Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 12:51:38 (6935)

2002-04-04 12:51:38# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[12:51]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég hef svo sem ekki mjög miklu við það að bæta sem ég hef þegar sagt. Þó vil ég að fram komi að sú aðferð sem menn eru að leggja hér til miðar að því að skera af árstíðabundinn kúf sem menn sjá jafnan um þetta leyti árs á bensínverði. Gert er ráð fyrir að þegar líður fram undir mitt sumar þá lækki bensínverð aftur. Þess vegna er sett ákveðið sólarlagsákvæði inn í þessi lög sem gera ráð fyrir að í lok júní gangi vörugjaldslækkunin til baka.

Við allar eðlilegar aðstæður væri lítið við þetta að athuga. Við allar eðlilegar aðstæður mætti gera því skóna að árstíðasveiflan sem við höfum séð undanfarin ár birtist í lækkun á þessum tímapunkti. En við búum hins vegar ekki við eðlilegar aðstæður, herra forseti, þegar við horfum til ástandsins í heimsmálum. Þrennt blasir við sem við hljótum að þurfa að taka tillit til.

Í fyrsta lagi hafa blossað upp viðsjár fyrir botni Miðjarðarhafs með þeim hætti að verið gæti að það tundur sem þar er að springa glæddist í loga sem mundi kveikja ófriðarbál á stóru svæði þar sem menn framleiða olíu. Það mundi að sjálfsögðu leiða til þess að heimsmarkaðsverð mundi ekki lækka eins og menn eru að tala um heldur mundi það hækka.

Í öðru lagi blasir það við að forseti Bandaríkjanna, Bush, hefur skekið skellum að ýmsum ríkjum á því svæði þar sem olíuframleiðsla er mest. Bush Bandaríkjaforseti hefur haft í hótunum um að Bandaríkin ætli að ráðast á Írak. Jafnan þegar menn hafa uppi stríðsæsingar birtist það í því að verð á bensíni hækkar, verð á olíu hækkar, ekki síst þegar ljóst er að slíkar stríðshótanir beinast beinlínis að ríki sem er virkt í olíuframleiðslu.

Í þriðja lagi blasir einnig við að í Suður-Ameríku, í Venesúela, sem er vaxandi olíuframleiðsluríki, situr á stóli forseti sem hefur beitt sér fyrir því að samtök olíuframleiðsluríkja dragi úr framleiðslu sinni með það beinlínis að markmiði að hækka verð á olíu á heimsmarkaði.

Allt þetta sjáum við að er í gangi um þessar mundir. Það er því með engu móti hægt að halda því fram að sú árstíðasveifla sem við höfum jafnan séð tjá sig í lækkun þegar líður fram undir lok júní komi endilega fram núna. Þvert á móti benda þessir þrír þættir til að svo verði ekki.

Að sönnu er rétt að geta þess að nú þegar er komin töluverð stríðspremía á olíuverðið. Við vorum upplýst um það á fundi efh.- og viðskn. í gær að það mætti meta hana til ígildis 4 dollara á olíutunnu, það er giska mikið. Ef friðvænlegar mundi horfa á næstu mánuðum mundi verðið væntanlega lækka sem þessu nemur, en það er því miður ekkert sem bendir til að svo verði.

Þess vegna skiptir máli að sú breyting sem við ræðum hér og menn eru í sjálfu sér sammála um að eigi að framkvæma verði gerð með þeim hætti að ef þetta gerist, þá sé hægt að framlengja vörugjaldslækkunina. Eins og hæstv. fjmrh. benti á í gær stenst það ekki stjórnarskrá að leggja til sérstakt ákvæði sem beinlínis framseldi af þingsins hálfu til framkvæmdarvaldsins vald til þess að breyta vörugjaldinu, hækka það og lækka eftir þörfum. Ég er sammála hæstv. fjmrh. að það gengur ekki.

Hins vegar hefur komið fram í umræðunni, alveg eins og í umræðu í efh.- og viðskn. í gær, að hægt er að fara aðrar leiðir. Hægt er að fara leiðir sem gera ráð fyrir að lækki heimsmarkaðsverð dragi í sama mæli úr vörugjaldslækkuninni. Þetta er bara einföld formúla, herra forseti, sem mundi standast allar þær kröfur sem gerðar eru til lagasetningar af þessu tagi. Hún mundi líka gera það að verkum að ríkisstjórnin sýndi það svart á hvítu að hún er í baráttu fyrir varanlegri lækkun verðbólgunnar og það er það sem skiptir máli. Við þurfum að sýna fólki fram á að stjórnvöld í landinu eru að gera þetta af fullri alvöru. Það er enn meiri nauðsyn á því nú en áður þegar við blasir að fjármálastofnanir í landinu hafa sent frá sér greiningar á stöðunni sem beinlínis hafa verið túlkaðar þannig, m.a. af ábyrgum forustumönnum í verkalýðshreyfingunni, að þetta ferðalag hæstv. ríkisstjórnar sé í reynd eins konar verðbólgufiff. Ég held að það sé ákaflega hættulegt ef þjóðin fær það á tilfinninguna.

Þjóðin, fyrirtækin í landinu, fólkið í landinu hefur allt saman tekið með einhverjum hætti þátt í þessari baráttu. Við hér í þinginu, stjórnarandstaðan, höfum eggjað ríkisstjórnina lögeggjan að láta sitt af mörkum. Það var stjórnarandstaðan sem hafði frumkvæði að því í umræðum á þingi fyrir síðustu jól að ríkisstjórnin gripi til aðgerða til þess að afnema ákveðnar hækkanir á þjónustu hins opinbera. Þetta var allt saman mjög jákvætt og þetta skapaði andrúmsloft sem leiddi til þess að þrýstingur varð á fyrirtækin í landinu að taka aftur hækkanir til þess að lækka verð. Flest fyrirtækjanna gerðu það. Að vísu var það svo að stórir hringar á sviði matvælaverslunar tóku ekki þátt í því og má eiginlega segja að þeir hafi hæðst að þessu framtaki ríkisstjórnar og verkalýðshreyfingar og þeirra fyrirtækja sem tóku þátt í þessu.

En, herra forseti, við höfum séð ákveðinn árangur. Hann skiptir máli fyrir þær fjölskyldur sem skuldugar eru, hann skiptir máli fyrir fyrirtækin í landinu og það skiptir máli að ríkisstjórnin sýni það svart á hvítu að hugur fylgi máli.

Ég spyr þess vegna hæstv. fjmrh.: Telur hann ekki að vænlegt væri til sátta í þessu máli ef við mundum draga til baka þá tillögu sem við höfum kynnt hér í umræðunni, hún yrði ekki afgreidd endanlega fyrr en við 3. umr. og það yrði reynt að komast að samkomulagi um einhvers konar útfærslu sem stæðist í senn kröfur stjórnarskrár en jafnframt tryggði að vörugjaldið mundi vera áfram, lengur fram á árið en gert er ráð fyrir í frv. hæstv. fjmrh., en hins vegar yrði svo um hnútana búið að ef heimsmarkaðsverð á olíu lækkar þá dragi úr vörugjaldslækkuninni.

Ég undirstrika það, herra forseti, að fram kom hjá Gylfa Arnbjörnssyni, fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar, á fundi efh.- og viðskn. í gær að hann var þessu mjög hlynntur.

Herra forseti. Þetta er sú spurning sem ég vildi gjarnan að hæstv. fjmrh. svaraði einhvern tíma í umræðunni.