Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 17:52:41 (6831)

2002-04-03 17:52:41# 127. lþ. 107.1 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 127. lþ.

[17:52]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. fjmrh. gat um hefur tekist samstaða um það meðal þingflokkanna að afgreiða þetta mál með nokkuð skjótum hætti. Við höfum nú þegar veitt afbrigði til þess að hægt sé að taka málið á dagskrá. Hæstv. fjmrh. sagði í framsögu sinni áðan að eðli málsins væri slíkt að það krefðist skjótrar afgreiðslu.

Út af fyrir sig munum við í Samfylkingunni ekki reyna að tefja þetta mál. Við getum fyrir okkar leyti fallist á að það verði afgreitt með skjótum hætti en eigi að síður vil ég hafa allan fyrirvara á því hvort takist að afgreiða þetta í kvöld eins og farið hefur verið fram á. Ástæðan er sú, herra forseti, að nauðsynlegt er að ræða við tiltekna fulltrúa verkalýðshreyfingar og reyndar ákveðinna samtaka til að kanna þetta frv. og þær afleiðingar sem það kann að hafa í för með sér.

Ég vil þessa vegna spyrja hæstv. fjmrh. hvaða nauður reki til þess að afgreiða þurfi frv. svo hratt? Er það vegna þess að olíufélögin eru aðilar að samkomulagi og þeirra hlutur hefur þegar komið til framkvæmda? Það væri þakkarvert ef hæstv. ráðherra vildi upplýsa það á eftir.

Ég hjó eftir því þegar ég las frv. og greinargerðina með því að einungis er gert ráð fyrir því að ákvæði frv. gildi til júníloka þessa árs. Það kom mér nokkuð spánskt fyrir sjónir. Ég skildi það hins vegar af ræðu hæstv. ráðherra að vanalega hækkar olíu- og bensínverð á heimsmarkaði á þessum tíma árs en lækkar aftur sökum eðlilegra árstíðasveiflna þegar líður á sumarið. Ég skildi það svo, herra forseti, að tilgangur frv. væri að taka af þann kúf sem ella hefði komið hér og þar með koma í veg fyrir lækkunina sem ella hefði orðið síðar á sumrinu.

Við vitum hins vegar, herra forseti, að það eru óvissir tímar og viðsjár á alþjóðavettvangi. Einmitt í þeim heimshluta þar sem olíuframleiðsla er hvað mikilvægust horfir nú til styrjaldar. Þetta leiðir væntanlega til þess að sú spenna sem hefur magnast á alþjóðavettvangi er líkleg til að leiða af sér verðhækkanir á olíu.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra: Hvað ef vindur fram undir lok júní og staðan á alþjóðavettvangi er með þeim hætti að bensínverð á heimsmarkaði er að hækka? Hvað ætlar hæstv. ráðherra þá að gera? Samkvæmt frv. hefur hann ekki heimild til að láta lækkunina á vörugjaldinu lifa áfram. Er þá hugsunin sú að grípa til bráðabirgðalaga? Herra forseti. Sú hugsun er mér nokkuð andstæð og ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann ekki að betra væri að veita hæstv. ríkisstjórn heimild til að hafa þessa lækkun í gildi lengur fram á sumarið? Ég held að það sé eitt af því sem við hljótum að velta fyrir okkur í efh.- og viðskn. þegar við fjöllum um málið á eftir.

Mig langar jafnframt að nota tækifærið, herra forseti, og inna hæstv. ráðherra eftir því hvaða skoðun hann hafi á því að það takist að halda verðlagsþróuninni með þeim hætti að ekki þurfi að koma til uppsagnar launaliða kjarasamninga. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra og forustu verkalýðshreyfingarinnar um að það er nauðsynlegt að ríkisstjórnin, framkvæmdarvaldið, láti ekki sinn hlut eftir liggja í þeirri baráttu. Það er ákaflega mikilvægt fyrir fjölskyldur í landinu, fyrir þá sem eru að kaupa sér húsnæði, fyrir fyrirtækin í landinu, að verðbólga verði sem minnst. Það skiptir máli varðandi almenna samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs gagnvart útlöndum. Þess vegna skiptir miklu máli að vel takist til.

Ég vil líka rifja upp, herra forseti, að það er ekki langt síðan að stjórnarandstaðan hóf mikla baráttu í sölum Alþingis til að knýja ríkisstjórnina með atbeina verkalýðshreyfingarinnar til þess að taka aftur tilteknar hækkanir á opinberum gjöldum. Ríkisstjórnin varð við þeim tilmælum og við fögnuðum því, a.m.k. fulltrúar Samfylkingarinnar. Ég hlýt hins vegar við þessar aðstæður að inna hæstv. ráðherra eftir því hvað verður um þá hækkun sem mér skilst að muni koma til framkvæmda síðar á þessu ári.

Ég vil líka geta þess, herra forseti, og það hefur komið fram í fjölmiðlum í dag að bankastofnanir og sérfræðingar á vegum þeirra eru þeirrar skoðunar að með handafli sé verið að halda niðri þróun verðlags, og þegar kemur fram í næsta mánuð muni verðbólgan aftur skjótast upp, með öðrum orðum að við búum við eins konar gerviástand í dag. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvaða skoðun hann hafi á þessu.

Í lokin, herra forseti, vil ég segja að við munum að sjálfsögðu greiða fyrir því að þetta frv. hljóti skjóta afgreiðslu en við áskiljum okkur fullan rétt til að fara gaumgæfilega yfir það og það kann að taka e.t.v. svolítið lengri tíma en hæstv. ráðherra vill. Ég vil biðja hann að sýna okkur biðlund í þeim efnum. Það þarf að vanda til lagasetningar af þessu tagi.