Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 22:26:46 (6850)

2002-04-03 22:26:46# 127. lþ. 108.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 127. lþ.

[22:26]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst dálítið undarlegt að hlusta á þessa röksemdafærslu. Hluti af röksemdafærslunni fyrir því að fara í þessi göng hefur verið að þessar framkvæmdir væru að fara af stað og ganganna væri þörf til að tengja saman byggðirnar svo að þær þyldu álagið sem skapaðist vegna þessara miklu framkvæmda. Þegar núna er fyrirsjáanlegt að eitthvað dragist að af þessum framkvæmdum verði eru röksemdirnar orðnar þær að fara þurfi í þessi jarðgöng þeirra sjálfra vegna. Allt hefur þetta snúist dálítið við.

Ég veit vel að ýmsir hafa sagt að hér sé á ferðinni byggðastyrking, og ég get svo sem alveg skrifað upp á að um byggðastyrkingu sé að ræða þar sem svona fyrirtæki er sett niður. Ég er samt ekki tilbúinn til að líta á það sem rök í málinu. Eins og ég sagði áðan, stórframkvæmdir eins og þær sem við erum að tala um hér eru ekki settar niður með það í huga að verið sé að leysa einhver byggðavandamál. (Gripið fram í: ... álver í Reyðarfirði ...) Ég vil endurtaka það: Þær eru settar niður vegna þess að það er hagkvæmt að virkja á viðkomandi svæði og að öllu leyti gott að koma upp þeirri starfsemi sem menn ætla sér í.

Ég ætla svo ekki að orðlengja meira um þetta en ég tel að menn hafi kannski verið svolítið brattir í því að lofa mönnum of miklu í þessari umræðu.