Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 12:21:19 (6930)

2002-04-04 12:21:19# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[12:21]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef vakið athygli á því að þetta mál er ekkert svart/hvítt. Ýmislegt mælir með því og annað mælir á móti því. Síðan þarf maður að taka efnislega afstöðu til málsins, vega og meta kostina.

Niðurstaða mín og okkar, eftir að kostir og gallar málsins hafa verið vegnir og metnir, er sú að styðja þetta mál. Með tilliti til þess sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefnir um afstöðu hreyfingar launafólks þá horfa menn að sjálfsögðu til mikilvægis þess að koma hér böndum á verðbólgu og ég held að allt samfélagið sem betur fer sé meðvitað um mikilvægi þess. En samtök launafólks hafa einnig lagt áherslu á aðra þætti, þ.e. að hér sé rekin öflug velferðarþjónusta í landinu. Og til þess að standa straum af kostnaði við þessa velferðarþjónustu sem við viljum reka með sköttum, þá þarf að afla þeirra. Við viljum sýna fulla ábyrgð þegar kemur að ákvörðunum sem lúta að tekjuöflun fyrir ríkissjóð.

Að þessum þáttum er því að hyggja þegar við tökum á þessu máli sem einmitt lýtur að skattlagningunni.