Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 18:08:19 (6834)

2002-04-03 18:08:19# 127. lþ. 107.1 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 127. lþ.

[18:08]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er full ástæða til þess að taka jákvætt undir það frv. sem hér er borið fram og greiða fyrir því að það geti orðið að lögum. En eins og hefur komið fram við þessa umræðu vakna eðli málsins samkvæmt ýmsar spurningar sem þarf að fá svör við. Boðað hefur verið til fundar í hv. efh.- og viðskn. núna klukkan hálfátta í kvöld og það verður að sjá til hvort hægt verður að afgreiða málið á þeim stutta tíma sem efh.- og viðskn. hefur nú í kvöld til þess að skoða það. Nokkra aðila þarf að kalla til til þess að ræða þetta mál, m.a. fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar, olíufélaganna og FÍB. Síðan, eins og fram hefur komið hér, þarf hv. efh.- og viðskn. að fara yfir af stöðuna að því er varðar þetta margfræga rauða strik og hvort líkur séu til þess að það náist, en frv. sem við ræðum er einmitt viðleitni í því að reyna að ná því markmiði.

Í dag dró einmitt í efa t.d. forstöðumaður greiningardeildar Búnaðarbankans, ef ég man rétt, að rauða strikið næðist og ég tel nauðsynlegt af þessu tilefni að fara lítillega yfir þá stöðu.

Ég ætla ekki að tefja þetta mál nú við 1. umr. En ég tel ástæðu til að rifja upp að fyrir jólin fjölluðum við um frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem áttu að skila ríkissjóði, að mig minnir, einum milljarði í tekjur. Þar voru ýmsar gjaldtökur sem ríkisstjórnin ætlaði að beita sér fyrir til þess að ná þessum milljarði. Þar var m.a. 10% hækkun á bifreiðagjöldum sem áttu að skila ríkissjóði á þessu ári 260 millj. kr., en það er nú ekki mikið af því sem er verið að skila til baka með þessu frv., þ.e. einungis um 80 millj. kr. af þeim 260 milljónum sem voru teknar af bifreiðaeigendum með hækkun á bifreiðagjaldi um 10% við afgreiðslu bandormsins fyrir jólin.

Það hefur verið veruleg hækkun á tekjum ríkissjóðs af bifreiðaeigendum á undanförnum árum. Hægt er að rifja það upp að á árinu 1995 voru tekjur af bifreiðaeigendum um 18,6 milljarðar kr. en á árinu 2000 voru þær um 30 milljarðar. Man ég nú ekki hvað þær voru á árinu 2001. Enda eru tekjur af bifreiðaeigendum hér langtum hærri sem hlutfall af landsframleiðslu en í öðrum Evrópuríkjum.

Herra forseti. Aðeins aftur að vísitölunni. Við skiptumst nokkuð á skoðunum hér fyrir jólin um áhrifin af þeim gjaldtökum sem fyrirhugaðar voru hjá ríkissjóði á þessu ári, m.a. af bifreiðagjöldum og gjöldum í heilbrigðisþjónustunni, áfengisgjaldi og innritunargjöldum. Það væri fróðlegt, herra forseti, að fá uppgefið nú á þessari stundu, einmitt þegar menn eru með augun mjög á þessu rauða striki, hvað standi út af af þessum gjaldtökum sem fyrirhugaðar voru um áramótin og við ræddum hér í tengslum við bandorminn, frv. til laga í ríkisfjármálum. Ríkisstjórnin féll frá gjaldtökum, ef ég man rétt, í heilbrigðiskerfinu núna í upphafi árs einmitt með tilliti til rauðu strikanna.

Ég spyr þá hvort ekki sé hægt að treysta því, herra forseti, spyr hæstv. ráðherra hvort það haldi út þetta ár a.m.k., þ.e. að ekki verði farið í slíka gjaldtöku aftur síðar á árinu. Auðvitað er maður svolítið hræddur um að verið sé með einum eða öðrum hætti að spila á vísitöluna, og þetta frv. gefur kannski tilefni til þess að halda rauðu strikunum innan markanna núna í maímánuði.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvað standi út af þeim gjaldtökum sem voru áformaðar fyrir jólin. Ég nefni áfengisgjaldið. Ég man ekki hvort ríkisstjórnin kom með einhverja yfirlýsingu um að hætta við það. Síðan standa út af innritunargjöldin, ef ég man rétt. Ég held því að það væri ágætt vegna umræðu sem fer fram núna í efh.- og viðskn. á eftir að fá það gefið upp hjá hæstv. ráðherra hvaða gjaldtökuhækkanir sem við ræddum hér fyrir jólin eigi eftir að koma fram.

Síðan um ákvæði í þessu frv. um að þetta eigi aðeins að gilda til loka júní 2002 á þeirri forsendu að þá er reiknað með lækkun á heimsmarkaðsverði á bensíni. Hæstv. ráðherra nefndi að nú væru óvissutímar og það væri mikilli óvissu háð hvort þær spár gætu gengið eftir. Þá veltir maður fyrir sér hvað gerist í lok júní 2002. Ef olíufélögin fylgja núna eftir og hækka ekki bensín, munu þau þá ekki hækka bensínið sem samsvarar þeirri hækkun sem hefði átt að koma fram núna og hefði átt að koma fram síðar á árinu? Þá værum við að upplifa lækkun á bensíni sem stendur einungis fram til loka júní. Olíufélögin mundu svo þegar kemur að lokum júní og heimsmarkaðsverð hefur ekki lækkað, bæta sér upp þá lækkun sem þeir núna þessa dagana beita sér fyrir með þeim orðum að þeir séu að leggja sitt af mörkum til þess að ná fram þeim markmiðum sem menn setja sér um rauðu strikin.

[18:15]

Í lokin, herra forseti, vil ég spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann gæti stutt heimildarákvæði eða bráðabirgðaákvæði við þetta frv. sem gæfi ríkisstjórninni heimild til að framlengja lækkunina sem við ræðum núna á vörugjaldinu, í því tilviki að ekki gangi eftir að heimsmarkaðsverð á bensíni lækki? Ég held að afar mikilvægt sé að fá fram hvort ráðherrann væri tilbúinn til að beita sér fyrir því að ná samstöðu um slíkt heimildarákvæði og tel að slíkt mundi verulega greiða fyrir störfum í efh.- og viðskn. sem fram fara á eftir. Hér gæti verið um að ræða ákvæði til bráðabirgða sem veittu ríkisstjórninni þessa heimild, að gefinni þeirri forsendu að heimsmarkaðsverð á bensíni lækki ekki eins og menn gera ráð fyrir þegar þeir mæla fyrir þessu frv.

Helst af öllu hefði þessi lækkun að mínu viti átt að vera varanleg en ekki tímabundin. Við fulltrúar Samfylkingarinnar munum skoða það í efh.- og viðskn. en erum tilbúin að skoða það ef ráðherrann og meiri hluti efh.- og viðskn. er tilbúinn að skoða það með okkur, að slíkt ákvæði til bráðabirgða kæmi inn í þetta frv.

Ég hef beint spurningum, herra forseti, til hæstv. ráðherra. Þær lúta að ráðstöfunum í ríkisfjármálum frá því fyrir jólin, því sem stendur út af borðinu hvað það varðar og því sem eftir á að koma fram í því efni. Eins spyr ég um ákvæði til bráðabirgða sem ég tel að efh.- og viðskn. ætti að skoða til að tryggja að þessi bensínlækkun lifi lengur en fram til loka júní fari svo að heimsmarkaðsverð á bensíni lækki ekki.