Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 12:45:31 (6932)

2002-04-04 12:45:31# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[12:45]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. lýsir heilbrigðum efasemdum um að sú aðferð sem hér er lögð fram þjóni fyllilega þeim tilgangi sem yfirlýstur er í frv. og af hálfu hæstv. ráðherra. Hann er heldur ekki alveg sannfærður um að sá herleiðangur allur leiði til þess að varanlegur árangur náist í að bægja frá verðbólgu og ég skil það fullkomlega hjá hv. þm.

Ég hef fyrir hönd okkar í Samfylkingunni lýst ákveðnum viðhorfum sem birtast í þeirri brtt. sem við höfum hér lítillega rætt. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að hann var með ákveðnar hugmyndir sem fóru reyndar saman við ýmislegt sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ræddi á fundi efh.- og viðskn. í gær. Og ég vil þakka honum fyrir þær undirtektir sem voru ákaflega jákvæðar af hans hálfu gagnvart tillögunni.

Hv. þm. telur að hægt væri með ýmsu móti að koma þessu haganlegar fyrir þannig að ekki væri um að ræða varanlega lækkun á vörugjaldinu ef við sæjum lækkun á heimsmarkaðsverði á bensíni. Það sem hv. þm. er þá að tala um er að fylgni væri á milli lækkunar á heimsmarkaðsverði og því að dregið yrði úr lækkun vörugjaldsins. Ég tel, herra forseti, að þetta komi fyllilega til greina og þess vegna vil ég segja fyrir mína hönd og minna pólitísku vandamanna að við erum alveg reiðubúin til að fallast á slíka tillögu og ég held, miðað við þær umræður sem urðu innan efh.- og viðskn. í gær, að þá hljóti að vera möguleiki á að ná samstöðu um það.

Ég hjó eftir því að í máli ýmissa stjórnarliða, m.a. eins þingmanns Framsfl., komu fram svipuð viðhorf. Og tveir gesta á fundi nefndarinnar ræddu slíkt hið sama, þar á meðal einn af þeim sem hæstv. fjmrh. ræðir reglulega við um viðnám gagnvart verðbólgunni, þ.e. fulltrúi ASÍ. Ég tel því að skynsamlegt sé að draga þessa tillögu til baka og fresta henni áður en við förum í atkvæðagreiðslu og ræðum þetta frekar á milli umræðna.