Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 11:57:32 (6922)

2002-04-04 11:57:32# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[11:57]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að fagna þessu frv. Ég skil út af fyrir sig að hv. 5. þm. Reykv. vilji framlengja tímann til 1. nóv. úr því að hér stendur til loka júnímánaðar. Ef í þessari tillögugr. hefði staðið 1. nóv. hefði hv. þm. sagt 1. jan. eins og hún hefur unnið hér á þinginu og kemur auðvitað ekki á óvart yfirboð af þessu tagi.

Það sem vekur sérstaka athygli mína er að hv. þm. kvartaði hvað eftir annað í ræðu sinni áðan undan því að hafa ekki getað fengið greinilegt svar um það frá olíufélögunum hvaða verðpólitík þau hyggist hafa núna í sumar, reynir að draga fram að það sé óeðlilegt að ekki skuli vera samráð milli olíufélaganna um verðpólitík fyrir þessa sumarmánuði, kemst svo að orði að það valdi miklum vonbrigðum að olíufélögin geti ekki gefið sameiginlega yfirlýsingu um það hvernig þau muni haga verðlagningu á bensíni á þessu sumri. Þetta er sá hv. þm. sem hvað eftir annað hefur komið upp í ræðustól, kvartað mikið um samráð olíufélaganna, samráð tryggingafélaganna, samráð matvöruverslananna og þar fram eftir götunum, og fordæmt slíkt. Svo kemur þessi hv. þm. upp núna og segir að það valdi sér vonbrigðum að olíufélögin skuli ekki hafa samráð um verðpólitík sem olíufélögin lýsi yfir á fundi með þingnefndinni. Mér finnst málflutningur af þessu tagi ekki sæmandi fyrir hv. þm. og hún eigi miðað við fyrri orð og fyrri umræður í þingsölum að halda sig við það að hún ætlist til þess að olíufélögin standi við samkeppnislögin og stundi heilbrigða samkeppni í landinu.