Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 13:01:20 (6937)

2002-04-04 13:01:20# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[13:01]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það kann auðvitað að vera að hæstv. ráðherra hafi dottað undir þessum ræðum í sæti sínu. Það sem við vorum að ræða hér áðan, ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, var ákveðin útfærsla á brtt. sem ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir höfum flutt. Það hefur komið fram í máli fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar í efh.- og viðskn. og hjá stöku þingmanni stjórnarliðsins sem hafa tekið þátt í umræðum um þetta mál þar, að það kynni e.t.v. að fara betur á því að vörugjaldslækkunin yrði ekki slegin af í einu vetfangi á tilteknum degi í júní. Ástæðan er sú að það er ekkert víst, reyndar bendir fátt til þess, að lækkun á bensínverði, sem er beinlínis forsenda þeirrar hugmyndafræði sem er að baki frv. hæstv. fjmrh., muni verða.

Ég rakti í ræðu minni ýmis rök sem benda þvert á móti til þess að ólíklegt sé að af henni verði. En það er hins vegar mögulegt. Þess vegna leggjum við hér til útfærslu sem er þess eðlis að vörugjaldslækkunin haldi áfram inn í sumarið til 1. nóvember en lækki hins vegar heimsmarkaðsverð á bensíni þá dragi að sama skapi úr vörugjaldslækkuninni.

Auðvitað hefur þetta í för með sér tiltekin útgjöld fyrir ríkissjóð. Það er líka rétt að ríkissjóður hefur nú þegar staðið undir lækkunum sem svara til 800 millj. kr. og ríflega, ef kostnaður við þetta frv. er meðtalinn. En með því að gera þetta mundi ríkisstjórnin sýna einbeittan vilja til að draga varanlega úr verðbólgu.

Auðvitað eykur það ekki tiltrú á þessum gerningi ríkisstjórnarinnar og vinnubrögðum hennar í málinu ef við blasir að jafnvel þó að heimsmarkaðsverð hækki í lok júní verði þessi lækkun samt tekin til baka. Ég hygg að félagar hæstv. ráðherra í verkalýðshreyfingunni, sem hafa vélað um þetta með honum, yrðu ekki mjög ánægðir yfir því.