Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 12:06:27 (6926)

2002-04-04 12:06:27# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[12:06]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Við 1. umr. um þetta mál, sem fram fór í gær, lýsti ég almennum sjónarmiðum og viðhorfum til málsins. Ég þarf þess vegna ekki að vera langorður. Málið hefur ekki tekið breytingum og mín grundvallarviðhorf eru hin sömu. Samantekið gengur þetta mál út á að lækka almennt vörugjald af bensíni. Ég hef áður lýst því yfir að mér hefði fundist það skynsamleg ráðstöfun fyrir fáeinum mánuðum, að lögfesta breytingu á fyrirkomulagi við innheimtu þessa gjalds. Áður var það hlutfall af olíuverðinu, 97% af olíuverðinu, en er nú fest í tiltekna krónutölu, sem nú er 10,50 kr. Með þessu frv. er gert ráð fyrir að sú upphæð verði lækkuð um 1,55 kr., tímabundið eða til júníloka.

Það kemur fram í fylgiskjali með frv. að þetta muni hafa í för með sér tekjutap fyrir ríkissjóð sem nemur 80 millj. kr. Ég er talsmaður þess að á Íslandi sé rekin öflug velferðarþjónusta og geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því að til þess að standa straum af kostnaði við hana þarf að innheimta skatta. Ég hef verið mjög gagnrýninn á þær kerfisbreytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu á undanförnum árum. Þar hefur þeim verið ívilnað sem helst eru aflögufærir í okkar þjóðfélagi, fjármagnseigendum, hátekjufólki og stórfyrirtækjum sem búa við góðan hag. En launafólk hefur borið skarðan hlut frá borði því tekjuskattshlutfallið hefur farið hækkandi, þegar til langs tíma er litið og þess að skattleysismörk hafa ekki færst upp í samræmi við almenna verðlags- og launaþróun í landinu.

Þegar kemur hins vegar að þessum skatti þá gerist ég nokkuð blendinn. Auðvitað er það öllum til hagsbóta sem þurfa að nota bílinn mikið þegar bensínið lækkar og þar af leiðandi útgjöld heimilisins. Hins vegar er það mitt sjónarmið almennt að þessi skattheimta sé ekki óeðlileg. Hún er í sjálfu sér umhverfisvæn því að hún dregur úr bílaumferð sem veldur mengun.

Í skýringum með þessu frv. er vísað til þess að heimsmarkaðsverð á olíu hafi farið hækkandi. Eins og fram hefur komið í fréttum hækkaði verðið fyrir olíutunnuna um 4%, hálfan annan dollar, fyrir nokkrum dögum. Þetta segir til sín í bensínverðinu ef ekki er gripið til ráðstafana.

Ég hef vakið athygli á því að olíufélögin hafa birt ársreikninga sína þar sem fram kemur að þau skila miklum og umtalsverðum arði. Ég hefði viljað að þau tækju á sig þessar hækkanir í ríkari mæli en þau hafa gert og hefði kosið að ríkissjóði hefði verið forðað frá því að sinna því hlutverki. Auðvitað horfir maður í þetta tekjutap sem ríkissjóður verður fyrir.

Í gær kom fram í máli hæstv. fjmrh. að nú væri náttúrlega ekki fyrirsjáanlegt hver verðlagsþróun yrði á heimsmarkaði. Það hefur komið fram að á þessum árstíma fer heimsmarkaðsverð iðulega upp á við en hjaðnar síðan þegar líður á sumarið. En nú bætist það við að ástandið í Miðausturlöndum og í íslömskum olíuframleiðsluríkjum er í mikilli óvissu. Þar hafa verið uppi getgátur og reyndar tillögur um að menn beittu viðskiptaþvingunum gagnvart Vesturlöndum út af ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs. Þannig er þetta mál í hinni mestu óvissu og ekki víst hvort þau markmið sem lögð eru til grundvallar með þessum breytingum til sveiflujöfnunar nái fram að ganga á þessum skamma tíma sem frv. tekur til. Þess vegna kemur vissulega til álita að framlengja tímann eins og hér hefur verið rætt. Hins vegar verðum við að gera okkur grein fyrir því að það kostar peninga. Þar erum við hugsanlega að tala um 100 millj. kr. til viðbótar. Ég vil horfa á samhengi þess að skera niður tekjur ríkisins og hins vegar kröfurnar á þetta sama ríki. Þar hef ég gengið framarlega í flokki, þeirra sem vilja gera ríkar kröfur til ríkisins þannig að þar er að mörgu að hyggja.

Í nál. efh.- og viðskn. sem við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði eigum aðild að, með fyrirvara þó, er vísað til aðgerða sem ríkið hefur gripið til með það að markmiði að halda aftur af verðlagi. Þær ráðstafanir set ég ekki allar undir sama hattinn. Þar er t.d. vísað í að fallið hafi verið frá gjaldtöku á árinu 2002 vegna hækkunar áfengisgjalds sem gert var ráð fyrir í fjárlögum. Áfengisgjaldið finnst mér ekki ósanngjarn skattur eða óheppilegur skattur. Ég er fylgjandi þeim skatti þannig að ég er ekki ýkja hrifinn af þeirri ráðstöfun. Hitt hins vegar sem lýtur að Ríkisútvarpinu hef ég gagnrýnt. Þar var fallið frá heimild Ríkisútvarpsins til að hækka afnotagjöldin, reyndar er heitið myndarlegri innspýtingu í þá stofnun til að vega upp á móti tekjuskerðingunni. Á þeirri fjárveitingu hefur staðið en Ríkisútvarpið hefur þurft að bregðast við niðurskurðinum, öllu heldur fyrirsjáanlegum tekjumissi, með því að draga saman seglin og hugsanlega segja upp fólki, a.m.k. hafa borist fréttir af þessu. Þetta hef ég gagnrýnt.

Hins vegar fagnaði ég því innilega að fallið væri frá hækkun komugjalda sjúklinga, það þótti mér heppileg ráðstöfun. Ég set þessar ráðstafanir þannig ekki allar undir sama hatt en lýsi engu að síður því grundvallarsjónarmiði til þessa máls að ég mun styðja það sem mikilvægt framlag til sveiflujöfnunar á þessu sviði og til að stuðla að verðhjöðnun í landinu. Ég hefði aftur á móti kosið að olíufélögin, sem eru sannanlega aflögufær, hefðu axlað sínar byrðar myndarlegar en raun ber vitni.