Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 14:17:07 (6816)

2002-04-03 14:17:07# 127. lþ. 106.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[14:17]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér fóru fram athyglisverð orðaskipti í upphafi þessarar andsvarasyrpu á milli hv. þm. tveggja stjórnarandstöðuflokka. Ég fer ekki frekar út í það en ég tek undir það með hv. ræðumanni, sem ég er hér í andsvari við, að meðferð málfrelsis er stórt mál. Ég tel að ýmsum ofbjóði hvernig farið er með það frelsi hér á hv. Alþingi.

En hvað varðar spurningu hv. þm. get ég tekið af allan vafa um það enn einu sinni að sú orka sem verður til við virkjun við Kárahnjúka verður nýtt í atvinnuuppbyggingu á Austurlandi. Þar sem þarna er um 750 megavött að ræða er augljóst að það verður aldrei farið út í þá virkjun til að hleypa þeirri orku inn á hið almenna kerfi. Það er ákveðinn tilgangur á bak við framkvæmdina, sem sagt að nýta orkuna til orkufreks iðnaðar í Reyðarfirði.