Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 11:54:32 (6920)

2002-04-04 11:54:32# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[11:54]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að draga neina dul á að þessi orð ráðherra í ræðustólnum valda mér vonbrigðum. Ég hafði gert mér nokkrar vonir um að hægt væri að ná samkomulagi um lendingu á gildistöku þessa ákvæðis, að hægt væri að finna leið, annaðhvort þá sem við leggjum til um framlengingu á þessu til 1. nóv. nk. eða heimildarákvæði sem ég tel að standist alveg stjórnarskrána og við fórum yfir í efh.- og viðskn. í gær. Ég viðurkenni að nokkuð hefur dregið úr væntingum mínum eftir svör hæstv. ráðherra.

Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt þvertekur hann líka alveg fyrir að gripið verði til bráðabirgðalaga ef slíkar aðstæður eru uppi að heimsmarkaðsverð á bensíni lækkar ekki. Ég verð að segja, herra forseti, að menn verða að átta sig á að það er líf eftir maímánuðinn þegar menn sjá hvernig rauðu strikunum vindur fram. Það er auðvitað ekki boðlegt ef menn eru með eitthvað í pípunum, í verðlaginu almennt eða með áhrifunum af þessari hækkun á heimsmarkaðsverði á bensíni, að hún komi öll fram af fullum þunga í júní- eða júlímánuði þegar hættan af þessum rauðu strikum er liðin hjá. Það gengur auðvitað ekki og það er auðvitað ekki því að treysta heldur að olíufélögin sem núna tímabundið, kannski einhverjar vikur, kannski bara út aprílmánuð, ætla að sitja á sér við að hækka bensínið en bæta sér það svo að fullu eftir að hættan varðandi rauðu strikin er liðin hjá í maímánuði. Það er auðvitað ekki boðleg aðferð og það er það sem við óttumst, herra forseti.

Þetta veldur mér vissulega vonbrigðum af því að mér fannst í gær í umræðum nefndarinnar um málið sem það væri ákveðinn vilji af hálfu meiri hlutans líka til að skoða einhverja framlengingu á þessu ákvæði. Ég sakna þess, herra forseti, að framsóknarmenn skuli ekki vera í salnum sem mér fannst taka jákvætt undir þetta í meðferð málsins í efh.- og viðskn. í gær.