Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 12:47:49 (6933)

2002-04-04 12:47:49# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[12:47]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það væri mjög áhugavert ef mönnum gæfist örlítið tóm til að skoða þetta betur og mér heyrist nú að við séum í öllum aðalatriðum sammála í þessu máli, ég og hv. þm., þannig að ekki er svo sem tilefni til að lengja ræðuhöld um það.

Það sem væri mjög fróðlegt að heyra væri hvort hæstv. fjmrh. væri til í að leggja því lið að þetta yrði skoðað á þeim grunni að þarna yrði frekar reynt að útfæra sveiflujöfnunarbil, einhvers konar sveiflujafnara, stuðpúða, gagnvart verðflökti á olíuvörum, eða ,,buffer`` eins og það hefur nú sennilega verið kallað í efnafræðinni, þannig að menn næðu þeim árangri sem menn eru að leita eftir og ætlunin er að stefna að. Ég held að það væri mjög gott ef tækist að gera það. Það getur vel verið að ráðherra telji ekki tíma til þess og vilji drífa þetta í gegn en þá er þeirri spurningu ósvarað hvað kann að gerast 1. júlí, og það er þá veikleikinn í málinu ef óbreytt frv. verður knúið fram.

En ég lýsi mig mjög reiðubúinn til þess að skoða með hv. þm. hvort mögulega væri hægt að vinna þetta eitthvað frekar, hvort sem það gerðist þá með því að hann kalli brtt. sína aftur og við vinnum þetta og hún verði þá endurflutt ef ekki vill betur til við 3. umr. eða þetta verði gert einhvern veginn öðruvísi.