins finnst mér vera það að þingið hefur langt í frá lokið umfjöllun um þetta mál. Þessar upplýsingar sem menn eru að deila um liggja nú fyrir, við vitum hver staða málsins er. Samkvæmt reynslu má ætla að málið sé ekki hálfnað í umræðu í þinginu þannig að þingið getur haft þessar upplýsingar með til grundvallar afstöðu sinni.

Ég segi alveg eins og er, herra forseti, að ég hef óbragð í munninum eftir samskipti okkar Íslendinga við Norsk Hydro. Mér finnst að þeir hafi komið aftan að okkur. Þeir hafa ekki gefið réttar upplýsingar og þeir hafa bersýnilega setið á þeim.

Hæstv. viðsk.- og iðnrh. er legið á hálsi fyrir að hafa leynt þingið upplýsingum. Herra forseti. Ég get ekki fallist á það. Ég verð að segja að það eina sem hægt er að ásaka, ef ásaka skyldi, hæstv. iðnrh. um er að hún hefði kannski átt að reyna að ræða fyrr við forstjóra fyrirtækisins til þess að fá á hreint þær misvísandi upplýsingar sem fram höfðu komið. Ég tek hins vegar gildar þær skýringar sem hæstv. ráðherra gefur. Ég tel viðurhlutamikið að embættismenn og fulltrúar viðsemjenda komi og ræði við þingið með þeim hætti að hægt sé að halda því fram að þeir hafi vitandi vits ekki gefið réttar upplýsingar í málinu. Ég tel ekki að það skipti sköpum en ég tel hins vegar að þar með hafi þinginu verið sýnd vansæmd og ég tel rétt að kalla þessa menn fyrir, ræða við þá og, eins og hæstv. landbrh. hefur stundum sagt, taka í hnakkadrambið á þeim. Ég þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir að hafa brugðist vel við þeirri ósk sem fram hefur komið af hálfu stjórnarandstöðunnar um að fá þetta fólk aftur til viðræðu við nefndina.