Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 13:16:41 (6942)

2002-04-04 13:16:41# 127. lþ. 109.2 fundur 704. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (bensín) frv. 22/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[13:16]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að þakka hæstv. fjmrh. fyrir að hann muni beita sér fyrir því að þær tillögur um breytingar á fjárlögum sem þegar hafa verið ákveðnar komi til fjárln. til umfjöllunar. En það hefur ekki verið sjálfgefið hingað til.

Í öðru lagi vil ég líka minna hæstv. ráðherra á að það stendur heldur ekki í lögunum um fjárreiður ríkisins að fjáraukalög skuli koma út að hausti. Þar stendur einungis að þegar breytingar eru gerðar á fjárlögum skuli þær staðfestar með fjáraukalögum. Ég ítreka því að ég tel að það væri virkilega til bóta fyrir stjórnsýsluna í landinu og fyrir fjármálaumsýslu ríkisins að fjáraukalög verði lögð fyrir þingið að vori þannig að þær fjárheimildir sem verið er að vinna eftir á hverjum tíma séu sannarlega á ábyrgð Alþingis.