2002-04-04 02:58:41# 127. lþ. 108.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 127. lþ.

[26:58]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Mikið er ég feginn því að 3. umr. um þetta mál er eftir þannig að við getum skipst á skoðunum hér þegar að henni kemur, ég og hv. þm. Hjálmar Árnason.

Ég fór rétt með staðreyndir. Ég benti á að allir helstu sérfræðingar þjóðarinnar í efnahagsmálum hefðu vakið athygli á því að þetta væri risastór framkvæmd sem kallaði á mótvægisaðgerðir. Ýmsir höfðu á orði að hún rúmaðist illa innan okkar hagkerfis, smáa hagkerfis, þótt þeir teldu að hægt væri að grípa til mógvægisaðgerða. Þeir lögðust þar af leiðandi ekki gegn framkvæmdinni. Ég vakti athygli á því að þeir skiptust í tvö horn, annars vegar þeir sem heyrðu undir ríkisstjórnina og hinir sem kæmu óháðir að þessu máli. Þetta eru staðreyndir.

Í tengslum við stóriðjufyrirtæki verður að sjálfsögðu til ýmis þjónustustarfsemi, fyrirtæki í tengslum við hana og fjölbreytni í þeim skilningi. Hún er þó háð þessu eina fyrirtæki og vegur þessara smáu þjónustufyrirtækja væri kominn undir því hvernig stóriðjunni vegnaði. Þetta er því ekki traustvekjandi fjölbreytni og ekki í þeim anda sem ég og við höfum talað fyrir.

Nú, um menn á hnjánum. Já, ég hef haft þau orð um Íslendinga sem leita nú til erlendra álrisa um að koma hingað endilega. Ég vitnaði í hæstv. utanrrh. --- það er rétt --- sem sagði annars vegar að þjóðhagslega væri hagkvæmara fyrir okkur að byggja smátt álver en stórt álver og nefndi að hann hefði einhvern tímann minnst á allt að 700 þús. tonna álver. En hann sagði að þjóðhagslega væri hagkvæmara að reisa 120 þús. tonna álver en 240 þús. tonna álver. Ég vitnaði þar í þáttinn Silfur Egils, frá því í aprílmánuði, ef ég man rétt, árið 2000.

Varðandi lífeyrissjóðina þá hef ég aldrei neitað því að málin yrðu könnuð á þeim bænum. Ég hef lagt mig eftir því að kanna þau mál en ég hef hins vegar neitað að gera það með bundið fyrir munninn.