2002-04-04 00:06:14# 127. lþ. 108.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 127. lþ.

[24:06]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson beindi nokkrum spurningum eða öllu heldur ásökunum til mín og í garð Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Það eru ekki tök á að svara þeim öllum í stuttu andsvari þannig að ég óska eftir að verða settur á mælendaskrá með seinni ræðu mína við 2. umr. málsins.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. að við teljum fyrirhugaðar framkvæmdir við Kárahnjúka og 420 þúsund tonna álver í Reyðarfirði ekki réttlætanlegar framkvæmdir á umhverfisforsendum. Þær munu valda óafturkræfum náttúruspjöllum sem við getum ekki samþykkt. Hins vegar hafa þessar ráðstafanir verið réttlættar í ljósi meints efnahagslegs ávinnings. Þennan meinta efnahagslega ávinning og áhrif sem þessar ráðstafanir mundu hafa á íslenskt efnahagslíf viljum við ræða.

Ég fór mjög rækilega yfir það í ræðu minni í dag hverja ég tel áhættuna fyrir innlenda fjárfesta vera, þar á meðal lífeyrissjóðina. Ég fór rækilega yfir þá áhættu sem ég tel í þessu fólgna fyrir eigendur Landsvirkjunar, ríkið, Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ, þar með alla íslensku þjóðina sem stendur þarna að baki. Ég fór rækilega í saumana á efnahagslegum áhrifum þessara framkvæmda. Ég fór efnislega yfir þetta og ég sakna þess svolítið að hv. þm., sem lýsti sjálfum sér sem raunsæisþingmanni, sýndi okkur fram á í hverju raunsæi hans er fólgið. Ég saknaði þess að hann færi nánar í efnisleg rök sem fram hafa komið í þessu máli. Það eru þau og sú umræða sem við höfum auglýst eftir.