2002-04-04 02:56:23# 127. lþ. 108.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 127. lþ.

[26:56]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Það sem mér líkar ekki í málflutningi hv. þm. er hvernig hann hagræðir sannleikanum. Hann gerir það eins og ég nefndi hér áðan, með því að gefa í skyn að nánast allir efnahagssérfræðingar þjóðarinnar legðust gegn þessari framkvæmd. Það er einfaldlega ekki rétt.

Mér líkaði það heldur ekki hvernig hann talaði um stóriðju sem fábreytileika í atvinnulífi. En hefur síðan og ég er feginn að heyra það að hv. þm. hefur þó dregið í land með það og viðurkennt að mikill fjölbreytileiki fylgir slíkum störfum.

Hv. þm. notaði þá aðferð að gefa í skyn að allir helstu efnahagssérfræðingar legðust gegn þessu. Hann veit betur. Hann gaf í skyn að stóriðju fylgdi ekki fjölbreytileiki í atvinnulífi. Hann veit betur. Hann fullyrti líka að hæstv. utanrrh., eins og hann orðaði það, lægi á hnjánum og óskaði sér 700 þús. tonna álvers á Íslandi. Það veit hv. þm. að er rangt. Hann fer afskaplega frjálslega með sannleikann en kom hér fyrr í dag sem boðberi sannleikans. Það er þetta sem mér líkar illa í málflutningi hv. þm.

Það verður líka að segjast eins og er, af því hv. þm. vék hér að þeim lífeyrissjóði sem hann situr í stjórn fyrir, að ég get ekki kallað það annað en fordóma þegar hv. þm. neitaði sem stjórnarformaður að setjast að borði til að kanna hvort þetta verkefni gæti verið álitlegur fjárfestingarkostur fyrir þann lífeyrissjóð sem hann stýrir, m.a. minn lífeyrissjóð. Hann vildi ekki einu sinni kanna hvort þarna gæti verið um arðvænlega fjárfestingu fyrir lífeyrissjóðinn að ræða. Hvers vegna skyldi það hafa verið? Ég kalla það auðvitað fordóma að vilja ekki kanna málin heldur kveða bara upp dóm. Dómurinn byggir auðvitað á því sem er megininntakið í mörgum og löngum ræðum hv. þm. Hann er einfaldlega á móti þessu. En mér líkar ekki að hann skuli fara svo frjálslega með sannleikann.