Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 11:59:29 (6923)

2002-04-04 11:59:29# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[11:59]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil frábiðja mér þennan útúrsnúning sem kemur fram hjá hæstv. forseta. Við erum auðvitað ekki óvön því í þingsal að hæstv. forseti blandi sér í umræður með mjög óvanalegum og sérkennilegum hætti eins og hann er að gera hér.

Ég hef lýst því, herra forseti, að ástæðan fyrir því að við erum að leggja til þessa dagsetningu er sú að þing situr ekki þegar dagsetning frv. rennur upp og þá geta verið þær aðstæður uppi að bensínverð hækki mjög mikið sem hefur óæskileg áhrif á vísitöluna. Það er fyrst og fremst tilgangurinn með þessari breytingu og ástæðan fyrir nákvæmlega þessari dagsetningu þannig að ég frábið mér svona útúrsnúning eins og fram kom úr munni forseta.

Svo frábið ég mér það líka, herra forseti, og mér finnst það ekki samboðið hv. þm. og forseta þingsins, að hann sé að leggja mér orð í munn, og það er ekki í fyrsta skipti sem hann gerir það. Ég hélt ekki fram að ég væri að leggja til í þingnefndinni að óska eftir samráði tryggingafélaganna. Hvers lags bull er þetta úr munni hæstv. forseta? Ég var að lýsa vonbrigðum mínum yfir því að það hefði komið fram hjá olíufélögunum að þau treysta sér ekki nema e.t.v. út aprílmánuð til að halda sig við það að hækka ekki bensínið. Er ég með því að biðja um samráð olíufélaganna? Hvers lags fjarstæða er þetta? Auðvitað kemur engum manni hér inni á óvart að hv. þm. Halldór Blöndal skuli halda uppi vörn fyrir olíufélögin sem haga sér iðulega, eins og margoft hefur komið fram, eins og ríki í ríkinu með verðsamráð. Það hefur margkomið fram þegar þau eru að biðja Samkeppnisstofnun um grið að því er varðar verðsamráð þeirra

Og auðvitað er það þverstæða og útúrsnúningur hjá hv. þm. að ég sé að kalla eftir samráði hjá tryggingafélögunum. Þvert á móti hef ég beitt mér fyrir því af fullri hörku á þinginu að komið sé í veg fyrir svona verðsamráð eins og tryggingafélögin hafa orðið vís að.