Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 10:58:20 (6803)

2002-04-03 10:58:20# 127. lþ. 106.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, KolH
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[10:58]

Kolbrún Halldórsdóttir (frh.):

Virðulegur forseti. Það er mín tilfinning að Alþingi Íslendinga sé í gíslingu framkvæmdarvaldsins í þessu máli. Dagskrá fundarins í dag er sú að veita hæstv. iðnrh. heimild til virkjunar við Kárahnjúka, virkjunar sem mundi valda gífurlegum náttúruspjöllum, þeim mestu sem ein einstök framkvæmd hefur valdið í allri samanlagðri Íslandssögunni. Virkjanaheimildin samkvæmt frv. því sem hér er til umræðu er svo opin í báða enda að þar er ekkert fast í hendi, ekki einu sinni skilyrði hæstv. umhvrh. sem hún setti í gífurlega umdeildum úrskurði sem felldur var í svartasta skammdeginu í vetur. Enginn þeirra þingmanna sem hér í sal sitja veit hvort orkukaupandi verður að orku þeirri sem væntanleg virkjun á að framleiða. Enginn þeirra þingmanna sem hér í sal sitja veit hvers lags verksmiðja það verður, ef einhver, sem starfrækt verður eða sett upp á Reyðarfirði. Enginn þeirra þingmanna sem hér í sal sitja veit hvort af þessu verkefni verður yfir höfuð. Það er þess vegna fullkomlega ótímabært að veita hæstv. iðnrh. þá heimild sem á borðum okkar liggur.

[11:00]

Herra forseti. Það bætist svo ofan á að í þessu máli hafa þingmenn verið blekktir. Reynt hefur verið að þrengja að störfum þingnefnda og hæstv. ráðherra kallar orð embættismanna sinna orðróm í heilar þrjár vikur áður en hún lætur svo lítið að ávarpa Alþingi Íslendinga með þeim efasemdum sem þá höfðu greinilega búið um sig vikum saman hjá þeim aðilum sem höfðu verið að ræða við íslensk stjórnvöld um mögulegar fjárfestingar í orkufrekum iðnaði á Austfjörðum. Framkoma af þessu tagi er alls ekki sæmandi íslenskum stjórnvöldum og það er ekki létt verk fyrir alþingismenn að þurfa að sitja undir vinnubrögðum af þessu tagi og upplifa sig, eins og ég sagði áðan, í gíslingu framkvæmdarvaldsins.

Auðvitað er eðlileg sú krafa sem kom fram áðan í umræðu um störf þingsins að málið sé tekið inn í forsætisnefnd þingsins og það skoðað þar hvort kröfur þær sem hér hafa verið settar fram um frestun málsins séu ekki fullkomlega raunhæfar og sanngjarnar. Þar sem hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn stjórnarflokkanna hafa fullyrt að auðvitað verði ekki farið í neinar framkvæmdir fyrr en orkusölusamninar séu í höfn þá er eðlilegt að spurt sé, herra forseti: Hvað eiga hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn við með því? Ég var sjálf stödd inni á hálendinu, nánar tiltekið við ofanverðan Desjarárdal sl. haust, í ágúst, þar sem jarðýtur og borar voru við störf og fjöldi manna að rífa og tæta í sundur, gera borholur og taka alls kyns jarðvegssýni djúpt niður. Á sama tíma fullyrtu starfsmenn og yfirmenn Landsvirkjunar að engar framkvæmdir væru í gangi. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra og þá þingmenn sem hér hafa talað, hv. þm. Vilhjálm Egilsson, um að auðvitað verði ekki farið í neinar framkvæmdir fyrr en orkusölusamningar séu í höfn: Hvað þýða þessar fullyrðingar? Hvað þýðir fullyrðing hæstv. ráðherra í Kastljósi sjónvarpsins 22. mars sl. þar sem hún sagði, með leyfi forseta, að það yrði ekki haldið áfram af hálfu Landsvirkjunar í sumar eins og þeir reyndar ætluðu sér nema það gerðist eitthvað mjög hratt. Hvað þýðir þessi fullyrðing? Þýðir hún að Landsvirkjun verði uppi á hálendinu að rassakastast með gröfukjafta og sína bora og fjölmenna vinnuflokka við vegagerð og að taka jarðvegssýni, undirbúa stíflugerð og jarðgangagerð eða þýðir það að engin tæki verða á hálendi Íslendinga? Við verðum að fá svör við þessu vegna þess að það sem Landsvirkjun hefur kallað til þessa engar framkvæmdir eru í augum okkar sumra miklar framkvæmdir og þeim framkvæmdum fylgir mikið rask. Það eru ekki heilindi fólgin í því af hæstv. ráðherra að gera lítið úr því sem ferðalangar, íslenskir og erlendir, sjá á hálendinu í formi jarðrasks og gröfugerðar og mannvirkjaundirbúnings að kalla það síðan engar framkvæmdir. Það er satt að segja ekki heiðarlegt.

Herra forseti. Það sem ég hafði aðallega til málanna að leggja þegar ég hóf ræðu mína fyrir páska var að fara yfir umsögn þá sem ég sem umhverfisnefndarmaður gaf hv. iðnn. Alþingis og ég rakti í máli mínu helstu þætti þess sem ég vildi gera athugasemdir við. Þær athugasemdir voru fyrst og fremst fólgnar í þeim köflum sem umsögn mín hefur að geyma og hægt er að lesa sem fskj. við nefndarálit iðnn. í þessu máli. Ég fjallaði þar um tímapressu og áhugaleysi stjórnvalda. Þau orð mín eru enn í fullu gildi og ekki minnkar tímapressan jafnvel þó svo meira svigrúm myndist þar sem enn lengra virðist nú vera í orkusölusamning en þegar ég flutti mál mitt fyrir nokkrum dögum síðan.

Ég fjallaði um hina takmörkuðu auðlind sem orkan okkar er. Ég fjallaði um rammaáætlunina og gagnrýndi stjórnvöld fyrir að setja á rammaáætlun til málamynda. Ég fjallaði um þjóðgarðshugmyndir í mjög ítarlegu máli og þá sérstaklega út frá skýrslu þeirri sem hæstv. iðnrh. hefur fengið frá sérstakri umsjónarnefnd sem rammaáætlunarverkefnisstjórnin skipaði til þess að leggja mat á náttúruverndargildi lands á svæðinu norðan Vatnajökuls. Ég veit ekki, herra forseti, hvort hæstv. ráðherra var í húsinu þegar ég fjallaði um greinargerð og matsskýrslu sem hæstv. ráðherra fékk í hendur þann 9. október sl. sem fjallar um mat á náttúruverndargildi landsins, en ég varpaði fram spurningu til hæstv. ráðherra sem ég treysti að verði svarað við umræðuna: Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera við þetta mat? Hvernig ætlar hún að sjá til þess að það sem í því er fólgið komist áfram til þeirra sem um þessi mál fjalla, þar með talinna alþingismanna?

Herra forseti. Ég gagnrýndi stjórnvöld fyrir að auðlindastefna væri ekki til staðar til þess að reka þetta mál eftir og það virðast hafa verið tímabær orð því að eins og öllum þingmönnum og þjóðinni er kunnugt þá féll dómur eða úrskurður óbyggðanefndar þann 21. mars sl. um þjóðlendumörk og eignarrétt á þjóðlendum í sjö hreppum í uppsveitum Árnessýslu.

Herra forseti. Það er tilefni til þess hér að gera þann úrskurð að umtalsefni í tengslum við það sem ég sagði í fyrri hluta ræðu minnar um auðlindastefnu sem ekki er til staðar.

Herra forseti. Það er alveg ljóst að í niðurstöðau auðlindanefndar sem getur að líta í skýrslu frá september 2000 er gerð ítarleg grein fyrir þeirri skoðun nefndarinnar að það beri að móta stefnu um auðlindarentu sem nýting vatnsafls í eigu þjóðarinnar skapar. Í yfirgripsmikilli grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær að ég held rétt, herra forseti, er fjallað um mögulega auðlindarentu af þeim náttúruauðlindum sem fólgnar eru í vatnsaflinu okkar og í ljós kemur þegar þessi úrskurður óbyggðanefndar og grein Morgunblaðsins eru skoðuð að það er sannarlega tilefni til að ræða væntanlega virkjun við Kárahnjúka út frá þeim sjónarmiðum sem auðlindanefndin kynnti í skýrslu sinni árið 2000.

Herra forseti. Það er ljóst samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar að Landsvirkjun er ekki eigandi landsréttinda á svæðunum í uppsveitum Árnessýslu. Út frá því verður að teljast eðlilegt að hv. Alþingi skoði hvernig við ætlum að fara með nýtingarréttinn á hálendinu norðan Vatnajökuls. Það er alveg eðlilegt að menn spyrji hvort þau gífurlegu verðmæti sem fólgin eru í vatnsréttindum eigi að ganga til Landsvirkjunar endurgjaldslaust. Ég teldi slíkt vera, herra forseti, í hróplegu ósamræmi við niðurstöður auðlindanefndarinnar. Niðurstaða auðlindanefndarinnar var alveg skýr. Hún vildi að stjórnarskrárákvæði yrði bætt við í stjórnarskrá Íslendinga þar sem við fengjum ákvæði um að auðlindarenta af þessu tagi yrði eðlileg og heimiluð og í sjálfu sér gerð að skilyrði þannig að ljóst er að Landsvirkjun og ríkisstjórnin þurfa að eiga einhvers konar samtal um það hvort gjald þurfi að koma til af vatnsréttindum, gjald í formi eingreiðslu eða gjald tengt framleiðslunni, og meðan þetta samtal Landsvirkjunar og stjórnvalda eða samtalið úti í samfélaginu hefur ekki farið fram þá er óeðlilegt að binda hendur Alþingis á þennan hátt sem frv. sem hér er verið að ræða mundi gera.

Það kemur fram í grein Morgunblaðsins að forstjóri Landsvirkjunar telji ólíklegt að fyrirtækið muni greiða gjald fyrir vatnsréttindin. En það kemur jafnframt fram að það sjónarmið forstjórans er í andstöðu við embættismann iðnrn., Helga Bjarnason, sem túlkar þetta með öðrum hætti og fæ ég nú, með leyfi forseta, að vitna beint í orð hans í Morgunblaðsgreininni en þar segir:

,,Það að Landsvirkjun hafi nýtingarrétt en ekki eignarrétt þýðir að Landsvirkjun er heimilt að nýta þessa auðlind, en jafnframt er ríkinu heimilt að taka gjald fyrir nýtingu hennar samkvæmt þjóðlendulögunum. Þetta þýðir að Landsvirkjun ætti að greiða nokkurs konar auðlindagjald fyrir að nýta þessi vatnsréttindi sem þau töldu áður réttilega vera í sinni eigu, ...``

Herra forseti. Úrskurður óbyggðanefndar hefur skilyrðislaust sett hér nýtt landslag. Hann hefur breytt því umhverfi sem Landsvirkjun starfar við. Hann hefur breytt þeim veruleika sem við sem alþingismenn búum við og þjóðin öll býr við og það að ætla að koma þessu máli í gegnum þingið án þess að ræða hina mögulegu auðlindarentu, án þess að skoða hana í tengslum við nýjan úrskurð óbyggðanefndar, það er ekki ábyrg stjórnsýsla, það er ekki ábyrg meðferð þessa máls, herra forseti.

Í fyrri hluta ræðu minnar fjallaði ég sömuleiðis um orkunýtingarstefnu stjórnvalda og yfirlýsingar stjórnvalda um orkusparnaðarátak sem ekkert bólar á þannig að ég ítreka þær spurningar sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra um það. Það er alveg eðlilegt að spurt sé um slíkt því að orkugræðgi er orðið hugtak sem mér finnst alveg sjálfsagt að nota yfir það sem hér á sér stað. Orkugræðgin kemur í ljós í yfirliti Orkustofnunar sem fylgir því frv. sem hér er til umræðu. Þar kemur fram að hugmyndir Orkustofnunar um nýtingu orkunnar eru þær að það skuli virkja og auka mjög mikið við virkjanir í landinu á næstu árum fram til ársins 2012. Það kemur líka fram í grein sem orkumálastjóri skrifar í Morgunblaðið 19. mars sl., ef ég man rétt, að Íslendingar eigi heimsmet í orkunotkun og verður ekki annað sagt, herra forseti, en að lesa megi einhvers konar stolt úr orðum orkumálastjóra hvað þetta varðar, þ.e. að hann sé stoltur af því hversu duglegir Íslendingar séu að nýta orkuna. En ég verð að segja, herra forseti, að mér fyndist meiri virðing fólgin í því að gera almennilegt orkusparnaðarátak og setja saman orkunýtingarstefnu þar sem þess verði gætt að orkunýting hér sé skynsamleg og hófleg og að við nýtum orkuna okkar með sparnað að leiðarljósi en ekki aukningu orkunotkunarinnar.

Ég gagnrýndi sömuleiðis það umhverfismat sem hæstv. umhvrh. lét framkvæma í ráðuneyti sínu, það framhaldsmat sem hæstv. ráðherra efndi til eftir að úrskurður Skipulagsstofnunar hafði verið kærður af 122 aðilum til ráðuneytisins. Sömuleiðis leiddi ég það fram í ræðu minni að Landsvirkjun hefði tekið þarna ákveðna áhættu þegar matsskýrsla Landsvirkjunar var auglýst. Það er alveg ljóst, herra forseti, að Landsvirkjun var vel kunnugt um að Skipulagsstofnun hafði gert kröfu um ákveðnar upplýsingar um mótvægisaðgerðir Landsvirkjunar sem aldrei bárust og það var eðlilegt þess vegna að Skipulagsstofnun skyldi hafna því að farið yrði í framkvæmdina á grunni þeirra upplýsinga sem lágu fyrir því að þær voru aldeilis ónógar. Það átti Landsvirkjun að vera ljóst frá fyrsta degi, frá því að skýrslan var auglýst, því að krafan hvíldi á herðum þeirra að skila inn til Skipulagsstofnunar upplýsingum um mótvægisaðgerðirnar sem aldrei var skilað, ekki fyrr en hæstv. umhvrh. var búinn að taka málið inn á sitt borð og hafði hafið hið skrípalega framhaldsumhverfismat.

Herra forseti. Það er alveg ljóst að gífurleg náttúruverðmæti færu súginn ef af þessum framkvæmdum yrði og það hafa náttúruverndarsamtök víða um landið leitt okkur fyrir sjónir í álitsgerðum sínum. Þar hafa verið nefndar til sögunnar álitsgerðir NAUST, Náttúruverndarsamtaka Austurlands, álitsgerð SUNN, álitsgerð Náttúruverndarsamtaka Íslands og álitsgerð Landverndar. Herra forseti. Það er alveg þess virði að fara nokkrum orðum um þau viðhorf sem umhverfisverndarsamtök og náttúruverndarsamtök hvers konar hafa þurft að mæta í þeim aðdraganda sem hér hefur átt sér stað.

[11:15]

Ljóst er að stóriðjustefna þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr við völd er ekki ný af nálinni. Henni hefur verið haldið á lofti af alefli, fyrst og fremst þó af hæstv. ráðherrum Framsfl., Halldóri Ásgrímssyni, Valgerði Sverrisdóttur og áður Finni Ingólfssyni, hæstv. fyrrv. iðnrh. Umhverfisverndarsamtök sem hafa tjáð sig um málin hafa mátt þola það að vera úthrópuð sem öfgasinnar, ekki bara í orði heldur líka á borði því að það hefur nú gerst að samtök á borð við Samband ísl. sveitarfélaga hafa sagt aðild sinni að náttúruverndarsamtökunum Landvernd lausri. Það hefur gengið svo langt, herra forseti, að Samband ísl. sveitarfélaga sem hefur átt aðild til fjöldamargra ára að náttúruverndarsamtökunum Landvernd sér ekki að það sé lengur um að ræða nokkra samleið þannig að samtökin hafa sagt sig úr Landvernd.

Auðvitað hafa náttúruverndarsamtökin Landvernd sömuleiðis mátt þola ákveðinn þrýsting frá fleiri atvinnurekendum, Samtökum atvinnulífsins sem, ef ég man rétt hafa orðað úrsögn úr samtökunum og Landsvirkjun hefur auðvitað beitt sínum þrýstingi þar innan dyra. Þar sem umhverfisverndarsinnar sem hafa tjáð sig um þessi mál hafa mátt sitja undir því að vera kallaðir öfgasinnar og séu að vinna einhvers konar skemmdarverk, það er allsendis ósæmandi málflutningur því að hver á að gæta hagsmuna náttúrunnar á Íslandi ef ekki frjáls félagasamtök á sviði náttúruverndar? Ætla stjórnvöld að stæra sig af því að beita frjáls náttúruverndarsamtök einhvers konar þvingunum? Það er ekki stórmannlegt, herra forseti, og ætti að sjálfsögðu að gagnrýna harðlega og það hvernig ýmiss konar umhverfisverndarsamtök hafa átt undir högg að sækja, sérstaklega hjá ríkisstjórninni sem nú situr. Það er sannarlega ámælisvert og er mál sem þarf að taka upp af alefli og fjalla um bæði á þessum vettvangi og víða annars staðar.

Herra forseti. Þá er ég komin að þeim kafla í umsögn minni til iðnn. sem fjallar um sjálfbærni Kárahnjúkavirkjunar en komið hefur fram í umfjöllun um málið, herra forseti, að Kárahnjúkavirkjun fullnægi ekki skilyrðum sem nauðsynleg eru til að hún geti talist sjálfbær og hægt sé að tala um að hún sé í sátt við umhverfið. Þess vegna mótmæli ég þeirri túlkun stjórnvalda að þær auðlindir sem stjórnvöld hyggjast nýta með þeim hætti sem Kárahnjúkavirkjun gerir ráð fyrir, þær aðferðir bjóða ekki upp á sjálfbæra nýtingu.

Sannleikurinn er sá að Hálslón fyllist með tímanum og gert er ráð fyrir að eftir um það bil 100 ár frá því að virkjunin verður reist, ef af verður, herra forseti, þá verði afkastageta hennar orðin verulega skert og á endanum er vitað að lónið kemur til með að hætta að taka við þeim vatnsforða sem ætlað er að safna í það vegna þess að aursöfnunin verður orðin svo gífurleg. Þegar svo verður komið, herra forseti, verður að sjálfsögðu sjálfhætt allri orkuframleiðslu í Kárahnjúkavirkjun.

Mergurinn málsins í þessu er sá að ekki liggja nákvæmir útreikningar um þetta mál, á hversu löngum tíma þetta muni gerast, eða á hvern hátt þetta komi til með að skerða orkuvinnsluna og þetta er eitt af þeim atriðum sem hefur verið gagnrýnt að ekki liggi fyrir nægar upplýsingar um. Þegar stjórnvöld tala um Kárahnjúkavirkjun sem aðferð við að nýta endurnýjanlegar auðlindir þjóðarinnar á sjálfbæran hátt, þá er þar ákveðinn blekkingarleikur á ferð.

Sömuleiðis er hægt að gagnrýna stjórnvöld, herra forseti, fyrir að hafa ekki brugðist á nokkrun hátt við þeim fréttum sem hafa borist frá vísindamönnum um bráðnun Vatnajökuls, hraðari bráðnun hans í seinni tíð heldur en hingað til og þau möguleg áhrif sem slík bráðnun gæti haft á vatnsbúskap eða rennsli jökulvatnanna norðan jökulsins.

Herra forseti. Í viðtali í Fréttablaðinu 21. janúar árið 2002, á þessu ári, var upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar inntur eftir því hvort utanaðkomandi áhrif af þessu tagi gætu ekki sett strik í reikninga Landsvirkjunar en hann taldi svo ekki vera þar sem Landsvirkjun miðaði við að vera búin að greiða virkjunina upp á 40 árum.

Herra forseti. Spurning er hvort ekki sé eðlilegt að í ljósi orða af þessu tagi sé varpað fram þeirri spurningu til iðnn., eða hv. formanns hennar, hvort ekki sé rétt að gera kröfu um að inn í stofnkostnað virkjunarinnar verði þá settur sá kostnaður sem hlytist af niðurrifi hennar og allra mannvirkja sem henni tengjast, auk kostnaðar við að færa náttúru landsins aftur til fyrra horfs. Erum við þá, herra forseti, komin að arðsemismati þessara framkvæmda.

Hæstv. umhvrh. sagði í úrskurði sínum varðandi þetta mál frá 20. desember 2001 um arðsemismatið eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Í 1. mgr. 16. gr. laga nr. 106/2000 er svo fyrir mælt að leyfisveitandi skuli taka tillit til úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum. Eins og fram kemur í kafla III 3.7 að framan, lítur ráðuneytið svo á að skýra beri 2. mgr. 11. gr. laganna þannig, sbr. j-lið 3. gr. þeirra, að ekki skuli líta til þjóðhagslegra áhrifa framkvæmdar þegar tekin er afstaða til þess hvort fallist sé á hana eða lagst gegn henni.``

Þarna, herra forseti, hafnar hæstv. umhvrh. einni af meginstoðum framkvæmdaraðila Landsvirkjunar undir matinu á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Ein meginstoð Landsvirkjunar var sú að hinn þjóðhagslegi ávinningur sem framkvæmdirnar hefðu í för með sér réttlætti náttúruspjöllin. Þeirri stoð kippti hæstv. umhvrh. undan í framhaldsmati sínu, en segir í úrskurði sínum í framhaldi þessara orða, með leyfi forseta:

,,Þetta atriði mælir á móti því að lagst sé gegn framkvæmd nema mjög miklir hagsmunir séu í húfi að því er umhverfið varðar. Að öðrum kosti væri verið að skerða óeðlilega svigrúm leyfisveitanda, í þessu tilviki Alþingis skv. 10. gr. orkulaga, til þess að vega og meta kosti og galla þess að leyfa framkvæmdina, að teknu tilliti til úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum.``

Herra forseti. Með öðrum orðum telur hæstv. umhvrh. það vera í verkahring Alþingis að vega og meta hinn þjóðhagslega þátt, meinta arðsemi framkvæmdanna á móti umhverfisáhrifunum en hún telur ekki að það eigi að gera í umhverfismatinu. Gott og vel, herra forseti. Ef við ætlum að hafa þennan framgangsmáta á, þá skulum við líka vinna vinnuna okkar. Við skulum fara í gegnum það mat sem aðilar vítt og breitt um bæinn hafa látið fara fram. Fyrir liggur núna að það er ekki bara Þjóðhagsstofnun sem hefur litið á hinn þjóðhagslega þátt heldur hafa margir aðilar gert það, bæði einstaklingar, stofnanir og félög og má þar til nefna Landvernd sem hefur látið fara fram sérstaka rýni í þetta atriði og haldið um það í samvinnu við Umhverfisstofnun Háskóla Íslands sérstakt málþing, málstofu sem haldin var fyrir skemmstu í Háskóla Íslands þar sem einir fimm hagfræðingar fjölluðu um hinn þjóðhagslega þátt þessara framkvæmda og meinta arðsemi þeirra.

Herra forseti. Í því mati sem farið hefur fram vítt og breitt á arðsemishugmyndum og hinum þjóðhagslega þætti eru mjög svo misvísandi skoðanir uppi, mjög misvísandi og ég fullyrði, herra forseti, að hv. alþm. hafa ekki fengið það tækifæri sem eðlilegt getur talist til að yfirfara það mat sem nú liggur fyrir frá einstöku hagfræðingum eða stofnunum. Þess vegna held ég í fyrri orð mín, herra forseti, og segi að nefndir Alþingis hafa ekki fengið tækifæri til að vinna þetta mál ofan í kjölinn á þann hátt sem sómi hefði verið að, á þann hátt sem hæstv. umhvrh. í úrskurði sínum gerir ráð fyrir að hv. alþm. vinni það. Svo ég vitni að lokum til orða hæstv. umhvrh. í úrskurðinum frá 20. desember, herra forseti, þá segir, með leyfi forseta:

,,Með skírskotun til þess, sem að framan er rakið,`` --- og ég las hér áðan --- ,,telur ráðuneytið að ekki sé heimilt að leggjast gegn framkvæmd skv. b-lið 2. mgr. 11. gr. nema ljóst sé eða að minnsta kosti að verulegar líkur séu á því að hún muni hafa í för með sér veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu þrátt fyrir skilyrði um minna umfang hennar og/eða mótvægisaðgerðir til að hamla gegn neikvæðum umhverfisáhrifum hennar. ``

Herra forseti. Hæstv. umhvrh. hefur kveðið upp úr með það að hið þjóðhagslega mat skuli fara fram en það eigi að gera í sölum Alþingis eða í nefndum Alþingis og ég fullyrði á móti að það mat hafi ekki farið fram. Í öllu falli höfum við ekki tekið til umfjöllunar spurninguna sem ég hef lagt fram í umsögn minni hvort ekki sé eðlilegt að reiknað sé inn í stofnkostnað virkjunarinnar allur sá kostnaður sem hlytist af niðurrifi hennar og allra þeirra mannvirkja sem henni tengjast og ekki heldur fjallað um aðferðir hagfræðinnar sem hefur verið lýst hér, a.m.k. í grundvallaratriðum, aðferðum sem hagfræðin hefur þróað til þess að meta verðgildi lands. Ég fullyrði því, herra forseti, og ítreka það sem ég hef áður sagt að hér stöndum við ekki að málum eins og best verður á kosið. Við erum ekki að gæta allra hagsmuna og ekki að skoða hina þjóðhagslegu þætti á þann hátt sem eðlilegt getur talist að við gerðum.

Nú hefur því verið haldið fram víða þegar þetta mál er til umfjöllunar að hér sé um að ræða framkvæmd sem komi til með að auka þjóðarframleiðslu Íslendinga umtalsvert og það er alveg rétt, herra forseti. Þessi framkvæmd mundi auka þjóðarframleiðslu Íslendinga. Um það er ekki deilt. En um hitt er deilt hvort sá mælikvarði sem mælir þjóðarframleiðslu sé akkúrat sá mælikvarði sem á að nota í þessu tilfelli. Þjóðarframleiðsla, herra forseti, mælir eingöngu getu þjóðar til að kaupa vörur eða þjónustu. Er það í alvöru vilji hv. alþm. að meta þá framkvæmd af þeirri stærðargráðu sem hún er á þann mælikvarða eingöngu? Á mælikvarðann sem mælir getu þjóðarinnar til að kaupa vörur og þjónustu? Ég er ekki viss um það, herra forseti. Ég er alls ekki viss um það. Ég held að þjóðin vilji miklu frekar skoða slík arðsemismál á öðrum mælikvarða, á mælikvarða sem mælir velsæld sem tekur tillit til náttúruauðlinda, sem tekur tillit til náttúrugæða. Sá mælikvarði hefur ekki verið nýttur við það mat sem stjórnvöld leggja til grundvallar ákvörðunum sínum hér. Þeim mælikvarða hefur ekki verið flaggað í nefndarstarfi þingnefndar sem fjallað hefur um þetta mál. Þvert á móti, herra forseti. Menn hafa einskorðað sig við að skoða álit Þjóðhagsstofnunar á þessu máli sem mælir gæði framkvæmdanna eingöngu á mælikvarða þjóðarframleiðslunnar. Herra forseti. Sá mælikvarði, eins og ég sagði áðan, mælir ekki allt sem eðlilegt er að mælt sé.

Ljóst er að hagfræðingar vítt og breitt hafa gagnrýnt þessa framkvæmd fyrir það að arðsemi hennar sé engin, hún sé óhagkvæm fyrir íslenska ríkið og fórnirnar sem henni eru samfara séu alls ekki réttlætanlegar vegna þess að náttúruauðlindirnar geti sjálfar skilað þjóðinni gífurlegum ávinningi. Hver er sá ávinningur? Sá ávinningur er fólginn í því að með því að varðveita þær náttúruauðlindir sem um ræðir á svæðinu norðan Vatnajökuls gætu Íslendingar státað af stærsta þjóðgarði Evrópu og jafnvel þótt víðar væri leitað sem hefði að geyma náttúrufar sem mögulega ætti sér enga hliðstæðu annars staðar á jörðinni. Þjóðgarði elds og ísa, þjóðgarði jökla, eldfjalla, jarðhita, vatnsfalla, auðna og þykkrar gróðurhulu.

[11:30]

Náttúrufarið á svæðinu norðan Vatnajökuls er ómetanlegt, herra forseti. Það eru ekki eðlileg vinnubrögð hjá Alþingi Íslendinga árið 2002, í ljósi alls þess sem gerst hefur í umhverfismálum á síðasta áratug, og ekki réttlætanlegt að þessum náttúruauðlindum sé fórnað í blindni án þess að meta hvaða hagsmunir eru teknir fram yfir hagsmuni náttúruauðlindarinnar eða náttúruverndarinnar. Ég fullyrði því, herra forseti, að hagsmunir náttúruverndar hafa ekki verið metnir inn í þetta reikningsdæmi. Það er í hæsta máta óeðlilegt. Í stað þess leiða stjórnvöld þjóðina inn í gildru sem hefur yfirskriftina álver eða dauði, eins og það hefur verið kallað í þingræðum hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Slík nauðhyggja er ekki til framdráttar nokkurri ríkisstjórn.

Herra forseti. Af því að ég var að tala um mælikvarðana, mælikvarða þjóðarframleiðslunnar, vil ég fara nokkrum frekari orðum um það sem hagfræðingar hafa gagnrýnt í öllum þessum framkvæmdahugmyndum. Það er vitað að hagstjórnin á tímum framkvæmdanna yrði mjög erfið. Það er líka vitað, herra forseti, að efnahagslegar mótvægisaðgerðir hafa ekki verið settar niður á blað. Það er í sjálfu sér líka mjög óeðlilegt að ætla sér að fara út í framkvæmdir af þessari stærðargráðu án þess að þjóðinni sé gerð grein fyrir því hvers konar efnahagslegar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnin hyggist gera á framkvæmdatímanum.

Seðlabankinn hefur gefið yfirlýsingu um að hann muni hækka vexti. Það er búið að gefa yfirlýsingar um að óbeinir skattar verði mögulega hækkaðir og þá trúlega tekjuskattur að öllum líkindum. Það er ljóst að ef af þessum framkvæmdum verður verður skorið niður fé til opinberra framkvæmda. Þá erum við að tala um vegagerð, jarðgangagerð, framkvæmdir á borð við skólabyggingar, eflingu menningarstofnana eða hvað svo sem heyrir undir opinberar framkvæmdir. Í dag vitum við ekkert hvaða framkvæmdir yrðu fyrir barðinu á niðurskurðarhnífi stjórnvalda ef öll orkan verður sett í framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði. Það mætti líka hugsa sér að öll framlög til lífeyrissjóðanna yrðu hækkuð. Það mætti hugsa sér ýmsar aðgerðir sem kæmu kannski þungt við pyngju launafólks en meginmálið er að ekkert af þessu, herra forseti, liggur fyrir. Það er í hæsta máta óábyrgt af stjórnvöldum árið 2002 að ætla sér að ýta þjóðinni út í framkvæmdir af þessari stærðargráðu án þess að gefa nokkuð til kynna um mótvægisaðgerðirnar sem yrðu að eiga sér stað til að þjóðfélagið og hagkerfið geti borið framkvæmdir af þessari stærð. Ef gengi krónunnar hækkar, hækkar um leið allur framleiðslu- og framkvæmdarkostnaðurinn. Þá spyr maður sig eðlilega: Eru þá ekki allar hugmyndir um arðsemi komnar út í móa?

Um það hefur verið fjallað í þingskjölum, í svari sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fékk frá Seðlabankanum um arðsemi Noral-verkefnisins, að að öllum líkindum gæti ein afleiðingin orðið gengishækkun. Þar með er orðin óvissa um arðsemi þessara framkvæmda. Sömuleiðis er viðurkennd óvissa um félagslega þætti. Við vitum ekkert varðandi fjármögnunina. Það er enn þá allt einhvers staðar úti í móa eins og margt annað í þessu máli, herra forseti. Umhverfiskostnaðurinn er hvergi til staðar. Það er svo margt í þessu máli sem er ekki sæmandi stjórnvöldum. Stjórnvöld vita betur en að fara út í framkvæmdir af þessu tagi án fyrirhyggjunnar að leiðarljósi, engar mótvægisaðgerðir eru skráðar.

Hvað þýðir sú gagnrýni hagfræðinga á þessi mál sem sýna okkur fram á það svo óyggjandi er að arðsemin verði engin? Þar nefni ég til hagfræðinga eins og Þorstein Siglaugsson rekstrarhagfræðing og Sigurð Jóhannesson hagfræðing sem báðir hafa skrifað greinar og ítarlegar greinargerðir sem sýna fram á að arðsemin af þessum framkvæmdum sé engin. Jafnvel þó að allar forsendur Landsvirkjunar séu reiknaðar út í hörgul og jafnvel tekið inn í myndina að álverðið verði eins og Landsvirkjun segir að það verði er ekki hægt að sjá í reikningum þessara hagfræðinga að um arð verði að ræða. Hverju hafa stjórnvöld svarað gagnrýni hagfræðinganna sem ég nefni hér? Þau hafa í engu svarað þessum gagnrýnisröddum.

Um þessa útreikninga var fjallað á málstofu sem ég nefndi áðan, sem Landvernd hélt í samvinnu við Umhverfisstofnun Háskóla Íslands, þriðjudaginn 12. mars sl. í Lögbergi. Þar kom fram að heildarfjármagn í þessari virkjun eigi að skila 6% arði og ávöxtunarkrafa þýðir það að menn fengju sömu ávöxtun á alþjóðlegum fjármálamarkaði. Það er alveg ljóst að um slíka kröfu er ekki að ræða í þessu verkefni. Menn eru að meta þetta verkefni á öðrum nótum en almennur fjármálamarkaður vinnur á og það er í sjálfu sér ámælisvert. Því er eðlilegt að menn fari betur ofan í saumana á þessu og sýni fram á að þær gagnrýnisraddir sem komið hafa eigi þá ekki við rök að styðjast. Í þeim útreikningum sem ég hef kynnt mér verð ég að segja að mér finnst þeir afar sannfærandi. Þeir mæla gegn því að út í framkvæmd af þessu tagi verði farið þó ekki sé skoðað neitt annað en hinn þjóðhagslegi ávinningur, ávöxtunarkröfur og arðsemismat.

Herra forseti. Varðandi mótvægisaðgerðirnar sem eiga að vega upp á móti áhrifum verkefnisins, bæði í fjárhagslegu og efnahagslegu tilliti, er eðlilegt að kallað sé eftir þeim áður en til ákvörðunar kemur. Það er alveg ljóst að þetta verkefni kemur til með að þrengja mjög að öðrum atvinnugreinum í landinu. Það að Seðlabankinn mun bregðast við með vaxtahækkunum kemur til með að þvinga aðrar atvinnugreinar til að losa um starfsfólk, sem fer þá að öllum líkindum að vinna í Noral-verkefninu.

En hvaða fólk mundu þessar aðgerðir losa um? Er alveg ljóst að allt það fólk sem þessar aðgerðir mundu losa um sé til þess fallið að starfa í þessu Noral-verkefni? Gæti kannski farið svo að þessar aðgerðir mundu losa um starfsfólk sem alls ekki hefði hæfileika, vilja eða möguleika á að starfa við Noral-verkefnið? Er kannski mögulegt að aðgerðir af þessu tagi kæmu til með að geta aukið atvinnuleysi í röðum kvenna eða í röðum ófaglærðs verkafólks? Herra forseti. Það er vel hugsanlegt. Það er mjög vel hugsanlegt og ámælisvert að við skulum rekin út í að taka ákvarðanir um framkvæmdir af þessu tagi áður en við vitum hvernig stjórnvöld ætla að bregðast við. Ætla stjórnvöld, eins og kom fram í máli hæstv. fjmrh. í fréttum fyrir skemmstu, að efna til gífurlegs innflutnings á erlendu vinnuafli til að þessi framkvæmd komi ekki enn verr niður á þjóðinni en gerast mundi án þess að flutt yrði inn erlent vinnuafl? Þá segi ég, herra forseti: Ef þetta er stefna stjórnvalda, ef það er vilji stjórnvalda að manna framkvæmdir þessa Noral-verkefnis með innfluttu erlendu vinnuafli, fullyrði ég að það er ekki gert ráð fyrir því í skýrslu Nýsis á samfélagslegum áhrifum álversins, skýrslu sem fylgdi umhverfismatsskýrslu álversins. Þar er ekki gert ráð fyrir gífurlegri uppbyggingu félagslegrar þjónustu vegna aðflutnings á erlendu vinnuafli. Þar er ekki gert ráð fyrir að taka þurfi á móti umtalsverðu erlendu vinnuafli sem mundi síðan fara aftur. Þar er ekki gert ráð fyrir því að vinnuafl af því tagi tæki mögulega með sér fjölskyldur til landsins. Hvernig hugsa stjórnvöld sér að höndla það ef það er vilji þeirra eða ætlan, eins og lesa mátti í orð hæstv. fjmrh., að manna þessar framkvæmdir að umtalsverðu leyti með erlendu vinnuafli. Þetta er einn veigamikill þáttur málsins sem stjórnvöld hafa skotið sér hjá að ræða. Það er þeim ekki til framdráttar. Það er ekki eðlilegt að hv. alþm. láti bjóða sér að ræða ekki þennan þátt málsins áður en heimild sú sem hér er fjallað um verður veitt.

Í ljósi þess sem hæstv. viðskrh. hefur sagt um vexti og vaxtastig í landinu hefur hún mér vitanlega oftar en einu sinni haldið því fram að vaxtastigið sé svo hátt, vextir svo háir hér á Íslandi, að ekkert fyrirtæki geti lifað við það. Þá spyr ég: Hvernig getur hæstv. ráðherra þá réttlætt að fara út í framkvæmdir sem vitað er að kæmu til með að hækka vaxtastigið enn meira? Hvernig réttlætir hæstv. ráðherra þetta fyrir atvinnulífinu, fyrir Samtökum atvinnulífsins? Um það höfum við ekki heyrt múkk.

Það er, herra forseti, ekkert óeðlilegt að maður undrist afstöðu atvinnulífsins í þessum málum. Manni fyndist, í ljósi þess sem Seðlabankinn hefur gefið út varðandi mótvægisaðgerðirnar, að öll samtök atvinnulífsins ættu að standa upp í beinni og breiðri fylkingu og mótmæla þessum hugmyndum stjórnvalda. Það er auðvitað ekki hægt að grenja stöðugt á vaxtalækkanir og ætla svo að segja já takk, já takk við verkefni sem fyrirsjáanlega mundi hækka vaxtastig í landinu umtalsvert. Hér er auðvitað eðlilegt að málin séu skoðuð ofan í kjölinn og að mótvægisaðgerðirnar séu skoðaðar frá öllum sjónarhornum, bæði verkafólksins og þeirra sem reka og eiga atvinnufyrirtækin. Við þurfum að spyrja: Hvernig kæmu þessar framkvæmdir niður á smærri og meðalstórum fyrirtækjum? Er ekki augljóst, eins og bent hefur verið á af hagfræðingum, að þær mundu koma einstaklega illa niður á smærri og meðalstórum fyrirtækjum? Er ekki augljóst að fyrirtæki sem mundu lifa framkvæmdir af þessu tagi af væru stórfyrirtæki, þar sem hefur verið sameinað grimmt? Þá spyr maður sig, herra forseti: Er atvinnulífið á Íslandi þess eðlis að einungis stórfyrirtæki og risar geti þrifist hér? Er það vilji okkar í þessu stóra landi, með þessa fámennu þjóð, að hafa fyrirtækin öll stór og helst alþjóðleg fyrirtæki sem standa helst með lappirnar í öllum heimsálfum jarðkringlunnar? Er það atvinnulíf sem við viljum sjá fyrir okkur?

Hvað þýða orð stjórnvalda þegar þau tala um sprotafyrirtækin og eflingu smærri og meðalstórra fyrirtækja? Það er ekki hægt að efla með annarri höndinni og slá af með hinni. Það er ekki sannfærandi pólitík. Atvinnulífið á Íslandi á skilið að stjórnvöld vinni á annan hátt. Atvinnulífið á skilið að fá tækifæri til að þróast með þeim hætti sem grasrótin sjálf gerir ráð fyrir. Það er eðlilegt að á Íslandi séu til smáfyrirtæki. Í smáum samfélögum vítt og breitt um landið viljum við að til sé urmull smárra fyrirtækja. Þjóðin telur það eðlilegt. Stjórnvöld hafa lýst sig því fylgjandi. Stjórnvöld hafa undirritað alþjóðasamninga um að okkur beri að gæta að fjölbreytni og ekki bara í náttúrunni heldur líka í mannlífinu. Við strögglum við að bjarga íslenskri tungu. Hvers vegna skyldum við ekki líka ströggla við að bjarga íslensku atvinnulífi?

Ég fullyrði, herra forseti, að framkvæmd af þeirri stærðargráðu sem hér er fjallað um veikir íslenskt atvinnulíf. Hún yrði því ekki sá máttarstólpi sem hv. stjórnvöld hafa viljað vera láta. Það eru allt annars konar atvinnugreinar og atvinnuvegir sem mundu gera slíkt. Í fyrri hluta ræðu minnar fór ég yfir það í löngu máli sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur haft til málanna að leggja í þessum efnum en eins og vitað er, herra forseti, höfum við lagt fram fjöldann allan af þingmálum þar sem gert er ráð fyrir atvinnuuppbyggingu af því tagi að smærri og meðalstór fyrirtæki og frjótt og gróskumikið atvinnulíf geti blómstrað í öllum samfélögum þessa lands, hvort sem er í höfuðborgarsamfélagi sem hefur á að skipa 170 þúsund manneskjum eða smærri samfélögum úti á landi sem telja nokkur hundruð manns eða nokkur þúsund sum hver.

[11:45]

Herra forseti. Hvaða áhrif mundi það hafa ef Seðlabankinn á hinn bóginn mundi ekki grípa til vaxtahækkana? Á hverju mundu áhrifin þá bitna? Við því er einfalt svar og það svar er mjög alvarlegt, herra forseti. Ef Seðlabankinn gripi ekki til vaxtahækkana við þær aðstæður sem mundu skapast ef af þessum framkvæmdum yrði mundi það eingöngu bitna á verðlagi og launum. Það mundi bitna á atvinnustiginu. Eru Íslendingar tilbúnir að kalla yfir sig atvinnuleysi eða eru Íslendingar tilbúnir að kalla yfir sig víxlverkun verðlags og launa eina ferðina enn, við sem erum búin að vera á hröðum flótta undan slíku?

Herra forseti. Það er ljóst að slíkt kapphlaup hæfist á nýjan leik ef Seðlabankinn gripi ekki til vaxtahækkana þannig að hvorir tveggja kostirnir, vaxtahækkanir eða ekki vaxtahækkanir, væru slæmir kostir.

Þess utan, herra forseti, hefur lítið verið farið ofan í saumana á því í þessum umræðum hvernig álverðsþróunin hefur verið, þess vegna undanfarin árhundruð. Við erum með yfirlit yfir þróun álverðs langt aftur í tímann og það er alveg ljóst að það er mjög sveiflukennt. Það fer jafnt og þétt lækkandi. Sýnt hefur verið fram á að stórir álhringir séu að fara á hausinn og að nýjustu atburðir á stálmarkaðnum, þar sem verið er að setja verndartolla á stálinnflutning til Bandaríkjanna, gætu haft áhrif í þá veru að álverð mundi lækka enn frekar. Hagfræðingar hafa gagnrýnt þessar framkvæmdir og bent á að það álverð sem Landsvirkjun reiknar með sem upphafsverði sé allt of hátt og ekki í samræmi við raunverð markaðarins í dag. Sl. 40 ár hefur álverð lækkað um 1,3%. Segja má að á síðustu 100 árum hafi það lækkað um 2% og spá fram í tímann gæti þýtt enn þá meiri lækkun. Við getum sagt að á 60 ára líftíma virkjunarinnar komi álverð að öllum líkindum til með að lækka um 11/2--2%.

Herra forseti. Í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir núna þar sem við höfum engan orkukaupanda í sigtinu hefur reyndar kannski einum áhættuþætti verið kippt út úr verkefninu því það er staðreynd að Norsk Hydro hefur aldrei byggt álver og það er kannski til marks um hikið sem á þeim er. Kannski hefur Norsk Hydro ævinlega þótt íslensk stjórnvöld gera fullmiklar kröfur til þeirra. Norsk Hydro hefur fyrst og fremst verið í því upp á síðkastið að kaupa upp álver eins og vitað er, í Þýskalandi, og í því uppnámi sem nú ríkir í málinu þar sem enginn orkukaupandi er í sigtinu er auðvitað alveg ljóst að við vitum í raun og veru ekkert af hvaða stærðargráðu verkefnið yrði á endanum, ekkert heldur hvort þeir aðilar sem fyndust, ef einhverjir, væru tilbúnir til að reisa svo stórt álver sem hér um ræðir. Ef svo verður ekki, ef ekki finnast aðilar sem eru tilbúnir til að reisa svona stórt álver, hvað eigum við þá að gera við virkjun sem framleiðir 3,8 teravattstundir? Þetta er auðvitað spurning sem eðlilegt er að svarað sé, og eðlilegt er að menn gagnrýni að hér skuli eiga að koma í gegn heimild fyrir ráðherrann til að leyfa virkjun af þessari stærðargráðu á meðan við vitum ekkert um stærðargráðu mögulegrar verksmiðju sem þessari virkjun var ætlað að knýja.

Herra forseti. Það er einn þáttur þessara mála sem er alveg eðlilegt að fjallað sé um af talsverðri alvöru. Það er þetta óðagot og bráðlæti. Það er eðlilegt að stjórnvöld séu krafin svars við spurningunni: Hvers vegna liggur okkur þessi reiðinnar býsn á ef orkukaupandinn er ekki í sjónmáli? Eina skynsamlega svarið sem ég sé er að stjórnvöld vanti feita og stóra gulrót á prikið sem þau vilja vingsa framan í væntanlega orkukaupendur, risana sem þjóðinni var tjáð í morgun, herra forseti, að fyrrv. hæstv. iðnrh., Finnur Ingólfsson, ætti nú að fara að leita vítt og breitt um heiminn. Í fréttum í morgun var gerð grein fyrir því að ný álversnefnd hefði verið stofnuð, og það dugði ekkert minna en að setja tvo hæstv. fyrrv. iðnrh. í málið, þá Finn Ingólfsson og Friðrik Sophusson, og þeim var gert að fara út af örkinni eins og Davíð forðum og finna risa. Og ég ætla að vona, herra forseti, að hæstv. ráðherra hafi látið þessa djörfu sveina hafa meira í sitt farteski en 5 litla steina eins og Davíð fékk á sínum tíma til að fella Golíat. En ég er ekki viss um, herra forseti, að þessir sveinar verði jafnheilladrjúgir í sinni baráttu við þá risa sem þeir eru nú að leita eins og Davíð var á sínum tíma þegar hann felldi Golíat með steinunum og slöngunni sinni.

Já. Óðagotið, herra forseti, er gagnrýnivert. Á málstofu Landverndar og Umhverfisstofnunar Háskóla Íslands, sem ég hef nefnt, komst Edda Rós Karlsdóttir hagfræðingur svo að orði að það væri synd að okkur skyldi liggja svona mikið á. Af hverju að gera þetta núna, spurði hagfræðingurinn, þegar eina leiðin til að koma þessu í kring er að flytja inn um það bil 70% af vinnuaflinu? Og það er eðlilegt að stjórnvöld svari okkur þessu eins og ég hef vikið að í ræðu minni.

Svo er líka eðlilegt að við skoðum nánar, herra forseti, yfirlýsingar frá fjármálastjóra Landsvirkjunar, Stefáni Péturssyni, sem lét þess getið í máli sínu á orkuþingi 2001 að virkjun fyrir stóriðju gæti aldrei borgað sig sem einkaframkvæmd. Rifjum þá upp, herra forseti, að árið 1997 þegar nefndur hæstv. fyrrv. iðnrh., Finnur Ingólfsson, kynnti þetta mál til sögunnar upphaflega, hugmynd um samvinnu Íslendinga og Norðmanna við að reisa álver á Austfjörðum, var hugmyndin einkaframkvæmd. Á þeim tíma, herra forseti, 1997, var ekki gert ráð fyrir því að íslenska ríkið ætti og ræki þessa virkjun, heldur væri hún svo stór að um hana yrði að stofna sérstakt fyrirtæki. Hafa menn gleymt því, eða hvað? Eru menn e.t.v. bara búnir að átta sig á því, eins og Stefán Pétursson, fjármálastjóri Landsvirkjunar, er búinn að átta sig á og gerði grein fyrir á orkuþingi, að einkaframkvæmd af því tagi yrði aldrei arðsöm? Hvað þýðir það, herra forseti? Það þýðir eingöngu það að meðgjöf sú sem íslensk stjórnvöld heimta með þessari virkjun er slík að um slíkt eru ekki nein dæmi. Meðgjöfin, sem er fólgin í skattfríðindum Landsvirkjunar, ríkisábyrgð á lánum og þessum landgæðum sem afhent eru án nokkurs auðlindagjalds, er svo gífurleg að einungis með henni er hægt að halda því fram að virkjunin sé arðbær. Gott og vel. Þá eru stjórnvöld að blekkja okkur. Stjórnvöld ætluðu upphaflega að hafa þetta einkaframkvæmd. Í ljós hefur komið að slíkt mundi aldrei borga sig, og hvers eigum við þá að gjalda? Eigum við þá bara að kyngja því að verkefninu sé breytt í framkvæmd af því tagi sem nú liggur fyrir þar sem öll þessi meðgjöf verður látin viðgangast, markaðslögmálunum beinlínis kippt úr sambandi og þessu öllu steypt þannig á stél að ekki stendur steinn yfir steini miðað við fyrstu áætlanir stjórnvalda í þessum efnum?

Herra forseti. Ég ætlaði að vitna í orð Stefáns Péturssonar beint. Ég var með þessa ræðu hans sem hann flutti á orkuþingi en ég finn hana ekki í fljótu bragði í bunkanum mínum þannig að ég læt liggja á milli hluta í bili að vitna beint til þeirrar ræðu. Það var hins vegar alveg ljóst af orðum fjármálastjórans að virkjun til stóriðju á Íslandi gæti eingöngu gengið upp og talist arðbær framkvæmd með því að viðhalda því umhverfi sem Landsvirkjun býr við núna. Þá spyr ég, herra forseti, og það ekki að ósekju: Er það rétt skilið hjá mér að hæstv. iðnrh. og ríkisstjórnin öll ætli sér að koma þessu virkjunarleyfi í gegn núna rétt áður en ný raforkulög líta dagsins ljós, rétt áður en allt umhverfi raforkumála verður fært til annars horfs, verður fært til á þann máta að lögmál markaðarins eiga, að því er virðist af frv., að gilda? Er það rétt að hæstv. ríkisstjórn ætli að skjóta þessu framkvæmdaleyfi undan raforkulögunum, undan hinum breytta raforkumarkaði, til þess að yfir höfuð sé hægt að fara út í þetta með gamla laginu, samkvæmt gamla hagkerfinu, á þann gamla og gamaldags hátt sem ráðið hefur starfsemi Landsvirkjunar? Það virðist vera gamaldags núna, herra forseti, í augum ríkisstjórnarinnar yfir höfuð að hafa nokkrar ríkisframkvæmdir því að allt á að einkavæða. En nú ætla menn að leyfa sér að setja þessa framkvæmd á lappirnar, skjóta undir hana styrkum stoðum áður en farið verður að fjalla um einkavæðingu í raforkugeiranum og að markaðslögmálin nái þar tökum. Ef það er rétt sem fjármálastjóri Landsvirkjunar segir, að virkjun fyrir stóriðju geti einungis átt sér stað í því umhverfi sem Landsvirkjun býr við núna, kann svo að fara, herra forseti, að þetta verði síðasta stórvirkjunin á Íslandi. Eðli málsins samkvæmt ættum við að fagna því, en herra forseti, virkjunin sjálf, Kárahnjúkavirkjun eins og hún er upplögð, yrði slíkt slys að það er í sjálfu sér ekki hægt að fagna því jafnvel þótt hún yrði síðasta virkjun fyrir stóriðju á Íslandi. Hún er slíkt slys að það verður að gera allt sem í okkar valdi stendur til að fyrirbyggja hana því það yrði skaði ef íslenska þjóðin samþykkti, á ári fjalla, að vinna önnur eins hermdarverk á náttúru Íslands. Það yrði stjórnvöldum og þessum hv. alþingismönnum sem sitja á Alþingi núna sannarlega ekki til sóma.

Herra forseti. Örfá orð í viðbót um markaðslögmálin sem ekki gilda. Í Viðskiptablaðinu 20.--26. mars 2002 er grein eftir Sigurð Jóhannesson hagfræðing. Hún er afar merkileg og fjallar um þetta sem ég var að segja frá áðan, að þegar hæstv. fyrrv. iðnrh. Finnur Ingólfsson greindi Alþingi frá þessum hugmyndum árið 1997 var gert ráð fyrir að um einkaframvæmd yrði að ræða. Svo spyr Sigurður í greininni, þegar það kom í ljós að einkafjárfestar sýndu þessu ekki áhuga, hvort þá hafi ekki verið ákveðið að Landsvirkjun skyldi sjálf virkja með fullri ábyrgð eigenda sinna, ábyrgð þjóðarinnar sem sagt, og það er alveg eðlilegt í þessari umræðu að hæstv. iðnrh. Valgerður Sverrisdóttir svari því hvenær horfið hafi verið frá einkaframkvæmdinni og með hvaða rökum. Ef horfið var frá einkaframkvæmdarhugmyndinni með þeim rökum að það yrði aldrei arðbært, aldrei yrði hægt að finna fjárfesta til slíks, hvers eigum við þá að gjalda með óarðbæra framkvæmd? Er þá hæstv. iðnrh. ekki búin að reka ofan í sjálfa sig öll þau orð sem hún hefur látið falla um arðsemi verkefnisins? Ég mundi halda það, herra forseti. Og ég krefst þess að hæstv. iðnrh. svari þessu: Hvenær var hætt við einkaframkvæmd og hvers vegna?

Sigurður Jóhannesson greinir frá því í þessari grein í Viðskiptablaðinu að samkvæmt þessum áætlunum muni fjögurra manna reykvísk fjölskylda taka á sig ábyrgð fyrir um það bil 3 millj. kr., þ.e. hver Reykvíkingur mundi taka á sig ábyrgð vegna Kárahnjúkavirkjunar sem næmi 700 þús. kr. Maður spyr sjálfan sig: Er ekki ábyrgð af þessu tagi rekstrarstyrkur við verkefnið? Það er meðgjöf, meðgjöf sem hlýtur að vera hægt að meta til tuga milljarða, og hagfræðingurinn fullyrðir í greininni að arðsemin sé einfaldlega neikvæð ef tekið er tillit til allra kostnaðarliða. Þá er líka eðlilegt að þessari spurningu sé svarað: Hvers vegna er ekki tekið tillit til allra kostnaðarliða í þeim áætlunum sem stjórnvöld hafa lagt til grundvallar?

[12:00]

Herra forseti. Í grein Sigurðar kemur fram að skattleysi muni færa virkjuninni um 5 milljarða meðgjöf og þá muni vera eftir um 5 milljarðar vegna umhverfisvörslu á hálendinu en þar styðst hagfræðingurinn við athugun sem ég hef gert að umtalsefni í ræðum mínum í þessu máli en Nele Lienhoop, sem er nemi í umhverfisfræðum í Skotlandi, hefur látið fara fram skilyrt verðmætamat á hluta svæðisins sem yrði eyðilagður eða færi undir Hálslón. Niðurstaða hennar var sú að samkvæmt skilyrtu verðmætamati væri um gífurlega verðmætt land að ræða og hagfræðingurinn Sigurður Jóhannesson gerir þetta að umtalsefni í grein sinni og telur þau verðmæti sömuleiðis vera meðgjöf frá ríkinu til verkefnisins. Þó að reikningarnir sem getið er um í grein Glettings, sem fjallar um verkefni Nele Lienhoop, séu kannski ónákvæmir hljóta þeir samt að vera mun nær lagi en arðsemismat Landsvirkjunar sem sleppir þeim þrem mikilvægu kostnaðarliðum. Í ljósi þeirrar meðgjafar er það því umhugsunarefni, telur Sigurður, af hverju slíkt ofurkapp er lagt á að ýta þessari framkvæmd áfram.

Það er skondið, herra forseti, að hagfræðingurinn getur um það að hægri menn séu ekki vanir að draga dóm hins frjálsa markaðar í efa. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Ef eitthvað annað væri um að tefla en virkjanir og stóriðjuframkvæmdir væri afstaðan sennilega önnur. Hvað veldur?``

Hann kemur með nokkrar tillögur sem mig langar til að vitna til, í grein í Viðskiptablaðinu frá 20.--26. mars, og í framhaldi af því sem hann segir um að hægri menn séu ekki vanir að draga dóm hins frjálsa markaðar í efa, þá segir hann, með leyfi forseta:

,,Ef eitthvað annað væri um að tefla en virkjanir og stóriðjuframkvæmdir væri afstaðan sennilega önnur. Hvað veldur? Hér eru nokkrar tillögur.

Við erum á móti náttúruvernd --- jafnvel þó að það kosti eitthvað.

Ögmundur er á móti þessu --- þá hlýtur það að vera gott.

Við styðjum stóriðju og virkjanir. Tæknileg atriði eins og arðsemi hnika ekki þeirri afstöðu.

Stóriðja færir okkur hagvöxt og ný störf.

Markaðslögmálin gilda að vísu víða --- en þau hafa ekki enn náð til virkjana.``

Herra forseti. Hagfræðingurinn heldur áfram og segir:

,,Líkast til viðurkenna fáir að fyrstu punktarnir þrír ráði afstöðu þeirra. Margir tala hins vegar um hagvöxt og störf sem meginkosti stóriðju og virkjana. En ekki má gleyma því að flest fyrirtæki sem stofnuð eru hér á landi færa okkur hagvöxt og ný störf. Kárahnjúkavirkjun og Reyðarál eru stærri en þau flest, en það réttlætir varla að slegið sé af arðsemiskröfunum. Þá er eftir síðasti liðurinn, sem ríður líklega baggamuninn í hugum margra --- að lögmál markaðarins hafi hreinlega ekki enn numið land á þessu sviði. Það var þó ekki afstaða þeirra sem lögðu upp í þessa framkvæmd.``

Herra forseti. Ég skora sérstaklega á þá hægri menn sem sitja á þingi þessa stundina að kynna sér sjónarmið hagfræðingsins í Viðskiptablaðinu því að þau eru sannarlega orð í tíma töluð og gætu kannski hrist upp í sumum þeirra. Hvað er það sem veldur því að markaðslögmálin eru ekki látin ráða í Kárahnjúkavirkjun? Hvað er það sem réttlætir það að ríkið fari í þá gífurlegu meðgjöf sem búið er að leiða í ljós að ríkisstjórnin hyggist gera? Hvað er það sem réttlætir það og hvenær hætti ríkisstjórnin við að láta þetta vera í formi einkaframkvæmdar og ákvað að gangast í alla ábyrgð?

Herra forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason, formaður iðnn., hefur tönnlast á því í umræðunni að Vinstri grænir séu á móti málinu. Herra forseti. Það að Vinstri grænir séu á móti málinu þýðir ekki það að Vinstri grænir hafi rangt fyrir sér, og hv. þm. Hjálmar Árnason skuldar þjóðinni útskýringar á orðum sínum. Hann skuldar okkur hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og þjóðinni betri rök fyrir þeim fullyrðingum sínum að ekki þurfi að orða hér skoðanir Vinstri grænna af því að þeir séu bara á móti málinu. Rétt er að hv. þm. skýri frekar mál sitt og sýni meiri rökfestu en hann hefur gert í málflutningi sínum.

Hv. þm. Hjálmar Árnason hefur haldið því fram að Kárahnjúkavirkjun muni skila 14--16 milljarða hagnaði á næstu 25 árum. Þetta er m.a. haft eftir honum í Morgunblaðinu upp úr miðjum mars --- ég man ekki nákvæmlega dagsetninguna --- en ef við skoðum þá tölu nánar, 14--16 milljarða sem hv. formaður iðnn. telur að Kárahnjúkavirkjun muni skila í hagnað á næstu 25 árum, þá væri það um 0,5% á ári miðað við þá 180 milljarða fjárfestingu sem um er að ræða og Hjálmar miðar við að álverð á þessum tíma haldist á milli 1.500--1.600 dollarar tonnið, sem að mínu mati og margra hagfræðinga er reyndar of hátt en við skulum láta það liggja á milli hluta. Álverð nú, til að það fylgi þá hér með, er um það bil 1.400 dollarar tonnið en Hjálmar gerir ráð fyrir að álverðið lækki um 0,4% á ári. Álverðið lækki sem sagt um 0,4% og samkvæmt því ætti þá álverðið á tímabilinu að vera nærri 1.350 dollarar tonnið og þar með ef rétt er reiknað, ég gerði þetta sjálf á minni litlu reiknivél í tölvunni minni, og ef maður reiknar þetta dæmi til enda, þá skilar virkjunin 15 milljarða tapi á þessum 25 árum en ekki neinum hagnaði. Í skýrslu sem Landsvirkjun hefur gert mikið úr að fylgi sínu viðbótarmati til umhvrh. þar sem Sumitomo-bankinn í Japan gerði ráð fyrir 1,1% árlegri lækkun álverðs, þá mætti með sömu reikningsaðferðum og ég hef beitt reikna sig fram til taps upp á 35 milljarða kr. Þannig að tölurnar sem hv. formaður iðnn. hefur gefið í fjölmiðlum og til almennings eru að mínu mati alls ekki nægilega trúverðugar til að hv. þm. geti haldið því fram hér hvað eftir annað að um arðbært verkefni sé að ræða ef einföldustu reikningsaðferðir, sem eðlilegt er að allir kunni, sýna fram á hið gagnstæða. Rökfesta hv. formanns iðnn. í þessu tilliti er því haldlítil því að sýnt hefur verið fram á að áætlanir Landsvirkjunar um álverð séu a.m.k. 20% eða jafnvel 40% of háar og þar af leiðandi er alls ekki um það að ræða að hér sé um arðsamt verkefni að ræða, sérstaklega þegar litið er til þess að ávöxtunarkrafa Landsvirkjunar er helmingi of lág miðað við áhættu verkefnisins.

Herra forseti. Í lokin á þessum kafla ræðu minnar sem fjallaði um einkaframkvæmd, arðsemi og lögmál markaðarins hef ég komið inn á erindi Stefáns Péturssonar, fjármálastjóra Landsvirkjunar, sem hann kallar Fjármögnun og samkeppni íslensks orkuiðnaðar. Mig langar til að vitna í orð hans á orkuþingi 2001 þar sem hann segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Nú standa fyrir dyrum breytingar á raforkulögum. Líklegt er að opnað verði fyrir samkeppni í framleiðslu og sölu á raforku en flutningur og dreifing verði einokunarstarfsemi sem hingað til. Það er mjög mikilvægt að metið verði hvaða áhrif fyrirhugaðar breytingar muni hafa á lánskjör Landsvirkjunar og aðgengi fyrirtækisins að lánsfé. Því hefur verið haldið fram að verkefnafjármögnun geti hæglega leyst af hólmi hefðbundna fjármögnun Landsvirkjunar á mannvirkjum sínum. Þetta er ekki á rökum reist. Hið sérstaka eðli vatnsaflsvirkjana, þ.e. langur líftími og hár stofnkostnaður gera það að verkum að verkefnafjármögnun hefur neikvæð áhrif á samkeppnshæfni þeirra.`` --- Þetta segir fjármálastjóri Landsvirkjunar á orkuþingi haustið 2001. Hann heldur áfram, með leyfi forseta: ,,Verkefnafjármögnun er jafnan þannig að krafist er hærri vaxta en á hefðbundnum fyrirtækjalánum auk þess sem lánstími er almennt styttri. Því til viðbótar gera bankar sem lána í verkefnafjármögnun mjög strangar kröfur um ýmis fjármálahlutföll sem erfitt er að mæta þegar um vatnsafl er að ræða. Vegna þessa er mikilvægt með tilliti til samkeppnishæfni Landsvirkjunar á alþjóðlegum markaði að breytingarnar verði ekki til þess að veikja Landsvirkjun fjárhagslega eða tæknilega.

Það eru nokkrar leiðir færar sem geta stuðlað að markaðsvæðingu á orkumarkaði án þess að stefnt sé í hættu frekari uppbyggingu á stóriðju hérlendis. Má í því sambandi nefna skiptingu Landsvirkjunar í framleiðslu og flutning undir einu móðurfélagi sem hefði með höndum fjármögnun fyrir bæði dótturfélögin.``

Ég spyr hæstv. iðnrh.: Er þetta leiðin sem verið er að skoða varðandi Landsvirkjun til að geta réttlætt það eða fóðrað að stóriðjuframkvæmdum sé ekki lokið samkvæmt nýju raforkulögunum. Í öllu falli er alveg ljóst að einkaframkvæmdin sem stefnt var í 1997 er að baki og aðrar áætlanir eru núna uppi á borðinu og við þurfum að fá að vita, herra forseti, hvenær breyttust áætlanirnar og hvers vegna?

Herra forseti. Eitt af því sem haldið hefur verið fram í umræðunni er það að allir Austfirðingar, eða Austfirðingar sem samheiti yfir alla þá sem búa á Austfjörðum, séu samþykkir eða hlynntir þessum áformum. Þetta er ekki rétt, herra forseti. Því til staðfestingar má draga fram í dagsljósið auglýsingu sem birtist í fjölmiðlum fyrir um það bil tveimur vikum. Heilsíðuauglýsing birtist þar sem fjöldinn allur af Austfirðingum skrifaði undir kröfu um að hætt verði við áform um að flytja Jökulsá á Dal yfir í Lagarfljót. Austfirðingarnir sem skrifa undir þetta skjal vitna í vatnalög frá 1923, en í þeim stendur, með leyfi forseta:

,,Vötn öll skulu renna sem að fornu hafa runnið.``

Lagaákvæði þetta er í fullu gildi í dag og það kann vel að vera að einhverjum hæstv. ráðherrum finnist það hallærislegt eða gamaldags, en herra forseti, ég lýsi hér með yfir dyggum stuðningi mínum og Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs við þetta ákvæði því verið er að fjalla um lífæðar landsins, ákveðið lífkerfi, þegar fjallað er um vatnafar og vatnasvið í landinu. Ljóst er að eitt af þeim atriðum sem ollu vísindamönnum mestu hugarangri þegar verið var að fjalla um möguleg umhverfisáhrif virkjunarinnar voru áhrifin af því að breyta rennsli vatnanna á þennan hátt. Hvað mundi gerast með Lagarfljót ef Jökulsá á Dal yrði veitt með þessum hætti yfir í fljótið? Hvernig mundi lífríkið við strendur Lagarfljóts breytast? Hvernig mundi liturinn á Lagarfljóti breytast? Hvernig mundi framburðurinn breytast við Héraðsflóa? Hvaða áhrif mundi þetta hafa á sandana upp af því svæði og hvaða áhrif mundi þetta hafa á lífríki Héraðsflóa? Menn komust ekki að neinni einni niðurstöðu í þeim málum en fyrir liggja skýrslur sem menn eru að rýna í enn þann dag í dag og mikill fróðleikur hefur verið settur á blað í þeim efnum, en sannleikurinn er sá að fjöldinn allur af Austfirðingum er uggandi vegna þessara áforma. Þeir koma sjónarmiðum sínum á framfæri m.a. á þennan hátt að undirrita skjal þar sem lagst er gegn því að Jökulsá á Dal verði veitt í Lagarfljót.

Þó ekki væri nema bara vegna þessa fólks, þá er eðlilegt að menn átti sig á því og hafi það í huga þegar fjallað er um þetta mál að það eru menn á Austfjörðum sem eru óttaslegnir vegna slíkra framkvæmda. Og þegar maður horfir, herra forseti, á ljósmyndir þær sem teknar hafa verið á þessu svæði, af þeirri þykku og miklu gróðurþekju sem færi undir Hálslón og veltir fyrir sér þeim áhrifum sem mögulega færu af stað, þeim óafturkræfu áhrifum sem rof og fok mundi valda á Vestur-Öræfum, þá fölna þær ljósmyndir fljótt því ef auðnasvæði Brúaröræfa mundu endurtaka sig á hinum gróskumiklu Vestur-Öræfum, mundu kannski ná alla leið niður í byggð, þá held ég að ekki væri mjög gaman að búa við Lagarfljót. Enn vita menn ekkert hvaða áhrif gífurlegir varnargarðar og sandgryfjur Landsvirkjunar koma til með að hafa. Við vitum það eitt að á þær fyrirætlanir hefur verið varpað ljósi og menn eru algerlega á öndverðum meiði um möguleg áhrif þeirra verkfræðilegu aðgerða. En að mínu mati er alveg ljóst að aðgerðir af því tagi eru svo gífurlegar að þær einar og sér út af fyrir sig hefðu í sjálfu sér átt að lúta mati á umhverfisáhrifum. Þegar allt þetta mál er skoðað í heild sinni þá er skelfilegt til þess að vita, herra forseti, að við skyldum ekki hafa getað borið gæfu til þess að meta slíka framkvæmd alla sem eina heild því að hér er um landshlutaáætlun í sjálfu sér að ræða út frá sjónarmiðum skipulags. Við erum að tala um framkvæmd sem teygir sig milli landsfjórðunga frá fjöru og yfir 600 m hæð inn að jökli. Við erum að tala um vegalagnir, vegagerð, línulagnir, við erum að tala um jarðvarmavirkjanir, við erum að tala um gífurlega vatnsaflsvirkjun og gífurlega vatnaflutninga, við erum að tala um að friðuðu landi verði sökkt og áhrifin sem framkvæmd af slíkri stærðargráðu hefur á heilan landsfjórðung og jafnvel tvo landfjórðunga eru þess eðlis að auðvitað hefði átt að meta þetta allt sem eina heild. En eins og ég segi, herra forseti, við bárum ekki gæfu til að svo yrði og það er mjög miður. Ég treysti því að lagaumhverfi komi til með að breytast á næstu árum með þeim hætti að hugmynd af þessu tagi yrði aldrei metin á þann hátt sem hún hefur verið metin hér og nú að einhverjum tveimur árum liðnum.

[12:15]

Með væntanlegri lögfestingu umhverfismats skipulagsáætlana teldi ég ólíklegt að framkvæmd af þessu tagi gæti farið í gegnum matsferli ámóta því sem þessi framkvæmd hefur farið í gegnum. Setjum svo, herra forseti, að eftir tvö ár, jafnvel skemmri tíma verði komið nýtt lagaumhverfi hvað þetta varðar. Þá kann að fara svo að við sitjum uppi með heimild til hæstv. iðnrh. um að leyfa Kárahnjúkavirkjun á grundvelli matsferlis sem stæðist ekki þau lög sem kæmu til með að gilda ef út í framkvæmdina væri farið.

Værum við þá ekki aftur, herra forseti, komin í nákvæmlega sömu stöðu og þegar við slógumst blóðugum slagsmálum yfir Fljótsdalsvirkjun? Fljótsdalsvirkjun átti að þröngva í gegnum Alþingi með valdi stjórnvalda undir því yfirskini að hún hafi verið heimiluð tíu árum fyrr, þá án umhverfismats. Jafnvel þó að lagaumhverfið væri breytt átti að heimila virkjunina. Því miður var ekki nokkru tauti við stjórnvöld komandi.

Hvað kemur til með að bíða okkar, herra forseti, í þessum efnum? Komum við til með að þurfa að standa í slíkri rimmu við stjórnvöld aftur? Mér sýnast vinnubrögðin sem hér eru viðhöfð bjóða því heim. Ég vara við því. Þess vegna er eðlilegt að við segjum: Hafi stjórnvöld hug á því að koma framkvæmd af þessari stærðargráðu í gegn og gera að veruleika eigum við þá ekki að láta þá framkvæmd lúta þeim lögum sem gilda í landinu þegar af framkvæmdinni getur orðið? Ég segi jú. Þess vegna segi ég, herra forseti: Óðagotið á málinu er fullkomlega óraunsætt. Við eigum auðvitað að bíða með þetta mál þangað til við vitum hvort af þessum framkvæmdum verður. Það að heimila hæstv. iðnrh. með óútfylltum tékka að fara út í framkvæmd af þessu tagi bíður bara hættunni heim. Við erum búin að fara í gegnum slagsmálin einu sinni varðandi Fljótsdalsvirkjun og við viljum ekki fara í gegnum þau aftur. Ég veit að hv. þingmenn vilja það ekki, þjóðin vill það ekki. Þjóðin á skilið vinnubrögð af öðru tagi en hér eru viðhöfð.

Herra forseti. Í ljósi alls þess sem gerst hefur síðustu daga í þessum málum ítreka ég þær óskir mínar að forsn. fjalli um þetta mál á einlægan og hreinskiptinn hátt út frá þeim rökum sem hafa verið færð fram í þessari umræðu. Óðagotið er óverjandi. Tékkinn er óútfylltur. Hann gerir í sjálfu sér ekki einu sinni ráð fyrir því að farið sé eftir þeim skilyrðum sem hæstv. umhvrh. setti í úrskurð sinn. Hér er bara allt opið, galopin heimild til að fara út í framkvæmd sem mundi valda slíkum spjöllum að annað eins hefur ekki sést í Íslandssögunni. Þetta gerist rétt áður en ný raforkulög og lög um mat á umhverfisáhrifum skipulagsáætlana líta dagsins ljós. Þetta gerist líka rétt áður en samræmd stjórn á nýtingu náttúruauðlinda og afgjaldi fyrir þær lítur dagsins ljós. Öll eru þessi mál með slíkum endemum, herra forseti, að það verður ekki við það unað.

Eitt enn vil ég tiltaka vegna þess að í dag, 3. apríl, verður fundur hjá samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins. Ég var stödd á fundi hjá samvinnunefndinni 21. febrúar sl. þar sem lögð var fram tillaga Landsvirkjunar að breytingum á svæðisskipulaginu.

Herra forseti. Ég átti orðastað við hæstv. iðnrh. varðandi málefni svæðisskipulagsins þegar þetta mál var til 1. umr. Ég vakti þá athygli á því að svæðisskipulagið á miðhálendinu, sem er í gildi til 2015, geri ekki ráð fyrir að orkuvinnslusvæðið sé jafnumfangsmikið og þau áform sem nú eru á borðinu gera ráð fyrir. Svæðisskipulagið sem er í gildi gerir ráð fyrir að hér sé um blandaða landnotkun að ræða. Það er vissulega rétt. En það gerir ráð fyrir því að orkuvinnslugeta virkjunar sem þarna yrði reist væri einungis 3.200 gígavattstundir og flatarmál lónsins gæti mest verið 38 ferkm.

Herra forseti. Það er líka tekið fram í gildandi svæðisskipulagi að tilhögun virkjunarinnar yrði að vera háð skilyrðum sem sett yrðu í reglugerð um friðlýsingu Kringilsárrana. Samkvæmt gildandi svæðisskipulagi á miðhálendinu mætti því ekki hreyfa við Kringilsárrana og friðuðu svæði sem þar er til staðar. Áform stjórnvalda eru um 57 ferkm lón og um skerðingu friðlands eins og Kringilsárrana um 25%. Býst ríkisstjórnin við því að Náttúruvernd ríkisins, sem er lögformlegur leyfisveitandi fyrir framkvæmdir á friðlýstum svæðum, gefi þegjandi og hljóðalaust leyfi til framkvæmda á Kringilsárrana? Ég efast um að ríkisstjórnin geti búist við því. Ég geri ráð fyrir því að ríkisstjórnin þekki sjónarmið Náttúruverndar ríkisins það vel að hún sjái að það verði erfitt að sækja það leyfi. Þá spyr ég, herra forseti: Getur verið að þeir erfiðleikar sem ríkisstjórnin horfir fram á varðandi það að þurfa að sækja hluta af þessu leyfi til Náttúruverndar ríkisins, að sá ótti, framkalli núna það sem hæstv. umhvrh. hefur lýst yfir að sé í farvatninu, Umhverfisstofnun, þar sem Náttúruvernd ríkisins verður að því er virðist lögð niður.

Herra forseti. Það skyldi þó ekki vera að málin séu það tengd, þau hangi þannig saman að ríkisstjórnin sjái fram á að Náttúruverndin veiti aldrei leyfi til framkvæmda á hinu friðaða svæði uppi á Kringilsárrana og þá sé skilvirkasta ráðið að leggja Náttúruvernd ríkisins niður? Herra forseti. Ég lýsi því yfir að ég trúi ríkisstjórn Davíðs Oddssonar til þess að beita slíkum bolabrögðum. Ég hvet þá hæstv. ráðherra til að koma hér upp og sverja slíkt af sér ef það er ekki meiningin. Eða hvernig ætla stjórnvöld að knýja Náttúruvernd ríkisins til þess að gefa sér leyfi til framkvæmda á friðuðu landsvæði uppi á Kringilsárrana? Hvernig?

Herra forseti. Ég get auðvitað haldið lengi áfram. En af tillitssemi við samþingsmenn mína ætla ég að fara að draga niður að punkti. Það er aðeins tvennt sem mig langar til að nefna í lokin, nýlegar greinar sem ég hef rekist á sem ættu að vera hvatning til stjórnvalda um að sveigja af vegi stóriðjustefnunnar sem ég tel vera hina mestu feigðarbraut. Þessar greinar sem ég hvet stjórnvöld til að kynna sér eru annars vegar grein sem birtist í Tímariti um arkitektúr, verktækni og skipulag, AVF og var gefið út í lok síðasta árs, tölublað 3 og 4 2001. Þar er grein eftir Júlíus Sólnes, prófessor í umhverfis- og byggingarverkfræði. Herra forseti, hann er fyrrv. hæstv. umhvrh., fyrsti umhvrh. sem Íslendingar áttu. Júlíus Sólnes skrifar undir titlinum ,,Er Kárahnjúkavirkjun skynsamleg framkvæmd?`` Herra forseti. Í sem stystu máli kemst Júlíus Sólnes, fyrrv. hæstv. umhvrh., að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki. Niðurlagsorð Júlíusar í greininni eru eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Ef menn vilja í raun styrkja byggð á Austfjörðum verður það ekki gert með stóriðjuverum sem hafa takmörkuð áhrif. Aukin menntun, bættar samgöngur og hugsanlegur atvinnuþróunarsjóður til styrktar nýsköpun í atvinnulífinu muni gagnast miklu betur heldur en stóriðjudraumar síðustu aldar. Ef Landsvirkjun er ætlað að vera byggðaþróunarstofnun, gæti fyrirtækið alveg eins útvegað fjármagn í slíkan atvinnuþróunarsjóð í stað þess að stórauka viðskiptahallann á næstu árum með óarðbærum framkvæmdum eins og Kárahnjúkavirkjun líklegast er. Hvernig væri til dæmis að koma upp háskóladeildum á Egilsstöðum í samvinnu við Háskóla Íslands? Velmenntað, ungt fólk er miklu líklegra til að koma með hugmyndir til að skapa ný tækifæri fyrir austan heldur en afdankaðir stjórnmálamenn.``

Já, herra forseti. Það er svo komið að fyrrv. hæstv. umhvrh. Júlíus Sólnes kallar þá stjórnmálamenn sem nú ráða ríkjum á Íslandi afdankaða. Ég tek undir þau orð. Júlíus lýkur greininni með þessum orðum, með leyfi forseta:

,,Það væri mikil skammsýni að ráðast í virkjun jökulsárinnar við Kárahnjúka með þeim gífurlegu og augljósu umhverfisspjöllum sem af hlytust, í trássi við vilja nær helmings þjóðarinnar. Afkomendur okkar mundu kunna okkur litlar þakkir fyrir. Skipulagsstofnun ríkisins hefur þegar lýst yfir að umhverfisáhrif virkjunarinnar séu of mikil til að hún sé ásættanleg. Látum það verða lokaniðurstöðuna.``

Herra forseti. Ég tek af heilum hug undir þessi orð. Látum úrskurð Skipulagsstofnunar gilda. Förum ekki í þessa feigðarför. Við getum enn snúið við. Þeim orðum mínum til staðfestingar og því sem ég hef áður sagt í þessari umræðu langar mig að enda á að vitna til skálds og í þetta sinn ekki skálds sem gengið er heldur skálds sem lifir góðu lífi meðal vor, hefur hugsjónir og hefur sýnt fram á það að hann getur lifað þær hugsjónir og það af miklu afli. Þetta er Ólafur Jóhann Ólafsson sem ég er að tala um. En í tímaritinu Ský birtist fyrir skemmstu viðtal við Ólaf Jóhann undir titlinum Tveggja heima maður. Í þessu viðtali segir Ólafur Jóhann, þegar fjallað er um hátækniútflutning í heiminum, að Íslendingar séu mjög aftarlega á merinni. Svo ég vitni í hann beint, með leyfi forseta, þá segir hann:

,,Ástæðan fyrir því er sú að við höfum ekki hlúð að nýsköpun. Það vantar sjóði sem sinna fjárfestingum í nýjabrumi. Við fjárfestum eins og allir í internetsdellunni, og það gerðist á versta tíma þegar hlutabréfamarkaðurinn var að kvikna heima. Menn blésu í tyggjókúluna og héldu að hún mundi stækka endalaust en svo sprakk hún og lagðist framan í þá. Hins vegar hefur lítið verið farið inn í aðra ræktunarstarfsemi. Stóriðjan á að færa meiri peninga inn í þjóðarbúið og bjarga byggðinni fyrir austan. Ég er ekki viss um að það gangi eftir. Koma til dæmis þau störf í byggðarlagið sem duga til að halda þar ungu fólki? Spyr sá sem ekki veit ...``

Örlitlu síðar segir skáldið, með leyfi forseta:

,,Auðvitað þurfum við Íslendingar að skoða hver eigi að vera næstu skref. Verðum við ekki að nýta orkuna? Hún er auðlegð rétt eins og fiskurinn. Snýst málið um virkjanir og álver, sem ófrávíkjanlegt viðhengi virkjana, eða eigum við að virkja til einhvers annars? Þá er aftur spurning í hvað við eigum að setja rafmagnið, erum við ekki kannski með nægilega mörg egg í ál-körfunni.``

(Forseti (GuðjG): Gert er ráð fyrir að gera hlé á þessum fundi kl. 12.30 þannig að forseti biður hv. þm. að fresta flutningi ræðu sinnar fram yfir hlé.)

Ég geri það, herra forseti.