2002-04-04 02:06:10# 127. lþ. 108.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 127. lþ.

[26:06]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekki markmið hjá mér að ganga fram af hæstv. iðnrh. En mér þykir út af fyrir sig vænt um að ég reisti hana upp úr stólnum. Hún fór í andsvör. Hún er þar af leiðandi sannanlega vakandi og viðstödd umræðuna.

Ég á börn og fer stundum með þeim í leikfangabúðir og þekki sæmilega til þess hvernig þeir hlutir ganga fyrir sig. Það endar nú yfirleitt þannig að við borgum fyrir þau leikföng sem farið er með út úr búðinni. Ég veit ekki hvernig það er eða var á heimili hæstv. iðnrh.

Já, það kann vel að vera að einhverjir Austfirðingar telji að við sem höfum haft önnur sjónarmið uppi í þessum álversmálum megum þar af leiðandi ekki að tjá okkur um aðstæður í þeim fjórðungi. En það vill nú svo til að jafnlengi og þessi áform hafa verið uppi hefur a.m.k. sá sem hér stendur varað einmitt nákvæmlega við þessu, þ.e. að þær miklu væntingar sem væri verið að kynda upp í þessu máli væru hættulegar og sú framsetning að þetta væri allsherjarlausn. Það er þess vegna ekkert nýtt að hér sé upp tekið að menn ættu að horfast í augu við það að renni þetta svo út í sandinn skapist hætta á bakslagi. Og það er auðvitað það sem gerist. Við skulum bíða og spyrja að leikslokum hvernig Austfirðingar hugsa sinn gang eftir því sem málin þróast.

Við skulum ekki heldur, herra forseti, venja okkur á að hafa prókúru út frá persónulegum viðhorfum okkar til að tala fyrir hönd allra Austfirðinga. Það er ekki þannig að hæstv. iðnrh., Framsfl. eða ríkisstjórnin hafi umboð til þess að tala fyrir hönd allra Austfirðinga og viti nákvæmlega hvernig þeir hugsa eða fyrir hverju þeir eru að klappa. Það er nefnilega ekki svoleiðis. Við skulum því bara ræða hlutina eins og þeir koma fyrir, herra forseti.

Hæstv. ráðherra verður auðvitað að lesa þingmál sem hér liggja fyrir ef hún ætlar að tjá sig um þau. Það er alveg greinilegt að ráðherra hefur aldrei lesið tillögu okkar um byggðaðgerðir á Austurlandi.