Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 11:52:24 (6919)

2002-04-04 11:52:24# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[11:52]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil undirstrika það sem fram kom í máli mínu í gær að hér er um að ræða einskiptisaðgerð sem ætlað er að jafna út þá sveiflu í olíuverði, bensínverði sérstaklega, sem hefðbundin er á þessum árstíma. Þess vegna er þetta bundið við þá þrjá mánuði sem frv. gerir ráð fyrir. Það eru engar fyrirætlanir eins og ég sagði í gær um bráðabirgðalög til að framlengja þessi ákvæði þegar þau renna úr gildi samkvæmt frv. í lok júní.

Ég held að við verðum líka að gá að því að það er ekki raunhæft að gera því skóna að ríkissjóður geti farið að ábyrgjast verðlagsþróun á alþjóðaolíumarkaði hér innan lands. Það verður auðvitað aldrei þannig. Við komumst ekki hjá því þegar fram í sækir og við eðlilegar aðstæður að laga okkur að þróun mála á heimsmarkaði að því er varðar þessar vörur sem aðrar. Það sem við leggjum hér til er að jafna út sveifluna sem nú er væntanlega í gangi ef marka má það sem gerst hefur á undanförnum árum að því er varðar þróunina á þessum árstíma. En að ætla að gera ríkissjóð varanlega að einhverjum ábyrgðaraðila fyrir slíkum sveiflum er náttúrlega ekki hægt.

Að því er varðar þá brtt. sem hér hefur verið lögð fram vil ég að það komi fram af minni hálfu að ég er ekki samþykkur henni. Ég er andvígur henni. Ég tel hins vegar að hún sé í frambærilegum búningi. Hún stenst stjórnarskrána, allt í góðu lagi með það, en ég tel að þetta sé of langt gengið miðað við þau markmið sem við höfum sett okkur með þessu frv. og þar til viðbótar mundi þetta lauslega áætlað kosta ríkissjóð um það bil 100 millj.