Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 12:59:28 (6936)

2002-04-04 12:59:28# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[12:59]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. þm. þá sé ég ekki á þingskjölum og hef ekki tekið eftir því í umræðum að einhver sérstök þörf sé á því að skapa breiða sátt um málið því að hún er skjalfest í nál. efh.- og viðskn. Það er sátt um frv., lagt er til að það verði samþykkt óbreytt meira að segja, þó að einstakir þingmenn hafi áskilið sér rétt til þess að flytja þá brtt. sem hér hefur komið fram. Málið er því í eðli sínu þess efnis að um það og markmið þess er að því er virðist ágæt samstaða.

Ég hef hins vegar áður í umræðunni lýst afstöðu minni til þeirrar brtt. sem hér liggur frammi, ég er ekki sáttur við hana, ég er ekki samþykkur henni.

Að því er varðar þær umræður manna um að almennt þurfi að breyta kerfinu í bensíngjaldi til aukinnar sveiflujöfnunar, þá má vel vera að það sé hugmynd sem hægt er að ræða. En ég tel hins vegar ekki að það sé mál sem hægt er að hrista fram úr erminni í tengslum við afgreiðslu þessa litla frv., ég tel að við verðum að afgreiða þetta mál. Hins vegar er það þáttur sem eflaust má skoða betur hvort við getum búið þannig um hnútana að meiri sveiflujöfnun sé innbyggð í okkar kerfi almennt talað að því er varðar olíuvörur heldur en nú er, án þess þó að ríkissjóður gerist allsherjarábyrgðaraðili gagnvart slíkum breytingum og taki ævinlega á sig slíkar sveiflur. Ég held að það geti ekki gengið, eins og ég sagði reyndar hér áðan.

Hv. þm. og flutningsmenn brtt. verða auðvitað að gera það upp við sig hvort þeir draga hana til baka eða láta greiða um hana atkvæði við 2. umr. Það verða þeir að ákveða sjálfir en afstaða mín í þessu máli er sú sem ég hef greint frá.