Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 12:49:20 (6934)

2002-04-04 12:49:20# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[12:49]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér sýnist að ég og hv. þm. séum sammála um að hægt sé að ná samstöðu um þetta.

Ég nefndi áðan í fyrri ræðu minni að í efh.- og viðskn. í gær kom skýrt fram að það örlaði á vilja hjá mönnum innan stjórnarliðsins til að fara þessa leið. Gestir nefndarinnar, þar á meðal fulltrúi ASÍ, voru þeirrar skoðunar líka. Þetta er allt saman spurning um tiltrú. Er þetta ferðalag sem verkalýðshreyfingin og hæstv. ríkisstjórn hafa lagt sameiginlega í, með tilstyrk og að áeggjan stjórnarandstöðunnar, líklegt til þess að skila varanlegum árangri í baráttunni gegn verðbólgunni? Ef ekki þá mundum við standa frammi fyrir því sem sumir greiningarmeistarar fjármálastofnana lýstu í fjölmiðlum í gær, að þegar kæmi fram á sumar tæki verðbólgan að rísa aftur og mundi rísa út árið og ekki hjaðna aftur fyrr en komið væri í febrúar á næsta ári. Og það er nokkuð sem við viljum ekki sjá, herra forseti.

Tiltrúin skiptir máli. Hvers vegna? Vegna þess að ef atvinnulífið, sem hefur líka tekið þátt í þessu með ákaflega jákvæðum hætti, fær á tilfinninguna að eitthvert hálfkák sé í gangi hjá hæstv. ríkisstjórn þá er líklegt að menn þar kippi fljótt að sér höndum. Þá er sömuleiðis líklegt að menn í atvinnulífinu ráðist ekki í frekari verðlækkanir, sem e.t.v. væri tilefni til. Enn er ákveðin hætta fyrir höndum. Fram kom með skilmerkilegum rökum í efh.- og viðskn. í gær að enn eru ekki öll áhrif hinnar miklu gengislækkunar á síðasta ári alveg komin fram.

Það skiptir því miklu að vel takist til og þess vegna held ég að við þurfum að reyna að búa til einhverja leið sem tæki á því, ef svo færi að árstíðasveiflan birtist ekki með lækkun eins og menn gera ráð fyrir, og það er svo margt sem bendir til að svo verði ekki. Þá kæmi aðferð af þessu tagi sem við erum að tala hér um, ég og hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon, mjög til álita til að bæta þar úr.