2002-04-04 00:15:23# 127. lþ. 108.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, GE
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 127. lþ.

[24:15]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ræða mín verður einsleit og afdráttarlaus en stutt.

Hlutverk þingmanns er að stuðla að því á allan mögulegan máta að eðlileg uppbygging þjóðfélagsins haldi áfram stöðugt og í samræmi við þarfir eins og þær eru á hverjum tíma. Hlutverk þingmanns er að líta til þess að farið sé að lögum og þau sett eftir því sem við á í hverju tilviki fyrir sig. Atvinnulífið, framleiðsla, viðskipti, menntun og grunnþjónusta eru lykill þeirrar undirstöðu sem öll okkar velferð byggist á. Síbreytilegu heimsumhverfi verða menn að mæta á heimaslóð með sífelldri aðlögun að því sem er að gerast. Ef tækniframfarir verða þá tileinkum við okkur þær. Annars drögumst við aftur úr. Ef ástand breytist á einhvern hátt í heiminum verðum við samstundis að bregðast við. Við verðum að taka tillit til annarra og leggja okkar af mörkum til að veröldin sem við lifum í verði sem best.

Ísland er lítið þjóðríki sem getur þó haft áhrif á heimsmyndina eins og dæmin sanna. Tillit er tekið til okkar í alþjóðasamskiptum. Rödd Íslands heyrist alls staðar og sjónarmið okkar fá góðar viðtökur í alþjóðasamfélaginu hvar sem við komumst að til að tjá okkur. Íslendingar veljast í hlutverk á þeim vettvangi þar sem við eigum seturétt vegna þess að við vitum hvað við viljum.

Herra forseti. Við erum hér og nú að ræða málefni sem eru og verða stöðugt á dagskrá á næstu árum. Það er ljóst í mínum huga að við þurfum að bæta við virkjunum. Það liggur fyrir að við þurfum að nýta náttúruauðlindir okkar hvort sem það verður til virkjunar eða annars konar atvinnunýtingar, einnig þar sem náttúruvernd og þessir þættir fara saman. Við höfum á löngum tíma byggt afkomu okkar að mestu á því sem auðlindin í hafinu hefur gefið okkur. Sú auðlind er takmörkuð. Við höfum nýtt okkur virkjun gufu og vatns til að framleiða orku til heimilisnota fyrir alla landsmenn og einnig til iðnaðar og stóriðju.

Við eigum að gera okkur grein fyrir því að auðlindir til orkuframleiðslu eru ekki takmarkalausar. En við eigum að nýta okkur þær í okkar þágu eins og best verður á kosið. Við eigum einnig að nýta okkur orkumöguleikana sem felast m.a. í sjávarföllum, m.a. með því að nýta tíma og hæðarmismun á milli landshluta.

Vindorkuna eigum við eftir að skoða. Þar er náttúruafl sem við höfum lítið gert í að rannsaka. Við höfum ekki gert neitt í því að rannsaka endurnýtingu hitaútstreymis frá stóriðju og margt fleira sem hægt er að tína til. Við Íslendingar leggjum okkar af mörkum til að skapa mengunarlitla orku til hagsbóta fyrir alþjóðsamfélagið. Það skiptir máli.

Virðulegur forseti. Ég þekki til stóriðju. Ég hef unnið við stóriðju. Ég hef séð framþróun í vörnum gegn mengun, framþróun í tækni til að spara mannafl, tækniframfarir sem krefjast aukinnar þjálfunar og menntunar og ég þekki einnig áhrif af stóriðju á sveitarfélög á stóru svæði, bæði hérlendis og erlendis.

Stóriðjufyrirtækin á Grundartanga hafa skapað ný viðhorf, aukið menningar- og menntunarkröfur, lagt uppgræðslu- og umhverfissjónarmiðum lið, skapað iðnaði nýja og betri stöðu, allt frá Suðurnesjum til Stykkishólms. Á þessu nefnda svæði hafa fyrirtæki í byggingar-, stál- og rafiðnaði notið þessara framkvæmda og njóta þess síðan að veita þjónustu að lokinni uppbyggingu eins og raun ber vitni. Það má best og gleggst sjá á þeirri uppbyggingu sem hefur orðið í nágrenni þessara verksmiðja, sem ég gat um, á Grundartanga.

Sá sem þekkir í raun áhrif af virkjunarframkvæmdum og stóriðjuframkvæmdum á sama hátt og ég geri hlýtur að hvetja til áframhalds á sömu braut þó svo að ástæða sé til á öllum tímum að gaumgæfa svo vel sem kostur er hverja einstaka framkvæmd.

Virðulegur forseti. Ég átti því láni að fagna að taka þátt í uppbyggingu Búrfellsvirkjunar og man eftir efasemdaröddunum sem lutu að byggingu álversins í Straumsvík. Hverjum þeim sem skoðar þessi samtengdu fyrirtæki, hlýtur að vera ljóst að menn hafa staðið af skynsemi að þessum framkvæmdum og einnig ef litið er til virkjananna sem tengjast Grundartanga, ál- og málmbræðslufyrirtækjunum sem hafa öll bætt mannlíf á Íslandi.

Af því það var nefnt hér áðan að stóriðjan hefði hafist með uppbyggingu álvers í Straumsvík þá verð ég að leiðrétta það. Raunveruleg stóriðja á Íslandi hófst með byggingu Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi og Sementsverksmiðjunnar á Akranesi. Það var stóriðja þeirra tíma og var mikið átak að ráðast í þau verkefni. Margir voru á móti þeim, en þessi fyrirtæki hafa sýnt það í gegnum tíðina að vera hin þörfustu.

Öllum hlýtur að vera ljós skoðun mín á þessum málum eftir þau orð sem ég hef látið falla. Ég sé ekki, virðulegur forseti, að á næstu 10--15 árum gefist betri möguleikar til öruggrar uppbyggingar í atvinnumálum en með virkjun og stóriðju. Því hvet ég til að menn haldi ótrauðir áfram, veiti með aðhaldi, skynsemi og gaumgæfni virkjunarleyfi og starfsleyfi og vinni umhverfismat eftir því sem við á í hverju tilviki og að við eflum menningar-, menntunar- og atvinnustig með þessu á skynsamlegan máta.

Virðulegur forseti. Ég tek því fullkomlega undir orð félaga míns, hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar, um möguleg áhrif virkjunar og stóriðju á Austurland og reyndar á allt íslenskt samfélag hvað varðar menntun, atvinnu og menningarstig og óneitanlega hefur umræða um stóriðju vakið landsmenn til vitundar um mengun og umhverfismál þannig að menn eru ólíkt betur meðvitaðir um þessa þætti en áður.

En það er svo að ferill málsins hefur ekki verið sem skyldi og væri að sjálfsögðu ástæða til að gera nokkurt mál úr því. En ég læt gagnrýni þá sem formaður Samfylkingarinnar og þingflokksformaður minn hafa haft í frammi um það nægja. Það var gert hér fyrr í dag.

Vissulega er rétt að þessi mál eru viðkvæm í samningsferli. En skoðun mín er þó sú að það sé skylda að veita þingnefndum þær upplýsingar undanbragðalaust sem fyrir liggja.

Virðulegur forseti. Ég tel mig ekki minni umhverfissinna en hvern annan hér á þingi eða almennt í samfélaginu. Ég er alinn að hluta til upp í sveit. Ég hef stundað sjómennsku og störf í stóriðju. Það er meira en hægt er að segja um marga þá sem hafa á hástemmdan máta tjáð sig um þessi mál. (Gripið fram í.) Á grundvelli lífsreynslu minnar og þekkingar eru þetta mín lokaorð, virðulegur forseti: Ég mæli með þeim áformum um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal sem fyrir liggja í því máli sem hér er til afgreiðslu.