Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 14:22:59 (6821)

2002-04-03 14:22:59# 127. lþ. 106.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[14:22]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það væri auðvitað hægt að halda áfram eitthvað með þessa röksemd um að ekki sé nægur mannfjöldi fyrir austan til að taka við svo stórum vinnustað. Þá mundum við væntanlega, ef við værum þeirrar skoðunar en teldum samt sem áður nauðsynlegt fyrir efnahagslífið að fá slíkan vinnustað, vera baráttumenn fyrir því að þessi vinnustaður yrði reistur hér á suðvesturhorninu þar sem við höfum þó nóg af fólki.

Ég er því algjörlega andsnúinn af þeirri einföldu ástæðu að ég held að ekki sé meira á það leggjandi, að ýta undir flutning fólks af landsbyggðinni. Þess vegna tel ég af öllum ástæðum mun vænlegra að byggja slíkt álver austur á landi. Það gæti þar af leiðandi ýtt undir það að fólk flytti frekar af suðvesturhorninu og austur.

Herra forseti. Það er margt annað sem einnig vekur athygli. Ég verð að segja, fyrst að hér eru nokkrar sekúndur eftir, að ein sérkennilegasta röksemdin gegn álverinu er það að álverið gæti vegna aukinnar samkeppni um vinnuafl orðið til þess að laun yrðu hærri á Austurlandi en þau eru í dag. Þá þykir mér fokið í flest skjól þegar slík rök eru á borð borin.